Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis segir að sem betur fer hafi almennt starfsfólk Alþingis ekki upplifað jafn mikið einelti og kynbundið áreiti og þingmenn segjast hafa upplifað. Niðurstöður nýrrar könnunar sem þingið lét Félagsvísindastofnun þykja þingforsetanum sláandi, en samkvæmt þeim hefur á annan tug þingmanna orðið fyrir einelti og/eða kynbundinni áreitni í tengslum við starf sitt, eða um og yfir þriðjungur þeirra þingmanna sem svöruðu könnuninni.
„Maður er auðvitað alltaf sleginn þegar maður sér svona niðurstöður, af því það á við um þetta, að hvert einasta tilvik er einu tilviki of mikið. Þetta er eitthvað sem maður vill ekki sjá og maður verður dapur þegar maður sér hvað þetta er útbreitt,“ segir Steingrímur.
Hann hefur setið á Alþingi í áratugi, en þegar blaðamaður spyr hvort hann teldi stöðu mála hvað varðar þá hluti sem Félagsvísindastofnun var að mæla í könnuninni hafa verið verri eða betri áður fyrr, segir Steingrímur að það sé erfitt að meta. Tíðarandinn hafi verið annar.
„Það er mjög erfitt, held ég, að fara að láta draga sig út í reyna að meta það, eða hafa einhverja tilfinningu fyrir því. Ég hef viljað trúa því að ýmislegt væri að batna í samskiptum kynjanna og að það sem er kallað á mannamáli kvenfyrirlitning og slík óviðeigandi framkoma í garð kvenna væri á undanhaldi, en umræðan er líka orðin sem betur fer orðin opnari og það er líklega að menn segi frá svona hlutum,“ segir þingforsetinn.
Hann segir að mögulega sé hægt að skýra þann töluverða mun sem er á upplifunum þingmanna og almennra starfsmanna Alþingis að í könnuninni hafi verið spurt um upplifanir fólks almennt, í tengslum við vinnuna, ekki endilega bara varðandi þann þátt vinnunnar sem á sér stað innan veggja Alþingis. „Það kann ef til vill að einhverju leyti að skýra að þessi munur birtist, fyrir utan að þetta er jú sérstakt starf, eins og allir vita,“ segir Steingrímur.
Sláandi hve fáir hafa látið vita
Samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar voru afar fáir svarendur í hópi starfsliðsins á þingi og þingmanna sem höfðu tilkynnt sérstaklega um óviðeigandi hegðun sem þeir hefðu upplifað. Það segir Steingrímur að hafi verið á meðal þess sem sló hann við niðurstöðurnar, hversu fáir hafi tilkynnt öðrum um það sem þeir hafi orðið fyrir.
„Það gildir eiginlega um allt, hvort sem það er einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni eða einhverskonar ofbeldisfull hegðun,“ segir Steingrímur.
Þingforsetinn kveðst einnig sleginn yfir því, sem fram kom í könnuninni, að helmingur þeirra þingmanna sem svöruðu teldu fjölskyldu sína hafa borið ama af starfi þeirra sem þingmenn, ýmist í starfi eða námi.
„Það er auðvitað ekki gaman, að sjá slíkt. Þessi könnun snýr þannig kannski að fleirum en bara okkur og er ákveðinn spegill inn í samfélagið líka, eins og allar mælingar af þessu tagi eru,“ segir Steingrímur, sem segir að ráðist hafi verið í gerð könnunarinnar til þess að vita Alþingi sem vinnustaður standi.
Þingið ætlar að vinna áfram með niðurstöður könnunarinnar á næstunni og Steingrímur segir að kynbundin áreitni verði áfram á dagskrá þingsins, rétt eins og hún hafi verið frá því að „#MeToo-bylgjan skall á ströndum Íslands“ á haustmánuðum 2017.