Bára Huld Beck

Það er ekki hægt að meta störf fólks bara með stimpilklukkunni

Ísland er í alvarlegri efnahagskreppu. Fyrirliggjandi er mörg hundruð milljarða króna tap á rekstri ríkissjóðs í ár, tugir þúsunda eru án atvinnu að öllu leyti eða hluta og þúsundir fyrirtækja standa frammi fyrir algjörri óvissu um hvort þau lifi eða deyi. Kjarninn hitti alla þrjá leiðtoga stjórnarflokkanna til að ræða þeirra sýn út úr þeim aðstæðum sem nú blasa við. Í dag er rætt við Sigurð Inga Jóhannsson.

Við erum erum ekki að fara til baka og endurskapa samfélagið 2019. Ég held að það þurfi allir að gera sér það ljóst. Við erum að fara að halda áfram í þróuninni og hún gerist býsna hratt.“ 

Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála og formaður Framsóknarflokksins, þegar hann er spurður út í það hvernig hann sér Ísland rísa upp úr þeirri stöðu sem nú blasir við landinu efnahagslega. Hugur hans er mjög greinilega hjá þeim tugum þúsunda sem eru atvinnulausir að hluta eða öllu leyti eins og staðan er í dag og Sigurður Ingi telur augljóst að þar liggi næsta stóra verkefni: Að skapa þessu fólki störf hratt og örugglega. 

Það liggi fyrir að mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu muni þurfa að hætta starfsemi. Flestar greiningar gera ráð fyrir að ferðalög erlendra ferðamanna muni að mestu leggjast af að minnsta kosti vel fram á næsta ár og að það það muni taka mörg ár að komast á svipaðan stað í tekjum og geirinn var á síðustu ár. Þegar markaðurinn breytist úr því að telja yfir tvær milljónir erlendra ferðamanna í að snúa aðallega að þeim 365 þúsund manns sem hér búa þá er ljóst að ekki verður sofið í öllum hótelherbergjunum, allir bílaleigubílarnir verða ekki leigðir og ekki verða nægilega margir viðskiptavinir til þess að öll afþreyingarþjónustufyrirtækin standi undir sér. 

Hinn blákaldi veruleiki

Sigurður Ingi segir þessa stöðu einfaldlega vera orðinn hlut. „Ég held að það sé hinn blákaldi raunveruleiki sem að enginn vildi horfast í augu við upphaflega, en flestir eru að gera sér grein fyrir. Í starfsgrein sem var nokkuð mikið skuldsett og stóð frammi fyrir áskorunum allt síðastliðið ár, og jafnvel síðastliðin tvö ár, er óumflýjanlegt að það verði einhverjar breytingar. Ég held að það sé augljóst að nokkur hluti þeirra fyrirtækja mun ekki lifa þetta af. Það sem ég er að segja að í stað þess að það sé góð leið að ríkið haldi þessum fyrirtækjum gangandi án þess að þau séu í neinni starfsemi, þá held ég að það sé betra að nota fjármuni að ýta undir að þau sem geti bjargað sér eigi meiri möguleika með því að örva innlenda eftirspurn.

Auglýsing

Ég held að þetta sé skynsamari leið, en hið óhjákvæmilega er að mörg fyrirtæki þurfa nú að taka þá ákvörðun hvað leið þau ætla að fara. Og síðan eru einhver sem geta komist í skjól og verið tilbúin til að takast á við það þegar heimurinn verður meira eðlilegur. En hann verður aldrei óbreyttur. Það er það sem að allir þurfa að átta sig á.“ 

Það þarf að búa til störf

Horfa þurfi til þess að atvinnuleysi gæti verið 10 til 15 prósent til lengri tíma, sem þýði að 20 til 30 þúsund manns eru án atvinnu. Þess vegna hafi verið ákveðið að bæta tugum milljarða króna í samgönguverkefni, að klára að koma hlutdeildarlánunum svokölluðu á kopp til að örva húsnæðismarkaðinn, að setja aukið fjármagn í viðhald á opinberu húsnæði. Allt sé þetta gert til að fjölga störfum á næstu mánuðum. 

