Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði undir dagskrárliðnum störf þingsins á Alþingi í dag hvenær kosningar yrðu en ekki er ljóst hvort vor- eða haustkosningar verða á næsta ári. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur í samtali við Kjarnann ekki útilokað að alþingiskosningar fari fram að vori 2021 en Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra hefur lýst þeirri afstöðu sinni að hann vilji haustkosningar.
Þingmaðurinn benti á að algjör óvissa væri um þetta atriði og „það eigum við ekki að fá að vita fyrr en einhvern tímann í haust og þá kannski ekki einu sinni með fullri vissu“. Hins vegar hefðu formenn ríkisstjórnarflokkanna tjáð sig nokkuð frjálslega um tímasetningu kosninga.
„Við vitum þó að hefð er fyrir kosningum að vori í íslensku stjórnmálalífi og ærnar ástæður fyrir því. Kosningar að vori gefa ráðherrum tíma til að setja sig inn í ráðuneyti sín, kosningar að vori gefa ráðherrum líka rúman tíma til þess að semja fjárlög fyrir haustið. Haustkosningar fela aftur á móti í sér mjög skamman tíma fyrir þá vinnu. Komist ný ríkisstjórn til valda situr hún að vissu marki uppi með stefnumótun hinnar fyrri í heilt ár í viðbót í ljósi tímaskorts við vinnu á fjárlagafrumvarpi,“ sagði hún.
Mjög mikilvægt lýðræðismál
Þá velti Þórhildur Sunna því fyrir sér hvers vegna vitneskja um tímasetningu kosninga skipti máli. „Eigum við ekki bara að halda áfram og pæla ekkert í því fyrr en sex vikum fyrir kosningar, eins og hefur raunar komið fyrir? Jú, ríkisstjórnir springa stundum með litlum fyrirvara og þá er lítið að gera í því að skammur tími gefist til kosninga og að skammur fyrirvari sé á tímasetningu kosninga. En ríkisstjórn sem hefur í huga að sitja út kjörtímabilið ætti auðvitað að sjá sóma sinn í því að láta þing og þjóð vita hvenær hún hyggist boða til kosninga.“
Hún sagði að þetta skipti máli vegna þess að til stæði að breyta kosningalögum og að mikilvægt væri að það yrði gert eins fljótt og unnt er „þannig að sem mestur tími liggi á milli mikilvægra breytinga á kosningalögum og svo kosninganna sjálfra. Þetta er lýðræðismál, þetta er mjög mikilvægt lýðræðismál. Þetta hefur áhrif á vinnu þingsins og þetta hefur áhrif á upplýsta kjósendur sem vilja vita hvenær þeir fái að velja sér fulltrúa að nýju.“
Að lokum sagði hún að tímasetning kosninganna væri ekki einkamál ríkisstjórnarinnar sem hefði einhvers konar hnapp til að velja hvenær hún vildi ganga til kosninga. Nú væri kominn tími til að hún upplýsti okkur öll.
Sjálfsagt að núverandi stjórnarmeirihluti starfi saman til loka kjörtímabilsins
Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í sinni ræðu undir sama lið að nú væri kominn síðasti hluti kjörtímabilsins. „Nú er staðan auðvitað sú að kjörtímabilið er fjögur ár – á kjördegi fjögur ár. Síðast var kosið í lok október 2017 þannig að kjörtímabilið er til loka október 2021 nema einhver ákvörðun verði tekin um annað. Slík ákvörðun hefur ekki verið tekin og ég verð að segja mína persónulegu skoðun og tala þar ekki fyrir hönd annarra en sjálfs míns. Mér finnst sjálfsagt að núverandi stjórnarmeirihluti starfi saman til loka kjörtímabils vegna þess að þetta samstarf hefur gengið vel og skilað góðum árangri.“