Sárar minningar vakna á „holdsveiki-nýlendunni“

Enn einu sinni eru þeir einangraðir frá umheiminum, áður vegna holdsveiki en nú vegna COVID-19. Á árum áður skiptu þeir hundruðum en í dag eru þeir um tíu. Allir eru þeir aldraðir og völdu að dvelja áfram á eyjunni sem stjórnvöld neyddu þá til fara til.

Kalaupapa-skaginn og þorpið sem þar er enn.
Kalaupapa-skaginn og þorpið sem þar er enn.
Auglýsing

Þó að náttúran sé þar stórbrotin er það ekki hún sem fyrst og fremst varð til þess að Kalaupapa-þjóðgarðurinn á Hawaii var stofnaður. Innan hans býr fólk – fólkið sem einmitt var ástæða þess að ákveðið var að friðlýsa svæðið. Fólk sem var flutt þangað í einangrun gegn vilja sínum fyrir áratugum en valdi svo síðar þann kost að búa þar áfram.

Á Molokai-eyju í Hawaii-eyjaklasanum umkringja háir og brattir sjávarhamrar láglendan skaga. Skógi vaxin fjöllin bera mildri veðráttu eyjunnar vitni. Á skaganum er að finna þorp og þar býr um tugur manna sem á sér ákaflega sérstaka sögu. Allt var fólkið flutt nauðugt til eyjunnar eftir að hafa smitast af sjúkdómi sem í dag  kallast Hansen-veiki betur þekkt sem holdsveiki.

Þetta eru þeir einu sem enn lifa og búa á eyjunni af þeim þúsundum sem fluttar voru þangað í einangrun – eða öllu heldur skipað þangað í útlegð – allt frá síðari hluta nítjándu aldar. Allt var þetta gert á grundvelli sérstakra laga sem áttu að hefta útbreiðslu holdsveiki á Hawaii. Og íbúarnir sem fyrir voru á skaganum og höfðu búið þar kynslóð fram af kynslóð, voru fluttir annað til að rýma fyrir sjúklingum holdsveiki-nýlendunnar eins og hún var kölluð.

Engir vegir liggja að skaganum. Þangað þarf að fljúga eða sigla. Þar er enginn lögreglumaður, ekkert sjúkrahús. Ef einhver þarf á læknisþjónustu að halda þarf að fljúga með hann til annarrar eyju.

Auglýsing

Íbúarnir eru aldraðir, sumir á tíræðisaldri. Og því í hópi þeirra sem geta veikst hvað alvarlegast af COVID-19. Því hefur verið gripið til þess ráðs að banna komur ferðamanna til Kalaupapa-þjóðgarðsins. Líkt og annars staðar í heiminum hafa ferðalög til Hawaii nánast lagst af en þó koma þangað nokkrir tugir ferðamanna í viku hverri og einhverjir þeirra höfðu hug á því að heimsækja Kalaupapa.

Holdsveiki er smitsjúkdómur sem orsakast af bakteríu sem leggst sérstaklega á kaldari svæði líkamans svo sem fingur, tær, eyru og nef. Talið er að holdsveiki smitist við snertingu og með dropa- og úðasmiti. Sjúkdómurinn leggst á taugar í útlimum og getur valdið tilfinningaleysi, krepptum vöðvum og lömunum. Nú er til auðveld lækning við holdsveiki en skemmdir á taugum og öðrum vefjum eru þó varanlegar. Tekist hefur að útrýma holdsveiki víðast hvar í heiminum en hún er þó enn landlæg á vissum svæðum, m.a. á Indlandi.

