Áætlað er að um 4.000 manns búi nú í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, en þetta kemur fram í svari Ásmundar Einars Daðasonar félags- og barnamálaráðherra við skriflegri fyrirspurn Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur þingmanns Vinstri grænna.
Talan er ekki nákvæm, segir í svari ráðherrans, þar sem hún var áætluð með vettvangskönnunum og ábendingum í nýlegri endurskoðun á könnun sem slökkviliðsstjórar á höfuðborgarsvæðinu framkvæmdu árið 2017.
Í umfjöllun Stundarinnar í byrjun síðasta árs kom fram að slökkviliðið, sem hefur kortlagt búsetu í iðnaðarhverfum undanfarin ár, áætlaði að á bilinu fimm til sjö þúsund manns héldu til í atvinnu- og iðnaðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, þar af 860 börn.
Ekki hafa verið gerðar slíkar kannanir annars staðar á landinu, eftir því sem félagsmálaráðherra best veit. Ekki er heimilt að skrá lögheimili sitt í húsnæði sem ekki er skráð sem íbúðarhúsnæði og því er ekki um að ræða neina opinberar skráningu slíkrar búsetu.
Ásmundur Einar segir í svari sínu að það muni breytast, þar sem hann ætli sér að mæla fyrir frumvarpi um breytingar á húsaleigulögum á yfirstandandi þingi. Í frumvarpinu felst meðal annars að sögn ráðherrans að skylt verði að skrá alla leigusamninga um íbúðarhúsnæði og annað húsnæði sem leigt er til íbúðar í húsnæðisgrunn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Ætlar líka að leggja fram frumvarp um hlutdeildarlán á yfirstandandi þingi
Bjarkey spurði Ásmund Einar að því hvaða úrræðum hann teldi rétt að beita til þess að þessi hópur ætti kost á viðunandi húsnæði. Í svari sínu sagði ráðherra að aðgengi fólks að viðunandi húsnæði yrði best tryggt með því að stuðla að auknu framboði slíks húsnæðis og nefndi að ríkið sé búið að leggja áherslu á almennar leiguíbúðir fyrir tekjulægri hópa undanfarin ár. Hann býst við 1.800 slíkum íbúðum inn á markaðinn á næstu þremur árum.
Einnig segir Ásmundur Einar, í margliðuðu svari sínu, að hann ætli að leggja fram frumvarp sitt um hlutdeildarlán á yfirstandandi þingi. Eins og lánin voru kynnt af ráðherra síðasta haust fela þau í sér að að ríkið láni þeim sem þess þurfi allt að 20 til 40 prósent af kaupverði fasteigna, til þess að brúa bilið á milli lánsfjármögnunar sem fæst frá fjármálafyrirtækjum og kaupverðsins.
Þetta, auk framlengdrar heimildar til nýtingar séreignarsparnaðar til húsnæðiskaupa, mun að sögn ráðherra styðja fólk við íbúðakaup og eignamyndun og örva um leið framboð íbúða.
Segir þá sem eru í atvinnuhúsnæði eiga að leita til sveitarfélaganna
Ráðherrann bendir einnig á í svari sínu á að sveitarfélögin hafi almennt ríkar skyldur til að aðstoða íbúa sína í húsnæðismálum og þurfi að tryggja framboð af húsnæði handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna.
„Einstaklingar og fjölskyldur á leigumarkaði sem ekki eiga kost á að búa annars staðar en í atvinnuhúsnæði ættu því að snúa sér til sveitarfélags síns til að leita lausna á húsnæðisvanda sínum,“ segir í svari Ásmundar Einars.