Stafræn ávísun upp á fimm þúsund krónur, sem allir sjálfráða landsmenn munu fá senda, verður framseljanleg til annarra en einn einstaklingur mun einungis mega geta greitt fyrir með 15 slíkum ávísunum, eða fyrir 75 þúsund krónur. Ávísanirnar, eða ferðagjafirnar eins og þær eru kallaðir í frumvarpi sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur lagt fram frumvarp á Alþingi, gilda út þetta ár.
Hvert og eitt fyrirtæki mun að hámarki tekið við 100 milljónum króna í formi ferðagjafa og fyrirtæki sem metið var í rekstrarerfiðleikum 31. desember 2019 getur að hámarki tekið við samanlagt 25 milljónum króna.
Útfærð í formi smáforrits
Um er að ræða aðgerð sem kynnt var 21. mars síðastliðinn, þegar ríkisstjórnin opinberaði fyrsta aðgerðarpakkann sinn. Í henni felst að senda á öllum einstaklingum 18 ára og eldri með íslenska kennitölu starfræna fimm þúsund króna gjöf útgefna af stjórnvöldum.
Frumvarpinu var hins vegar fyrst dreift á Alþingi á föstudag, rúmum tveimur mánuðum eftir að málið var kynnt.
Í greinargerð með frumvarpinu segir að ferðagjöfin sé „ útfærð í formi smáforrits í farsíma sem verður hægt að nota á einfaldan hátt til greiðslu. Einnig verður boðið upp á notkun greiðslukóða gegnum internetið. Miðstöð verkefnisins verður vefsvæðið Ferdalag.is sem hýsir jafnframt hvatningarátak um ferðalög innan lands sem Ferðamálastofa annast.[...]Smáforritið býður upp á einfalda lausn við millifærslu ferðagjafar, gefanda og móttakanda að kostnaðarlausu.“
Áætlaður kostnaður ríkissjóðs vegna ferðagjafarinnar er 1,5 milljarðar króna.
Vill skala hugmyndina upp
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sagði í nýlegu viðtali við Kjarnann að ein leið til að örva eftirspurn eftir ferðaþjónustu í sumar væri að skala upp hugmyndina um ferðagjöfina og eyða hærri fjárhæð en 1,5 milljarði króna í hana.
„Tæknilausnin liggur fyrir, útfærslan er einföld. Það væri hægt að skala þetta upp og búa til verulega eftirspurn eftir ferðaþjónustunni á Íslandi og flétta það síðan saman við opnun landamæra sem verður þó háð því hvernig öðrum löndum tekst að eiga við pláguna.“
Hægt er að lesa viðtalið við Sigurð Inga í heild sinni hér.