Vísbendingar eru um að meðaleinkunn nemenda af þriggja ára stúdentsprófsbrautum sé örlítið lægri en hjá þeim sem lokið hafa prófi á fjögurra ára stúdentprófsbrautum. Brottfall hefur hins vegar minnkað lítið eitt með breytingu á námstímanum.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu mennta- og menningarmálaráðherra um árangur og áhrif þess að námstími til stúdentsprófs var styttur úr fjórum árum í þrjú. Skýrslan var birt á vef Alþingis í dag.
Niðurstöður hennar sýna ennfremur að nemendur telja að líkamleg heilsa sé svipuð og undanfarin ár en að andlegri heilsu hafi hrakað, einkum hjá stúlkum. Sú þróun hófst þó talsvert fyrr en skipulagður námstími til stúdentsprófs var styttur í flestum framhaldsskólum.
Mennta- og menningarmálaráðuneyti barst beiðni frá Helgu Völu Helgadóttur og fleiri alþingismönnum um að Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um árangur og áhrif þess að námstími til stúdentsprófs var styttur úr fjórum árum í þrjú ár. Í beiðninni var farið fram á svör við sjö spurningum, m.a. um áhrif á nám, líðan, brottfall og rekstur framhaldsskólanna.
Hvað varðar áhrif styttingarinnar á nám nemenda og undirbúning fyrir háskólanám kemur fram í niðurstöðum skýrslunnar að rektorar þriggja háskóla telji erfitt að leggja mat á áhrif styttingarinnar á þessum tímapunkti en þó greinist hjá Háskóla Íslands vísbendingar um að meðaleinkunn nemenda af þriggja ára stúdentsprófsbrautum sé örlítið lægri en hjá þeim sem lokið hafa prófi á fjögurra ára stúdentprófsbrautum.
Mennta- og menningarmálaráðuneyti gerði jafnframt athugun og niðurstöður hennar gefa til kynna vísbendingar um lægri meðaleinkunnir nemenda sem útskrifuðust úr þriggja ára skipulögðum námstíma til stúdentsprófs samanborið við þá sem innrituðust í fjögurra ára langt stúdentspróf upp á 0,38 til 0,5 staðalfrávik.
Brottfall minnkað lítillega
Árlegt brotthvarf nýnema hefur hins vegar minnkað um 0,5 prósentustig ef miðað er við tímabil fyrir og eftir breytingu á námstíma til stúdentsprófs þ.e. árin 2010 til og með 2018. Með árlegu brotthvarfi nýnema er átt við brotthvarf nýnema haustið eftir að viðkomandi nemandi hefur innritast beint úr grunnskóla í framhaldsskóla. Ekki liggja fyrir niðurstöður um brotthvarf annarra árganga.
Þá sýna niðurstöður óverulega breytingu á þátttöku í félags- og tómstundastarfi en það hefur þó aðeins farið minnkandi frá 2013 til 2018. Sama má segja með íþróttaiðkun framhaldsskólanema á stúdentsprófsbrautum. Hún hefur breyst óverulega en hefur þó frekar aukist.
Niðurstöðurnar sýna nokkra aukningu á atvinnuþátttöku framhaldsskólanema með námi á tímabilinu 2013–2018. Hlutfall nemenda sem vinna með skóla hefur því hækkað frá árinu 2013.
Líkamleg heilsa svipuð
Við skoðun á áhrifum styttingar námstíma á líðan nemenda kom í ljós að nemendur telja að líkamleg heilsa sé svipuð og undanfarin ár en að andlegri heilsu hafi hrakað, einkum hjá stúlkum. Sú þróun hófst þó talsvert fyrr en skipulagður námstími til stúdentsprófs var styttur í flestum framhaldsskólum.
Frá árinu 2015, þegar nær allir framhaldsskólar breyttu námstíma á stúdentsbrautum í þrjú ár, hafa mælingar sem tengjast líðan starfsfólks og streitueinkennum þróast í jákvæða átt. Framhaldsskólar mælast að jafnaði með bestu líðan starfsfólks af öllum atvinnugreinum í könnuninni Stofnun ársins.
Hvað rekstur skólanna varðar kemur fram í skýrslunni að heildarframlög til framhaldsskólastigsins hafi ekki lækkað þrátt fyrir fækkun nemenda vegna styttingar sem þýðir að framlög á hvern nemanda í fullu námi hafa hækkað.