Ríkissjóður greiddi út 12,1 milljarð króna í tekjutengdar barnabætur vegna ársins 2019. Það er hækkun um 3,5 prósent milli ára. Alls fá tæplega 48 þúsund manns barnabætur greiddar út nú vegna síðasta árs, sem er 2,2 prósenta fjölgun milli ára.
Þetta kemur fram í umfjöllun á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins um álagningu opinberra gjalda á einstaklinga í fyrra.
Þessi hækkun kemur til vegna þess að bótafjárhæðir voru hækkaðar um fimm prósent milli ára og tekjuskerðingarmörk um rúmlega 24 prósent.
Til viðbótar við hefðbundnu tekjutengdu barnabæturnar ákváðu stjórnvöld, í tengslum við neyðaraðgerðir sínar vegna efnahagslegra afleiðinga COVID-19 faraldursins, að greiða út þrjá milljarða króna til alls 78 þúsund einstaklinga í formi sérstaks barnabótaauka. Hann var greiddur út á föstudag.
Barnabótaaukinn er útfærður þannig að þeir framfærendur sem fá greiddar tekjutengdar barnabætur samkvæmt niðurstöðu álagningar fá til viðbótar greiddar 42 þúsund krónur á hvert barn og þeir framfærendur sem ekki fá greiddar neinar tekjutengdar barnabætur vegna skerðingarákvæða fá greiddan sérstakan barnabótaauka að fjárhæð 30 þúsund krónur á hvert barn. Það þýðir að einstaklingar sem eiga börn, en hafa að öllu jöfnu verið með of há laun til að fá greiddar barnabætur fengu 30 þúsund hver í gær óháð því hverjar heildartekjur þeirra eru.
Fátæktarhjálp fyrir tekjulágar fjölskyldur
Barnabótakerfið á Íslandi hefur verið harðlega gagnrýnt af verkalýðshreyfingunni undanfarin ár. Í skýrslu um íslenska barnabótakerfið sem dr. Kolbeinn Stefánsson vann fyrir BSRB og kynnt var á fundi bandalagsins í desember 2019 var niðurstaðan að tímabært væri að endurskoða íslenska barnabótakerfið.
Í skýrslu Kolbeins er barnabótakerfið hér á landi borið saman við kerfi hinna Norðurlandanna en samkvæmt skýrslunni íslenska barnabótakerfið mjög lágtekjumiðað sem er ólíkt barnabótakerfum hinna Norðurlandanna. Ísland er ekki eitt um að vera með tekjutengdar barnabætur því bæturnar eru einnig tekjutengdar í Danmörku.
Þar í landi liggja þó skerðingarmörkin mun hærra og skerðingarhlutföllin lægri en hér á landi og fyrir vikið svipar danska barnabótakerfinu nokkuð til kerfanna í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð sem eru ekki tekjutengd.
Því var það niðurstaða skýrslunnar að barnabætur á Íslandi væru fyrst og fremst nokkurs konar fátæktarhjálp fyrir mjög tekjulágar barnafjölskyldur. Skerðingarmörk bótanna væru lág í norrænum samanburði og því fengi töluverður fjöldi lágtekjufjölskyldna skertar tekjur, sem bitnaði sérstaklega á einstæðum foreldrar. Auk þess fengju millitekjufjölskyldur hér á landi lítinn sem engan stuðning í gegnum kerfið hér á landi.