Oddný G. Harðardóttir, fulltrúi Samfylkingar í efnahags- og viðskiptanefnd, leggur til að þau fyrirtæki sem hafi nýtt sér skattaskjól geti ekki fengið styrk til að greiða uppsagnarfrest. Þetta kemur fram í breytingartillögu hennar við frumvarp til laga um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti. Í tilkynningu frá þingflokki Samfylkingarinnar kemur fram að hann telji uppsagnarleiðina svokölluðu geta unnið gegn launafólki í sumum tilfellum.
Í nefndaráliti gerir Oddný grein fyrir breytingartillögunum. Fyrir það fyrsta leggur hún til að fyrirtæki sem nýti sér þetta úrræði endurgreiði styrkinn eftir því sem afkoma og afkomubati leyfir. Þetta telur hún skapa hvata fyrir fyrirtæki til að halda í ráðningarsamband við launafólk. Breytingartillagan felur í sér að endurgreiðslan verði í formi tekjuskattsauka sem nemi 10 prósentustigum til viðbótar við núverandi tekjuskattsprósentu. Tekjuskattsaukinn yrði fyrst lagður á 2023 og yrði að hámarki næstu 10 ár.
Önnur tillaga snýr að skattaskjólum og þeim fyrirtækjum sem nýta sér þau. Í áðurnefndu nefndaráliti segir um breytingartillöguna: „Þar er miðað við að til þess að öðlast rétt á stuðningi samkvæmt lögunum þurfi að liggja fyrir að viðkomandi félag hér á landi eða raunverulegur eigandi þess hafi ekki átt í fjárhagslegum samskiptum við aðila sem staðsettur er á lágskattasvæði síðastliðin þrjú ár.“ Fyrirtæki sem verða uppvís að því að hafa gefið rangar upplýsingar yrðu krafin um endurgreiðslu.
Þá leggur Oddný fram þá tillögu að sett verði skilyrði um áætlun í loftslagsmálum fyrir stuðningi við atvinnurekendur. Miðað er við að skilyrðið nái til fyrirtækja sem segja upp tíu starfsmönnum eða fleiri í fullu starfi. Í skilyrðinu felst sú krafa að fyrirtæki leggi fram áætlun um árlega minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda næstu fimm árin.
Síðasti hluti nefndarálitsins snýr að launaviðmiði. Í breytingartillögunum er sett þak á mánaðarlaun æðstu stjórnenda og eigenda. Samkvæmt breytingartillögunni mega þau ekki nema hærri fjárhæð en þremur milljónum króna á mánuði.