Sömuleiðis sé stefnt að því að menntakerfið taki við námsmönnum í sumar sem hefðu annars ekki haft neitt að gera. Stefnan þar er að geta tekið á móti fjögur til fimm þúsund manns. „Við þurfum einfaldlega að horfa á þennan stabba og segja: hér er verkefni. Við þurfum að búa til störf. Það ætlum við að gera fyrir námsmenn og atvinnuleitendur í sumar á stærri skala en við höfum nokkurn tímann gert. Fleiri þúsundir slíkra starfa.“

Sigurður Ingi segir að það þurfi að fjölga stoðunum undir íslensku efnahagslífi.
Mynd: Bára Huld Beck

Ein leið sem hann sér til að ná þessu markmiði er að skala upp fyrri hugmyndir um að dreifa 1,5 milljarði króna til landsmanna í formi stafrænna ávísana til að eyða í ferðaþjónustu innanlands. Með því væri hægt að örva neyslu. „Tæknilausnin liggur fyrir, útfærslan er einföld. Það væri hægt að skala þetta upp og búa til verulega eftirspurn eftir ferðaþjónustunni á Íslandi og flétta það síðan saman við opnun landamæra sem verður þó háð því hvernig öðrum löndum tekst að eiga við pláguna.“

Að meta afköst og gæði en ekki bara mæla vinnutíma

Það blasir við að íslenska hagkerfið er betur undirbúið til að takast á við áfall nú en það hefur líklega verið nokkru sinni áður. Sigurður Ingi segir að við séum í raun búin að vera að undirbúa okkur fyrir þessa áskorun fjárhagslega með ýmsum hætti. Þar vísar hann í aðgerðir sem mörgum finnast umdeildir, eins og skuldaleiðréttingu heimilanna sem Sigurður Ingi segir að hafi gert það að verkum að heimilin séu minna skuldsett en ella. Afnám fjármagnshafta skilaði síðan allt öðru Íslandi fjárhagslega og ábyrg ríkisfjármálastefna, allt frá 2009, hafi gert það að verkum að landið sé í allt annari og miklu stöðu til að takast á við þennan efnahagslega vanda sem fylgir útbreiðslu COVID-19 í dag. „Þess vegna getum við tekist á við svona tímabundinn vanda með því að skuldsetja okkur. Og það er ódýrara að fara þá leið sem við höfum verið að velja til þess að hafa þennan tíma niðursveiflurnar eins stuttan og hægt er.“ 

Hann viðurkennir þó að hafa viljað vera laus við þetta verkefni. „En þegar þú stendur í storminum og ert að kljást við hana þá er auðvitað gott að vera Framsóknarmaður og geta horft í söguna. Við höfum áður sagt að það þurfi að skapa tólf eða fimmtán þúsund störf. Og gert það. Við munum ekki sætta okkur við 10 til 15 prósent atvinnuleysi.“

Hann telur stöðuna vera tvíþætt alvarlega. Það þurfi auðvitað að ná upp landsframleiðslu á ný til að hægt sé að standa undir velferðarkerfinu sem við viljum, en hún sé ekki síður alvarleg vegna manneskjulegu hliðarinnar. Það sé, að hans mati, í eðli Íslendinga að vera vinnusöm og vilja vera í virkni. Þess vegna skipti miklu máli að koma öllu þessu fólki sem nú sé án atvinnu aftur út á vinnumarkaðinn. Þar geti hið opinbera, bæði ríkið og sveitarfélög, leikið lykilhlutverk. 

