Erfitt er að spá fyrir um hver áhættan er á aukningu á samfélagslegu smiti af völdum COVID-19 hér á landi ef fjöldi ferðamanna eykst að einhverju marki, skrifar Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í minnisblaði sínu til heilbrigðisráðherra vegna ráðstafana um komu ferðamanna hingað til lands eftir 15. júní. Í minnisblaðinu er lagt til að þennan dag hefjist sýnataka á landamærum Íslands og hefur heilbrigðisráðherra fallist á þá tillögu.
„Smit á Íslandi hjá ferðamönnum eru mjög sjaldséð og ekki hefur tekist að rekja innanlandssmit til ferðamanna,“ skrifar Þórólfur. „Áhættan virðist þannig ekki vera mikil en hún fer að sjálfsögðu eftir þróun faraldursins erlendis, hvaðan ferðamenn eru að koma og hvaða ráðstafanir eru viðhafðar hérlendis til að lágmarka smithættu.“
Þórólfur telur líklegt að sýktir einstaklingar muni greinast áfram hér á landi á næstu vikum og mánuðum en telur fullvíst að slíkar sýkingar yrðu ekki útbreiddar vegna öflugra innviða og reynslu viðbragðsaðila sem fengist hefur á undangengnum mánuðum. „Íslenskt heilbrigðiskerfi ætti því að vera í stakk búið að fást við frekari sýkingar svo fremi að þær verði ekki útbreiddar.“
Í minnisblaðinu fer Þórólfur yfir stöðu COVID-19 faraldursins á Íslandi. Nú er að greinast eitt eða jafnvel ekkert tilfelli á hverjum degi og lítil merki eru um útbreitt samfélagslegt smit. „Þennan góða árangur má þakka samstöðu Íslendinga við að fylgja opinberum tilmælum um sóttvarnaráðstafanir, víðtækri skimun gegn sjúkdómnum, öflugri smitrakningu, beitingu sóttkvíar á einstaklinga sem grunaðir hafa verið um sýkingu og samkomutakmörkunum. Vegna þessa árangurs hefur verið hægt að aflétta ýmsum takmörkunum innanlands á síðustu vikum og er stefnt að því aflétta flestum þeirra á næstu vikum.“
Enn töluverð útbreiðsla erlendis
Að undanförnu hefur verið rætt um nauðsyn þess að aflétta ferðatakmörkunum ferðamanna til landsins með það fyrir augum að efla atvinnulíf á nýjan leik og koma þannig í veg fyrir frekara efnahagshrun og atvinnuleysi. Þórólfur bendir í minnisblaði sínu á að COVID-19 faraldurinn sé enn í töluverðri útbreiðslu í flestum nálægum löndum og jafnvel í vexti í mörgum þeirra. Upplýsingar um útbreiðslu veirunnar í einstaka löndum eru hins vegar af skornum skammti.
Nokkrir möguleikar eru helstir í stöðunni: Opna landamæri án takmarkana, halda þeim nánast alveg lokuðum, gera tvíhliðasamninga við aðrar þjóðir um afléttingu eða opna landamæri með skilyrðum og reyna að tryggja öryggi með því að skima fyrir veirunni.
„Ef Ísland yrði opnað án takmarkana tel ég næsta víst að veiran myndi berast hingað til lands annað hvort með ferðum Íslendinga erlendis eða erlendum ferðamönnum,“ skrifar Þórólfur. „Þetta myndi valda verulegri hættu á útbreiðslu veirunnar innanlands með miklu álagi á íslenskt heilbrigðiskerfi.“
Hann bendir svo á að þó landamæri Íslands yrðu lokuð nánast að fullu þá myndi það í besta falli seinka því að veiran bærist hingað til lands um nokkra mánuði. „Erlendar rannsóknir hafa sýnt að landamæri þurfa að vera meira en 99% lokuð til að seinka komu veirunnar um einhverja mánuði. Einnig er óvíst hversu lengi lokunin þyrfti að vara en að líkindum yrði það að vera þar til veiran yrði útdauð í heiminum, komið yrði á markað virkt bóluefni eða fullnægjandi meðferð. Slíkt gæti tekið nokkur ár.“
Hljómar vel en ...
Þórólfur segir að þó að hugmynd um tvíhliða samninga milli landa um frjálsar ferðir hljómi vel á yfirborðinu sé hún ýmsum vandkvæðum háð. „Í fyrsta lagi er erfitt að treysta upplýsingum um raunverulega útbreiðslu veirunnar í öðrum löndum vegna mismunandi greiningaraðferða og fjölda rannsókna og í öðru lagi er erfitt að ákveða hversu mikil/lítil útbreiðsla smits þarf að vera til að fullyrða um áhættu á útbreiðslu hingað til lands.“
Af þessum sökum þykir sóttvarnalækni þessi kostur almennt ekki vænlegur að svo stöddu en að hann megi íhuga þegar fram líða stundir.
