Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að ef það gangi vel að komast í gegnum þá erfiðleika sem nú standa yfir þá gæti það leitt til þess að traust á stjórnmál, sem hefur verið lítið árum saman, vaxi. „Ef erfiðleikarnir verða langvinnir þá eru meiri líkur á því að upp spretti öfl sem kalla eftir meiri lýðskrumspólitík. Þannig að ég held að það geti farið á hvort veginn sem er.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í ítarlegu viðtali Kjarnans við Katrínu sem birt var um liðna helgi. Viðtalið er hluti af umfjöllunarröð Kjarnans þar sem sjónum er beint að þeirri framtíð sem gæti sprottið upp úr stöðunni sem nú blasir við Íslandi efnahagslega. Fyrsti hluti þeirrar umfjöllunar voru viðtöl við alla þrjá formenn stjórnarflokkanna.
Katrín viðurkennir í viðtalinu að hafa ekkert hugsað um það undanfarið hvenær næstu kosningar eigi að fara fram, en kjörtímabilinu lýkur í síðasta lagi í október á næsta ári. Forsætisráðherra var búin að gefa það út að samtal myndi eiga sér stað um það á vettvangi Alþingis í sumar hvort þær verði aftur að hausti, sem er óvenjulegt í Íslandssögunni, eða hvort þær verði til að mynda haldnar að vori líkt og hefð er fyrir. Við það ætlar hún að standa þannig að allir stjórnmálaflokkar verði með skýra hugmynd um hvenær næst verði kosið þegar næsti þingvetur hefst.
Loftlags- og jafnréttismál líka hörð efnahagsmál
Katrín telur að Íslendingar eigi að nýta sér aðstæður nú til að hraða breytingum í umhverfis- og loftlagsmálum.
Ríkisstjórnin hefur þegar fundað um aðgerðaráætlun sína í loftlagsmálum og rætt hvort hún sé reiðubúin að halda áfram með þau markmið sem hún var búin að setja sér. „Það er fullur vilji til þess. En hins vegar hef ég áhyggjur af þessum málum á heimsvísu. Þau voru auðvitað í ákveðinni kreppu fyrir, þar sem til að mynda Bandaríkin voru búin að segja sig frá Parísarsamkomulaginu. Það sem maður skynjar eru miklar áhyggjur hjá þeim sem hafa verið að berjast fyrir þessum málum, aðallega grasrótarsamtökum, að COVID verði til þess að þessi mál lendi neðar á forgangslista ríkisstjórna. Þetta er dálítið eins og jafnréttismálin. Fólk óttast að þessi mál fari aftar í röðina af því að nú sé verið að fást við hin hörðu efnahagsmál. Á meðan ég segi að loftlags- og jafnréttismálin eigi líka að vera hörð efnahagsmál.“
Hægt er að lesa viðtalið við Katrínu í heild sinni hér og hlusta á það hér að neðan.
Hlaðvarp Kjarnans · Kvikan – Viðvarandi atvinnuleysi getur skapað mikinn ójöfnuð