Auglýsing

Sigurður Ingi gerir sér þó líka fulla grein fyrir að samhliða því að ríkið reyni að taka utan um þann hóp sem nú eigi í vanda, þá þurfi að huga að framtíðinni og þeirri uppfærslu á samfélaginu sem þarf að verða. „Eitt að því jákvæða sem við höfum upplifað nú þegar er að við höfum talað mikið á undanförnum misserum um fjórðu iðnbyltinguna og undirbúning okkar fyrir hana. Það kom einfaldlega í ljós að við vorum kannski búin að ná ýmsu fram í tækni, en við bara notuðum hana ekki. Hér er ég til dæmis að vísa til allra þessara netfunda sem hafa getað átt sér stað. Hér er ég líka að vísa til þess að bæði hið opinbera og einkafyrirtækin hafa upplifað það að það er hægt að vera með sveigjanlegri vinnutíma. Fólk getur starfað heima. Ég hef heyrt það víða að menn muni horfa til þess í vaxandi mæli að hafa þennan möguleika áfram af því að hann virkar. Menn eru hreinlega búnir að læra að það er hægt að meta störf fólks ekki bara með stimpilklukkunni heldur meira út frá því sem fjórða iðnbyltingin kallar á. Að meta afköst og gæði ekki síður en vinnutímann.“

Verðum að horfa á samfélagið sem við viljum komast í

Í aðgerðarpökkum ríkisstjórnarinnar hafa þessar áherslur birst að einhverju leyti. Framlög til rannsóknar og þróunar og nýsköpunarverkefna hafa verið stóraukin og fyrir liggur að mikil áhersla er innan stjórnarráðsins á að ýta undir allar stafrænar lausnir í þjónustu til að gera hana skilvirkari. „Við erum að nota tækifærið og flýta þeirri umbreytingu sem við vorum í og bæta í hana. Það mun auðvitað ekki á einni nóttu skapast fjöldinn allur af störfum en hann mun koma í vaxandi mæli og þess vegna er þetta mikilvægur þáttur í viðspyrnunni. 

Ég vona að okkur takist að fara þessa leið að skapa störf. Vegna þess að það er samfélagið sem við viljum vera í. En um leið verðum við að horfa á það samfélag sem við viljum komast í. Það er samfélag með fjölbreyttari atvinnumöguleikum þar sem meiri rækt er lögð við störf framhliðarinnar sem takast á við áskoranir fjórðu iðnbyltingarinnar. Ég veit að þetta er frasi, en þetta er bara svona. Það er þetta sem þarf að gerast.

Á sama tíma gerum við okkur grein fyrir því að við erum auðlindadrifið hagkerfi. Með öflugan sjávarútveg. Með afurðir úr orkufrekum iðnaði og ferðaþjónustu sem munu alltaf hjálpa okkur í því að búa til útflutningstekjur. Ég vil meina að ferðaþjónustan muni snúa aftur. Eftirspurn eftir því að koma til Íslands verður áfram til staðar. Umfjöllun um ísland í þessum faraldri – hvernig við höfum tekist á við hann og hvernig okkur hefur gengið – hefur vakið heimsathygli. Við höfum séð á síðum sem fylgjast með áhuga á Íslandi að hann er aftur farinn að nálgast það sem gerðist í Eyjafjallajökulsgosinu. Það eitt og sér mun ýta undir vilja fólks til að heimsækja okkur. 

Við verðum að vera reiðubúin til að taka á móti þeim, en kannski með betri hætti. Við verðum búin að byggja upp sterkari innviði, betri kerfi til að hafa stjórn á því sem þar er og þar af leiðandi kannski hafa aðeins meira út úr greininni.“

Þarf að hafa fleiri egg í körfunni

Eftir síðasta stóra efnahagsáfall, bankahrunið 2008, kom ferðaþjónustan eins og skrattinn úr sauðaleggnu mog umbreyttist á örskömmum tíma úr grein sem tók á móti hálfri milljón ferðamanna á ári í að taka á móti, um tíma, vel yfir tveimur milljónum. 

