Síminn hefur brotið gegn skilyrðum í sáttum sem fyrirtækið hefur á undanförnum árum gert við Samkeppniseftirlitið, að því er fram kemur í ákvörðun eftirlitsins sem birt var í dag. Síminn mun áfrýja ákvörðuninni til áfrýjunarnefndar samkeppnismála en fyrirtækið telur hana skaðlega fyrir samkeppni í landinu.
Í ákvörðuninni kemur fram að mikill verðmunur og ólík viðskiptakjör við sölu á Enska boltanum á Símanum Sport, eftir því hvort hann er boðinn innan Heimilispakka Símans eða einn og sér í stakri áskrift, hafi brotið gegn þeim skilyrðum sem hvíla á fyrirtækinu. Telur Samkeppniseftirlitið að brotin séu alvarleg og sektar Símann vegna þessa um 500 milljónir króna.
„Skilyrðunum sem Síminn braut er ætlað að vinna gegn því að Síminn geti, í ljósi sterkrar stöðu sinnar á mikilvægum mörkuðum fjarskipta, nýtt hið breiða þjónustuframboð sitt til þess að draga að sér og halda viðskiptum á þann hátt að keppinautar þeirra geti ekki boðið samkeppnishæft verð eða þjónustu. Er skilyrðunum ætlað að koma í veg fyrir að Síminn geti með þessum hætti takmarkað samkeppni almenningi til tjóns,“ segir í tilkynningu eftirlitsins á vefsíðu þess.
Þau skilyrði sem Síminn hefur brotið gegn samkvæmt Samkeppniseftirlitinu eru eftirfarandi:
- Skilyrði 19. og 20. gr. í sátt frá 23. janúar 2015 sem gerir Símanum skylt að aðgreina ólíka þjónustuþætti m.a. þannig að þeir séu nægilega aðgreindir og óháðir hverjir öðrum í verði og öðrum skilmálum. Sú sátt er að stofni til frá árinu 2013 og var gerð vegna sjö rannsókna sem þá voru yfirstandandi, sem og vegna ítrekaðra brota Símans sem Samkeppniseftirlitið hafði staðreynt á árunum þar á undan. Nánari umfjöllun um þetta er að finna hér.
- Skilyrði 3. gr. í sátt frá 15. apríl 2015 sem bannar Símanum að selja fjarskiptaþjónustu og línulegt áskriftarsjónvarp tvinnað saman eða á kjörum sem jafngilda slíkri hegðun. Þetta ákvæði er að stofni til úr sátt frá árinu 2005. Þá skuldbatt Síminn sig til að grípa ekki til tiltekinna aðgerða þegar fyrirtækið tók yfir Íslenska sjónvarpsfélagið (Skjáinn). Sáttin frá 2005 var endurskoðuð árið 2015 en fyrirmælin í 3. gr. héldu sér, sbr. nánar hér. Á árinu 2012 staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að Síminn hefði brotið sömu fyrirmæli í sáttinni frá 2005 og staðreynt er í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í dag.
Fram kemur hjá Samkeppniseftirlitinu að framangreindar sáttir hafi verið gerðar á grundvelli samkeppnislaga sem heimili Samkeppniseftirlitinu að ljúka rannsókn mála ef fyrirtæki undirritar sátt og skuldbindur sig til frambúðar annaðhvort að framkvæma eitthvað eða grípa ekki til tiltekinna aðgerða í því skyni að verja eða efla samkeppni. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafi slegið því föstu að það sé „mjög brýnt“ að fyrirtæki virði slík loforð.
Það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að Síminn hafi brotið 3. gr. í sátt frá 15. apríl 2015 með því að bjóða Heimilispakkann – með margvíslegri fjarskiptaþjónustu – og Símann Sport/Enska boltann (línulegt áskriftarsjónvarp) með miklum verðmun og ólíkum viðskiptakjörum, eftir því hvort umrædd þjónusta og þá sérstaklega Enski boltinn var seld saman eða sitt í hvoru lagi. Þannig hafi verð fyrir Símann Sport/Enska boltann aðeins verið 1.000 krónur á mánuði þegar þjónustan var seld sem hluti af Heimilispakkanum og Sjónvarpi Símans Premium, en 4.500 krónur þegar hún var seld án þess að önnur þjónusta væri keypt samhliða.
Það er jafnframt niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að Síminn hafi með háttsemi sinni brotið 19. og 20. gr. í sátt frá 23. janúar 2015 sem meðal annars kveða á um aðgreiningu þjónustuþátta og möguleika viðskiptavina til að kaupa hluta viðkomandi þjónustu af öðrum án þess að það hafi áhrif á kjör annarrar þjónustu sem keypt er af Símanum.
Brotin til þess fallin að styrkja stöðu Símans á sjónvarpsmarkaði
Rannsókn Samkeppniseftirlitsins leiddi í ljós að þorri viðskiptavina Símans, þ.e. nærri því 99 prósent þeirra sem kaupa Enska boltann/Símann Sport á kerfum fyrirtækisins, hefðu keypt sjónvarpsefnið í heildarþjónustu, þ.e. með Heimilispakkanum og/eða Sjónvarpi Símans Premium í stað þess að kaupa þjónustuna eina og sér.
Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins er að verðlagning Símans á Enska boltanum sem hluta af Heimilispakkanum hafi lagt stein í götu keppinauta fyrirtækisins og takmarkað möguleika þeirra til að laða til sín viðskiptavini.
Framangreind brot eru, samkvæmt eftirlitinu, til þess fallin að styrkja stöðu Símans á sjónvarpsmarkaði og efla enn frekar stöðu fyrirtækisins á fjarskiptamörkuðum þar sem staða Símans er sterk fyrir.
Samkeppniseftirlitið telur að framangreind brot séu alvarleg og til þess fallin að skaða hagsmuni almennings til lengri tíma, á mörkuðum sem skipta neytendur og efnahagslífið miklu máli. Því sé óhjákvæmilegt að leggja sektir á Símann vegna brotanna. Sé það áhyggjuefni að Síminn hafi á ný gerst brotlegur með alvarlegum hætti.
Fyrir Samkeppniseftirlitinu liggur að taka afstöðu til fleiri kvartana sem borist hafa á liðnum mánuðum vegna háttsemi á fjarskiptamarkaði. Í tilkynningunni segir að Samkeppniseftirlitið muni í framhaldinu taka til skoðunar hvort efni séu til þess að gera breytingar á þeim skilyrðum sem nú hvíla á Símanum og tryggja eiga virka samkeppni. Hafi Síminn jafnframt óskað eftir samræðum um endurskoðun skilyrðanna.
Hægt er að lesa ákvörðunina í heild sinni hér.
Ákvörðunin mikil vonbrigði
Síminn sendi frá sér tilkynningu í kjölfar ákvörðunarinnar þar sem fram kemur að fyrirtækið telji hana „ekki aðeins mikil vonbrigði heldur einnig skaðlega fyrir samkeppni í landinu“.
Að mati Símans skýtur það afar skökku við, nú þegar loks sé til staðar hörð samkeppni um sýningu á íþróttaefni hér á landi, að Samkeppniseftirlitið telji rétt að beita Símann háum fjársektum vegna sams konar pakkatilboða og tíðkuðust yfir áratugaskeið af þeim aðila sem hefur verið markaðsráðandi á áskriftarsjónvarpsmarkaði um árabil, 365 – sem nú er Sýn – en þetta mál sé einmitt tilkomið vegna kvörtunar Sýnar.
„Í ákvörðuninni felst ekki að Síminn hafi brotið gegn samkeppnislögum heldur er Síminn talinn hafa brotið að formi til gegn tilteknum skilyrðum í tilteknum ákvörðunum Samkeppniseftirlitsins frá fyrri árum. Á meint brot að hafa falist í því að Síminn bauð enska boltann á of góðum kjörum að mati Samkeppniseftirlitsins, inn í pakkatilboðum.
Samkeppniseftirlitið hefur ítrekað ákveðið að sama háttsemi Sýnar og áður 365 miðla væri ekki athugaverð. Gat Síminn því ekki annað en verið í góðri trú um verðlagningu á umræddri þjónustu félagsins.
Verð á enska boltanum hefur ekki aðeins lækkað til neytenda eftir að Síminn tók við sýningarréttinum heldur hafa fleiri heimili aðgang að þjónustunni en nokkru sinni fyrr. Annað íþróttaefni sem aðrir bjóða upp á hefur einnig lækkað á sama tíma, væntanlega vegna aukinnar samkeppni frá Símanum, og því neytendum til hagsbóta en ekki skaða,“ segir í tilkynningu Símans.
Neytendur hér á landi aldrei áður haft jafn greiðan aðgang að enska boltanum
Þá kemur fram að þegar Síminn hóf undirbúning að sýningum frá ensku úrvalsdeildinni hafi verið horft til þess að gera vöruna sem aðgengilegasta öllum á sem besta mögulega verði. Það hafi gengið eftir enda Síminn Sport aðgengileg á öllum dreifikerfum landsins, gömlum sem nýjum og opin öllum áskrifendum óháð því hvar viðkomandi kýs að hafa fjarskiptaþjónustu sína.
„Neytendur hér á landi hafa aldrei áður haft jafn greiðan aðgang að enska boltanum, á jafn hagkvæmu verði. Það kann nú að breytast því ákvörðun Samkeppniseftirlitsins virðist við fyrstu skoðun geta leitt til þess að Símanum verði nauðugur einn kostur að hækka áskrift að sjónvarpsefni verulega.“
Að lokum segir að þessi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins muni hafa neikvæð áhrif á afkomu Símans þar sem sektin verði gjaldfærð á öðrum ársfjórðungi. Ný EBITDA spá Símans fyrir árið 2020 sé 9,9 til 10,3 milljarðar króna að teknu tilliti til sektarinnar.