Faðir Damien ásamt stúlknakór í Kalaupapa um miðjan áttundaáratug nítjándu aldar. Mynd: Wikipedia

Frumbyggjar Hawaii voru einangraðir í hundruð ára og þegar fólk af evrópskum uppruna hóf að venja komur sínar þangað bar það með sér smitsjúkdóma sem lögðust þungt á eyjaskeggja. Talið er að holdsveiki hafi komið þangað um árið 1830. Á árunum 1865-1969, eða í tæpa öld, voru um 8.000 Hawaii-búar sem smitast höfðu af sjúkdómnum fluttir nauðugir til Kalaupapa. Talið er að þegar mest lét hafi um 1.200 karlar, konur og börn verið þar samtímis. Langflestir þeirra voru frumbyggjar og margir þeirra voru teknir frá fjölskyldum sínum ungir að árum. Yngsti sjúklingurinn sem þangað var fluttur var fjögurra ára.

Fólkið var lengi vel nokkuð eitt á báti og varð að bjarga sér. Það voru helst trúboðar og frumbyggjar sem fyrir voru á eyjunni sem réttu fram hjálparhönd.

Sífellt fleiri voru sendir til eyjunnar og lífsbaráttan harðnaði samhliða. Og þó að lækning við holdsveiki hafi fundist og borist til Hawaii árið 1949 var það ekki fyrr en tveimur áratugum síðar sem einangrunarlögunum hörðu var aflétt. Þá mátti fólkið sem hafði verið flutt á Molokai-eyju loks snúa aftur til síns heima.

Óttuðust útilokun

En margir ákváðu að vera um kyrrt. Það voru meðal annars þeir sem höfðu dvalið þar í áratugi, þekktu ekkert annað og vildu gera eyjuna að sínu heimili til framtíðar. Aðrir höfðu misst allt samband við fjölskyldur sínar og höfðu að engu að hverfa annars staðar. Það var líka hræðslan við útilokun og  áreiti sem varð til þess að margir töldu það skásta kostinn að dvelja áfram á „nýlendunni“.

Næstu ár og áratugi fækkaði fólkinu á skaganum einangraða smám saman og þeir sem eftir voru vildu halda sögu fólksins sem þangað hafði verið flutt til haga. Ákveðið var að leita til þjóðgarðastofnunar Bandaríkjanna og árið 1980 var Kalaupapa-skaginn gerður að þjóðgarði vegna sögu sinnar.

Þjóðgarðsverðirnir í garðinum hafa annars konar hlutverk en flestir kollegar þeirra annars staðar í heiminum. Þeir safna m.a. sögum frá núverandi og fyrrverandi íbúum. Þá ber þeim einnig að vernda hina fáu íbúa sem eftir eru og veita þeim þá þjónustu sem þeir þurfa.

Enginn mátti snerta þá

Á meðan lögin voru í gildi mátti enginn nálgast þá eða snerta. Á skaganum var sérstakt hús sem notað var til að sótthreinsa allt sem fór til og frá sjúklingunum.  Og eftir að fólkið hafði allt læknast og lögin voru afnumin varð það áfram fyrir miklum fordómum og mismunun. Þar sem fólkið bar þess merki að hafa veikst varð það auðveldlega fyrir aðkasti.

Áratuga langa einangrun er erfitt að rjúfa. Að hafa orðið af snertingu í langan tíma hafði miklar afleiðingar á líðan fólksins. Faðmlög og handabönd hafa verið hluti af lækningunni síðustu ár. En núna, á tímum COVID-19, hefur orðið að láta af allri snertingu á ný. Þetta hefur vakið erfiðar minningar hjá íbúunum sem hafa deilt sögum af einsemd og mismunun sem þeir urðu fyrir meira og minna allt sitt líf.

Grafreitur í Kalaupapa-þjóðgarðinum.

