Ljóst er að samvinna við fyrirtæki í ferðaþjónustu er grundvallaratriði við það að opna landamæri Íslands með því að bjóða komufarþegum að fara í sýnatöku eða framvísa vottorði í stað þess að fara í sóttkví.
Þetta kemur fram í skýrslu verkefnissstjórnar um sýnatöku fyrir COVID-19 á landamærum sem kynnt var heilbrigðisráðherra í gær.
Í skýrslunni er farið yfir það hvernig fyrirkomulagi við ferðalög fólks hingað til lands gæti verið háttað en einnig um hvað svo takið við þegar ferðalag innanlands hefst. Verkferlar fyrir ferðaþjónustu og framlínustarfsfólk vegna COVID-19 eru þegar til staðar og aðgengilegir á heimasíðu landlæknis. Í forgrunni er grundvallarsmitgát starfsfólks og fyrirtækja í ferðaþjónustu. Í skýrslu verkefnisstjórnarinnar kemur fram að mikilvægt sé að ferðaþjónustufyrirtæki séu vel undirbúin og hafi skýrar leiðbeiningar um það verklag sem viðhafa þarf svo þau geti sinnt sínu hlutverki á réttan hátt.
Verkefnisstjórnin segir samvinnu við fyrirtæki í ferðaþjónustu vera grundvallaratriði. Mikil ábyrgð muni hvíla á þeim og því þurfa kröfur til þeirra að vera skýrar og afdráttarlausar. „Öll ferðaþjónustufyrirtæki verða að vera undir það búin að takast á við smit meðal viðskiptavina sinna og þess verður að krefjast að allir aðilar geri viðeigandi viðbragðsáætlanir. Ferðaþjónustuaðilar munu einnig þurfa að gangast við ríkri eftirlitsskyldu gagnvart heilsufari ferðamanna og vera undir það búnir að senda þá í sýnatöku ef svo ber undir og jafnvel sinna þeim í sóttkví og/eða einangrun.“
Ferill erlendra ferðamanna um íslenskt heilbrigðiskerfi er sá sami og á við um íbúa á Íslandi. Hins vegar þarf að tryggja aðgengi þeirra að upplýsingum, þ.e. hvert og hvernig fólk leitar upplýsinga og leiðbeininga og hvernig það ber sig að við að leita heilbrigðisþjónustu. Gera þarf ráð fyrir að ferðafólk geti slasast eða veikst ótengt COVID-19 meðan á dvöl þeirra stendur. Taka þarf afstöðu til sóttvarnaráðstafana í sjúkraflutningum og innan heilbrigðisstofnana í ljósi þessa.
Áætlaður fjöldi komufarþega um Keflavíkurflugvöll frá því að sýnataka hefst og tvær vikur þaðan í frá, er óljós. Hvorki liggur fyrir framboð á flugi, eftirspurn ferðmanna til eða frá landinu eftir flugi né hvort almennur ferðavilji er til staðar ef val er um aðra möguleika við komuna til landsins en tveggja vikna sóttkví. Verkefnisstjórnin skrifar í skýrslu sinni að tilkynning um væntanlega sýnatöku á Keflavíkurflugvelli og opnun landsins fyrir ferðalögum hefur fengið töluverða athygli erlendis sem gæti leitt af sér aukna eftirspurn.