Mikið hefur verið bent á það á undanförnum árum að hún henti okkar samfélagi kannski ekki fullkomlega sem lykilstoð undir efnahagskerfinu. Framleiðni í ferðaþjónustu hefur verið lítil, atvinnugreinin útheimtir mikinn mannafla sem var ekki til staðar á íslenskum vinnumarkaði. Þess í stað fjölgaði innflytjendum um 30 þúsund frá árinu 2011, sem er mjög svipað og sá fjöldi starfa sem varð til í ferðaþjónustu og tengdum greinum. 

Sigurður Ingi segist sammála því að það sé ekki endilega æskilegt að 35 til 40 prósent útflutningstekna okkar komi frá grein eins og ferðaþjónustunni. Ísland þurfi að hafa fleiri egg í körfunni þess vegna snúist viðspyrnan nú um miklu fleiri þætti en bara ferðaþjónustu. „Þess vegna erum við að leggja meiri áherslu á þessar skapandi greinar. Við þurfum líka að leggja meiri áherslu á innlenda matvælaframleiðslu og við verðum að leggja fjármuni til þess og gera breytingar þar á. 

„Við höfum séð á síðum sem fylgjast með áhuga á Íslandi að hann er aftur farinn að nálgast það sem gerðist í Eyjafjallajökulsgosinu. Það eitt og sér mun ýta undir vilja fólks til að heimsækja okkur.“
Mynd: Bára Huld Beck

Við lærum mikið á þessari kórónuveiru, hvernig við höfum tekist á við hana og af eftirköstunum líka. Þegar uppi er staðið þá munum við horfa í baksýnisspegilinn og taka það með okkur inn í framtíðina. En í því samfélagi þá værum við með fjölbreyttari atvinnu og traustari grunn.“

Sveitafélögin í mismunandi stöðu til að takast á við aðstæður

Sigurður Ingi rifjar upp hina víðfrægu McKinsey-skýrslu sem gerð var eftir hrunið sem hafi gefið ýmsar góðar vísbendingar um hvernig ætti að byggja upp samfélagið eftir áfall til að auka framleiðni, bæta skilvirkni og skapa þau störf sem landsmenn eru upp til hópa að mennta sig til að vinna í. Þar hafi til að mynda verið lögð áhersla á að færa til þúsundir starfa í verslun og þjónustu, setja mun meiri áherslu á alþjóðageirann og reyna að búa til fleiri fyrirtæki eins og Marel, Össur eða CCP. Það hafi okkur hins vegar ekki auðnast, meðal annars vegna mikilla ruðningsáhrifa frá ferðaþjónustu sem óx gríðarlega hratt. Nú sé hins vegar tækifæri til að skapa grunninn fyrir fjölbreyttari atvinnuuppbyggingu sem yrði traustari til lengri tíma. 

Auglýsing

Í þeirri skýrslu, og samráðsvettvangi um aukna hagsæld sem myndaður var í kjölfar birtingar hennar, var einnig fjallað umtalsvert um aukna skilvirkni í opinberri þjónustu. Fyrir mörgum er augljóst skref í þá átt að fækka sveitarfélögum sem eru á Íslandi og bæta samhliða gætu stærri sveitarfélagseininga til að veita betri þjónustu. 

Sigurður Ingi, verandi ráðherra málaflokksins, segir að hann hafi bent á að þau tæplega 70 sveitarfélög sem eru í landinu séu gríðarlega misjafnlega í stakk búinn til að takast á við þann vanda sem blasir við í dag. Aðstæðurnar geti kallað á frekari sameining. Frumvarp um skref í þá átt er til en það hefur þó ekki enn verið mælt fyrir því á Alþingi. Það felur í sér, að mati Sigurðar Inga, gjörbreytingu á því stjórnsýslustigi. „Við höfum á margan hátt verið að vinna í þessa átt og margt af því sem hefur gerst í íslensku samfélagi á undanförnum árum hefur farið í þessa átt.“


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar