Efnahags- og viðskiptanefnd leggur til að nýtt ákvæði um undanþágu frá skilyrði um arðsúthlutun verði bætt inn í lög um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti. Ákvæðið myndi veita fyrirtækjum sem ráðist hafa í hlutafjáraukningu undanþágu frá þeirri meginreglu að ekki skuli koma til arðsúthlutunar fyrr en að fjárstuðningur samkvæmt frumvarpinu hafi verið að fullu tekjufærður eða endurgreiddur.
Í nefndarálitinu segir: „Bent hefur verið á að ástæða kunni að vera til að heimila undanþágu frá þessu skilyrði í tilvikum þegar um nýtt hlutafé er að ræða sem orðið hefur til á grundvelli hlutafjáraukningar sem ráðist er í eftir að fjárhagslegir erfiðleikar, sem rekja má beint eða óbeint til heimsfaraldursins, komu upp.“
Ástæðan fyrir undanþágunni er sögð vera að frumvarpið í núverandi mynd geti takmarkað möguleika atvinnurekenda til að halda velli, enda gæti skilyrði um arðsúthlutun haft fælandi áhrif á fjárfesta.
Þar segir einnig að undanþáguákvæðið skuli túlkað þröngt. Skatturinn hefur þannig rúmar heimildir til að hafna undanþágubeiðnum. „Þetta getur t.d. átt við ef sýnt þykir að ákvörðun um hlutafjáraukningu hafi verið tekin í þeim tilgangi fremstum að komast hjá skilyrðinu um arðsúthlutun eða ef slík ákvörðun var tekin áður en ljóst varð að faraldur kórónuveiru mundi hafa verulega slæmar efnahagslegar afleiðingar hér á landi.“
Miðað við 1. apríl í stað 1. mars
Ein af breytingartillögum nefndarinnar snýr að viðmiðunartímabili tekjufalls. Miðað verði við að tekjufall fyrirtækja hafi verið 75 prósent frá 1 apríl í stað 1. mars, og til uppsagnardags. Töluverður fjöldi ferðamanna var hér á landi í fyrri hluta mars og í umsögnum til nefndarinnar kemur fram að marsmánuður hafi ekki gefið raunhæfa mynd af því tekjufalli fyrirtækja sem rétt væri að miða við.
Á meðal skilyrða í frumvarpinu er að atvinnurekandi hafi ekki keypt eigin hluti frá 15. mars síðastliðnum. Í áliti nefndarinnar segir að bent hafi verið á að ástæða sé til að veita undanþágu frá þessu skilyrði. Vísað er í umsögn KPMG þar sem kemur fram að skilyrðið geti talist eðlilegt þegar um verulegan eignarhlut er að ræða, „enda megi í slíku tilviki gera ráð fyrir að starfssambandið sé fremur afleiðing eignaraðildarinnar en öfugt.“
Þar að auki er vikið að kaupréttarsamningum í umsögn KPMG, þar sem félag hafi skuldbundið sig til að kaupa hluti starfsmanns við starfslok. Þar segir að „í slíku tilviki geti verið óeðlilegt að bann við kaupum á eigin hlutum girði fyrir efndir slíkra samninga.“ Nefndin leggur því til að orðalagsbreyting í frumvarpinu taki af allan vafa um slíkir samningar, gerðir fyrir 15. mars, megi vera efndir án þess að það komi í veg fyrir stuðning. Orðalagsbreytingin kemur til vegna þess að í frumvarpinu er skýrt kveðið á um úthlutun arðs en samkvæmt umsögn KPMG geti orðalagið valdið vafa þegar kemur að lækkun hlutafjár og kaup eigin hluta.
Breytingar á grein um stuðning vegna orlofslauna
Nefndin leggur einnig til breytingartillögu á grein sem snýr að stuðningi vegna orlofslauna. „Nefndinni var bent á að ekki væri nægjanlegt að taka fram í ákvæðinu að stuðningurinn skyldi greiðast vegna orlofslauna sem launamaður kynni að eiga rétt á heldur stæðu efni til að taka fram að orlofslaunin hefðu verið greidd við starfslok.” Með því að taka það sérstaklega fram verði skýrt að heimild til að greiða atvinnurekanda stuðning vegna orlofslauna virkjast þegar starfssambandi er lokið, en samkvæmt dómaframkvæmd er óheimilt að láta starfsmann taka orlof á uppsagnarfresti.
Þá leggur meirihlutinn til að breyta grein frumvarpsins sem snýr að tekjufærslu. Í álitinu segir: „Komi til þess að fjárstuðningur sé umfram það sem dugar til að jafna að fullu tap á yfirstandandi rekstrarári og yfirfæranlegt tap frá fyrri árum skal samkvæmt ákvæðinu tekjufæra stuðninginn á næstu sex árum þar á eftir, 10% á ári fyrstu tvö árin og 20% á ári næstu fjögur ár þar á eftir. Meiri hlutinn leggur til að í stað þessa verði miðað við fjögur ár og 25% á ári.“
Áætlaður kostnaður 27 milljarðar
Nefndin tekur einnig fyrir þá grein frumvarpsins sem snýr að birtingu upplýsinga um fjárstuðning svo að hún samræmist betur sjónarmiðum um rétt almennings til aðgangs að upplýsingum um ráðstöfun opinbers fjár. Nefndin leggur þannig til að í frumvarpinu verði kveðið á um skyldu Skattsins til birtingar upplýsinga um nöfn styrkþega, í stað þess að talað sé um að Skattinum sé heimilt að birta upplýsingarnar. Jafnframt leggur nefndin til að í frumvarpinu verði tekið fram að birta skuli upplýsingar um fjárhæð stuðnings til hvers atvinnurekanda fyrir sig.
Áætlaður kostnaður við þennan hluta aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar, þann sem snýr að stuðningi við atvinnurekendur vegna greiðslu á hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti, er 27 milljarðar króna.
Undir nefndarálitið skrifa fulltrúar stjórnarflokkanna sem mynda meirihluta nefndarinnar. Auk þeirra skrifar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, undir með fyrirvara. Aðrir nefndarmenn stjórnarandstöðuflokka skrifa ekki undir álitið.