Í dag geta erlendir einstaklingar/hópar komið hingað til lands til vinnu vegna nauðsynlegrar starfsemi með því að sækja um aðlagaða sóttkví (sóttkví B). Þessi sóttkví stendur einstaklingum hins vegar ekki almennt til boða enn sem komið og verða almennir ferðamenn því að fara í hefðbundna 14 daga sóttkví. Líklega mun ásókn í þessi úrræði fara vaxandi á næstu vikum og mánuðum að mati sóttvarnalæknis.
„Ég tel að sóttkví einstaklinga sem koma erlendis frá verði áfram ein mikilvægasta aðferðin til hindra komu veirunnar til landsins,“ skrifar Þórólfur. Beiðnum um undanþágur muni vafalaust fjölga mikið á næstunni og því sé brýnt að fjölga í starfsliði sóttvarnalæknis til að sinna þessum málaflokki.
Þórólfur bendir á að heilsufarsskoðun ferðamanna eins og hitamæling og almenn líkamsskoðun hafi víða verið notuð á landamærastöðvum með litlum árangri en miklum tilkostnaði. Og sjálfur er hann ekki hrifinn af þeirri leið.
Hvað varðar framvísun vottorða um fyrri veikindi af völdum COVID-19 segist Þórólfur líta svo á að einstaklingur sem hafi fengið staðfesta sýkingu/smit af völdum COVID-19 með PCR-prófi fyrir meira en 14 dögum sé ónæmur fyrir endursýkingu og beri ekki með sér smit. Því er það hans mat að bjóða eigi ferðamönnum upp á þann möguleika að sýna vottorð um yfirstaðin veikindi. „Engar ferðahömlur þarf því að setja á slíka einstaklinga.“
Mæling er ekki óyggjandi próf
Hins vegar segist hann á þessum tímapunkti ekki telja ráðlegt að treysta niðurstöðum mótefnamælinga erlendis frá og því ekki hægt að bjóða upp á vottorð um mótefnamælingu til að verða undanþeginn frá takmörkunum við komuna hingað til lands. „Þetta kann hins vegar að breytast á næstu vikum og mánuðum.“
Þórólfur leggur hins vegar til að stefnt verði að því að hefja skimun með PCR-prófum á landamærum á Íslandi 15. júní. „Stefnt verði að því að vinnan standi yfir í a.m.k. 6 mánuði með möguleika á endurskoðun á tímabilinu og að skimunin verði skilgreind sem sóttvarnarráðstöfun.“
En hann tekur fram: „PCR-mæling hjá einkennalausum einstaklingum er ekki óyggjandi próf til að greina SARS-CoV-2 veiruna. Næmi prófsins er hins vegar til muna betra hjá einstaklingum sem komnir eru með einkenni um COVID-19 og má áætla að á þeim tímapunkti sé það um 80-90%. Hins vegar er næmi prófsins nánast 0% strax eftir að smit hefur átt sér stað og má áætla að það nái 80-90% um 4-5 dögum eftir smit. Þannig getur einkennalaus einstaklingur á fyrstu 0-4 dögum eftir smit greinst með neikvætt próf jafnvel þó hann sé smitaður. Líkurnar eru hins vegar margfalt meiri á að einstaklingur með neikvætt próf sé raunverulega ekki smitaður.“
Hættan lágmörkuð
PCR-mæling hjá ferðamönnum sem koma til landsins muni því lágmarka áhættuna á því að smitaður ferðamaður komist inn í landið en ekki koma algerlega í veg fyrir slíkt. Almennt séð mun þurfa að setja sýkta ferðamenn í einangrun og útsetta í sóttkví eins og gert hefur verið við Íslendinga.
Þessi aðferð, sem heilbrigðisráðherra hefur nú ákveðið að fara, er nokkuð dýr í framkvæmd. Hún þarfnast að sögn Þórólfs mikillar skipulagningar, kaupa á tækjabúnaði og aukins mannafla. Afkastageta veirufræðideildar Landspítalans á næstu fjórum mánuðum væri hægt að auka úr 500 sýnum í um 4.000 á sólarhring. Þá bendir Þórólfur á að Íslensk erfðagreining sé reiðubúin til að aðstoða við greiningu sýna að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
„Þar sem að sýkla- og veirufræðideild LSH getur einungis greint takmarkaðan fjölda sýna við núverandi aðstæður þá er mikilvægt að leitað verði til Íslenskrar erfðagreiningar um aðstoð við greiningu sýna og upplýsinga tæknimála strax frá upphafi. Lagt er til að sýkla- og veirufræðideild LSH verði efld með bættri aðstöðu og tækjabúnaði ásamt auknum mannafla með það fyrir augum að hún geti tekið við verkefninu á næstu vikum og mánuðum.“
Þórólfur skrifar í minnisblaðinu að hann telji mikilvægt að hefja skimun á landamærum nú því mikilvægt sé að fá reynslu af skimuninni á meðan alþjóðlegur ferðamannastraumur er ekki mikill.