Vaxtaálag á́ fyrirtækjalán íslensku bankanna hefur hækkað enn frekar samhliða hraðri vaxtalækkun Seðlabanka Íslands á stýrivöxtum sínum og eru vextir á nýjum fyrirtækjalánum nú um fimm prósentustigum yfir meginvöxtum Seðlabanka Íslands, sem eru oftast kallaðir stýrivextir.
Þetta kemur fram í nýjustu Peningamálum, riti um horfur í efnahags- og peningamálum sem Seðlabankinn gefur út fjórum sinnum á ári.
Þar er rakið að hratt hafi dregið úr útlánum til fyrirtækja þegar leið á síðasta ár, og sagt að það hafi verið í takt við hægari vöxt efnahagsumsvifa.
Stýrivextir hafa lækkað um 3,75 prósentustig á einu ári
Stýrivextir Seðlabankans hafa lækkað hratt síðastliðið ár. Frá því í maí í fyrra hafa þeir lækkað um alls 3,75 prósentustig og eru nú einungis eitt prósent. Það eru lægstu vextir sem Seðlabankinn hefur nokkru sinni boðið upp á í Íslandssögunni.
Þegar vextir voru lækkaðir í enn eitt skiptið í gærmorgun, þá um 0,75 prósentustig, kom fram að einnig hefði verið ákveðið að hætta að bjóða upp 30 daga bundin innlán í Seðlabankanum. „Felur það í sér að meginvextir bankans verða virkari og vaxtaskilaboð bankans skýrari. Aðgerðin ætti að öðru óbreyttu að auka laust fé í umferð og styrkja miðlun peningastefnunnar enn frekar.“