Á vefsíðu þjóðgarðsins má lesa reynslusögur margra þeirra sem fluttir voru á eyjuna. Einn þeirra greinir svo frá dvölinni þar sem lauk árið 1977:

„Þeir náðu mér í skólanum. Þetta var á Stóru-Eyju. Ég var tólf ára. Ég grét og bað um móður mína og fjölskyldu. En heilbrigðisyfirvöld voru ekkert að tvínóna við hlutina á þessum tíma. Þau sendu mig til Kalaupapa. Þangað sendu þau okkur flest. Flestir komu þangað til að deyja.“

Kona sem bjó á eyjunni til loka áttunda áratugarins lýsir sinni reynslu með þessum hætti:

„Ég var á Kalaupapa í þrjátíu ár. Ég mátti loks fara árið 1966. Móðir mín var enn á lífi svo ég skrifaði henni og sagði að ég væri loksins læknuð og að ég gæti komið heim. Það leið langur tími þar til svarbréf hennar kom. Hún skrifaði: Ekki koma heim. Vertu á Kalaupapa.

Ég held að mamma hafi skammast sín fyrir mig.“

Síðustu ár hafa ættingjar þeirra sem fluttir voru til Kalaupapa komið þangað til að leita upplýsinga um ástvini sína. Nokkrir grafreitir eru á skaganum. Um þúsund grafir eru merktar en steinarnir eru flestir orðnir mjög veðraðir. Til að komast til Kalaupapa þarf að fá sérstakt leyfi. Þar er ekki stunduð fjöldaferðamennska. Þegar síðasti íbúinn fellur frá stendur mögulega til að hleypa þangað fleiri ferðamönnum sem vilja fræðast um hina átakanlegu sögu fólksins sem neytt var til að flytja þangað og svo þeirra sem gátu ekki hugsað sér að fara þaðan. 


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorkell Helgason
Kominn er tími á umbætur á kosningakerfinu
Kjarninn 3. ágúst 2021
Minnsti álútflutningur í átta ár
Þrátt fyrir hækkandi álverð á heimsvísu hefur magn útflutts áls minnkað á síðustu mánuðum. Heildarútflutningur á síðasta árshelmingi hefur ekki verið minni síðan árið 2013.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Katrín Baldursdóttir og Símon Vestarr
Katrín Baldursdóttir og Símon Vestarr efst hjá Sósíalistaflokknum í Reykjavík suður
Listi Sósíalistaflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður hefur verið kynntur. „Þetta er fjölbreyttur listi og kraftmikill. Fólk sem vill breyta samfélaginu þannig að allir hafi tækifæri til blómstra, hafi öruggt og gott húsnæði og góð laun,“ segir oddvitinn.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Sigmundur Ernir ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins
Jón Þórisson, sem hefur ritstýrt blaðinu frá því haustið 2019 ætlar að snúa sér að öðrum störfum. Sigmundur Ernir verður einnig aðalritstjóri Torgs.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Bólusetningin hafi ekki skapað það hjarðónæmi sem vonast var til
Flest smit að undanförnu má rekja til hópatburða en delta afbrigði veirunnar hefur breiðst út á ótrúlegum hraða að sögn sóttvarnalæknis. Til stendur að bjóða þeim sem fengu Janssen bóluefni upp á aðra bólusetningu sem og að bólusetja 12 til 15 ára börn.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir
Náttúruspjöll í Vatnajökulsþjóðgarði
Kjarninn 3. ágúst 2021
Eggert Þór Kristófersson forstjóri Festis segir félagið ekki ætla að reyna fyrir sér í byggingargeiranum.
30 þúsund fermetra uppbygging í stað bensínstöðva
Samkvæmt samkomulagi Festis við Reykjavíkurborg á Festi byggingarrétt á lóðum þar sem til stendur að loka bensínstöðvum N1. Félagið hyggst selja byggingarréttinn í stað þess að byggja. „Það er ekki okkar bissness, það eru aðrir í því,“ segir forstjórinn.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Raddir margbreytileikans
Raddir margbreytileikans
Raddir margbreytileikans – 5. þáttur: „Vits er þörf þeim er víða ratar“
Kjarninn 3. ágúst 2021
Meira úr sama flokkiErlent