Fjármálaráð telur það áhyggjuefni að ekki sé víst að hin efnahagslega óvissa sem nú ríkir verði minni í haust en hún er núna. Þetta kemur fram í bréfi sem fjármálaráð sendi Bjarna Benediktssyni fjármála- og efnahagsráðherra vegna áforma hans um frestun á framlagningu á þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun fyrir árin 2021-2025 og þingsályktunartillögu um endurskoðun fjármálastefnu fyrir árin 2018-2022.
„Fjármálaráð hefur ítrekað kallað eftir því að óvissu verði mætt með gerð sviðsmynda til að tryggja eftir megni festu í stefnu opinberra fjármála. Nú reynir á slíkt sem aldrei fyrr,“ segir enn fremur í bréfi fjármálaráðs.
Fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinber fjármál. Í greinargerð segir að frumvarpið veiti nauðsynlegt ráðrúm í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar til þess að undirbúa endurskoðun fjármálastefnu fyrir árin 2018-2022, fjármálaáætlun fyrir árin 2021-2025 og fjárlagafrumvarp fyrir árið 2021. Auk þess er gert ráð fyrir að endurskoðuð fjármálastefna, fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarp verði lögð fram samhliða á Alþingi 1. október næst komandi.
Samkvæmt núgildandi lögum ber ráðherra að leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun til næstu fimm ára eigi síðar en 1. apríl. Jafnframt ber ráðherra að leggja fram, eins fljót og kostur er, endurskoðaða fjármálastefnu „ef grundvallarforsendur hennar bresta eða fyrirsjáanlegt er að þær muni bresta vegna efnahagsáfalla, þjóðarvár eða annarra aðstæðna sem ógerlegt er að bregðast við með tiltækum úrræðum.“ Slík endurskoðun á fjármálastefnu var síðast lögð fram í maí 2019 í kjölfar falls WOW air.
Í greinargerð frumvarpsins segir að nauðsynlegar forsendur um þróun efnahagsmála hafi enn sem komið er ekki skýrst nægilega til þess að hægt sé að leggja fram endurskoðaða fjármálastefnu. Í bréfi sem fjármála- og efnahagsráðherra sendi til Alþingis í mars síðastliðnum kom fram að stefnt yrði að því að leggja fjármálaætlun fyrir Alþingi eftir miðjan maí sem og endurskoðun á gildandi fjármálastefnu. Eins og áður segir gerir frumvarpið ráð fyrir að það frestist til 1. október.
Í fylgiskjali með frumvarpinu frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og skrifstofu opinberra fjármála birtast sviðsmyndir um afkomu- og skuldahorfur ríkissjóðs og hins opinbera. Þar segir að niðurstöður greiningar ráðuneytisins séu á þá leið að hagkerfið gæti dregist saman um um það bil 8,5 prósent í ár ef forsendur hennar raungerast. Þar er einnig ítrekað að veruleg óvissa ríki í efnahagshorfum.
Þá er í fylgiskjalinu einnig vikið að greiningu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en stofnunin stytti spátímabil sitt fyrir greiningu sína sem birt var í apríl. Stofnunin hefur gefið út að ný og svartsýnni spá verði birt í júní næst komandi. Þá eru niðurstöður grunnspár Seðlabankans sagðar í grunnatriðum keimlíkar niðurstöðum sviðsmyndar ráðuneytisins. Sviðsmyndir bankans sýna að hagvöxtur geti orðið neikvæður um sem nemur 5,6 til 10,4 prósentum í ár en jákvæður á næsta ári, á bilinu 3,7 til 5,6 prósent. „Hér er um gríðarlegan mun að ræða og lita þær efnahagshorfur mörg ár fram í tímann enda er óvíst að hversu miklu leyti framleiðslugetan verður fyrir varanlegum skaða,“ segir í fylgiskjalinu.
Fjármálaráð sér ástæðu til þess að gera athugasemd við að lagt sé til að tillögur um endurskoðaða fjármálastefnu og uppfærð fjármálaáætlun verði lögð fram á sama tíma og fjárlög. „Stefnumörkunin færist þannig öll á einn tímapunkt. Spyrja má hvort ekki sé heppilegra að endurskoðuð fjármálastefna sé lögð fram fyrr til að umfjöllun um hana verði lokið þegar fjármálaáætlun verður lögð fram,“ segir í svari fjármálaráðs.