Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra braut jafnréttislög við skipun Páls Magnússonar í embætti ráðuneytisstjóra í fyrra, samkvæmt úrskurði kærunefndar jafnréttismála. Menntamálaráðherra vanmat Hafdísi Helgu Ólafsdóttur, annan umsækjenda, í samaburði við Pál, að því er fram kemur í hádegisfréttum RÚV í dag.
Kjarninn greindi frá því þann 1. nóvember síðastliðinn að Lilja hefði skipað Pál í embættið til fimm ára frá og með 1. desember.
Páll hefur um árabil gegn trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn en hann var varaþingmaður Framsóknarflokksins í tvö kjörtímabil í kringum árið 2000 og aðstoðarmaður Valgerðar Sverrisdóttur ráðherra Framsóknarflokksins.
Páll var sagður í tilkynningu mennta- og mennningarmálaráðuneytisins þegar greint var frá ráðningunni hafa fjölþætta menntun og reynslu af stjórnunarstörfum hjá hinu opinbera.
Páll lauk meistaragráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík og meistaraprófi í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands. Hann er auk þess með BA-gráðu í guðfræði frá sama skóla. Frá árinu 2006 hefur hann starfað sem sviðsstjóri stjórnsýslusviðs og bæjarritari hjá Kópavogsbæ, stýrt umbótum á stjórnsýslu bæjarins og m.a. haft forgöngu um innleiðingu gæðakerfis.
„Hann starfaði áður í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu um sjö ára skeið, sem aðstoðarmaður ráðherra. Páll sat í stjórn Landsvirkjunar frá árinu 2007 til 2011, þar af sem formaður frá 2007 til 2008, var varaformaður útvarpsráðs og síðar stjórnar RÚV ohf. frá 2003 til 2008. Hann var stjórnarformaður Fjárfestingastofu Íslands frá 1999 til 2006 og á sama tímabili varamaður í stjórn Norræna fjárfestingabankans (NIB). Á árunum 1990-1998 var hann varabæjarfulltrúi í Kópavogi og varaþingmaður frá 1999 til 2007. Þrettán sóttu um embættið og mat hæfnisnefnd fjóra umsækjendur mjög hæfa til þess að gegna því. Í kjölfarið boðaði ráðherra þá í viðtal, þar sem ítarlega var farið ofan í einstaka þætti starfsins og sýn umsækjenda. Var það mat ráðherra, að Páll Magnússon væri hæfastur umsækjenda til að stýra ráðuneytinu næstu fimm árin og leiða það umbótastarf sem er í farvatninu,“ sagði í tilkynningunni.
Verulega skorti á efnislegan rökstuðning ráðherra fyrir ráðningunni
Í frétt RÚV kemur fram að Hafdís Helga hafi óskað eftir rökstuðningi fyrir ráðningunni í nóvember og öllum gögnum málsins. Hún hafi fengið rökstuðninginn en ráðuneytið neitað að afhenda henni öll gögn með þeirri skýringu að einkahagsmunir annarra væru ríkari en hagsmunir Helgu. Helga hafi gert athugasemd við þá ákvörðun sem hún hafi ítrekað þrívegis og fengið loks öll gögn afhent í janúar. Hún hafi kært ráðninguna til kærunefnd jafnréttismála í mars og úrskurður verið kveðinn upp þann 27. maí síðastliðinn.
Í honum segir, samkvæmt RÚV, að ýmissa annmarka hafi gætt af hálfu menntamálaráðherra við mat á Hafdísi Helgu og Páli. Lilja hafi vanmetið Hafdísi samanborið við Pál varðandi menntun, reynslu af opinberri stjórnsýslu, leiðtogahæfileika og hæfni til að tjá sig í riti. Í niðurstöðu kærunefndarinnar segir að verulega skorti á efnislegan rökstuðning menntamálaráðherra fyrir ráðningunni og ljóst sé að Páll hafi ekki staðið Hafdísi Helgu framar við ráðninguna.
Menntamálaráðherra hafi ekki tekist að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ráðningunni og því hafi Lilja Dögg brotið gegn jafnréttislögum. Lögmaður Hafdísar Helgu, Áslaug Árnadóttir, segir í samtali við RÚV að Hafdís sé að íhuga næstu skref og hvort hún fari fram á bætur.