Íslenska hagkerfið hefur undanfarna mánuði staðið frammi fyrir tvíþættu áfalli sem birtist annars vegar í skörpum samdrætti innlendra umsvifa vegna faraldursins og nauðsynlegra sóttvarnaraðgerða og hins vegar í gríðarlegu tekjufalli í ferðaþjónustu sem ekki sér fyrir endann á.
Í greinargerð efnahags- og fjármálaráðuneytisins um efnahagsleg sjónarmið við losun ferðatakmarkana kemur fram að vísbendingar séu um að botni innlendra efnahagsumsvifa vegna faraldursins og sóttvarnaðgerða hafi verið náð, að minnsta kosti að sinni. Einkaneysla hefur þegar tekið við sér að nýju,“ enda hefur dregið úr óvissu auk þess sem stjórnvöld hafa veitt heimilum og launþegum tugmilljarða stuðning í formi hlutabóta og greiðslu launa í sóttkví.“
Þá er bent á að atvinnuleysisbætur séu tekjutengdar í þrjá mánuði. Þessu til viðbótar hafa heimilin sótt um að taka 13 milljarða króna út úr séreignarsparnaði, um 6.000 heimili hafa fengið greiðslufrest af lánum auk þess sem vaxtalækkanir hafa skilað sér í lægri afborgunum af lánum, ekki síst til heimila. Samneyslan vex einnig auk þess sem ríkissjóður og ríkisfyrirtækin munu auka fjárfestingar í ljósi hratt minnkandi fjárfestingar atvinnuvega og minni umsvifa í íbúðabyggingum.
„Efnahagsstefna stjórnvalda hefur miðað að því styðja við innlenda eftirspurn þannig að hún hafi tekið markvert við sér þegar óumflýjanleg aðlögun á sér stað í greinum ferðaþjónustu,“ segir í greinargerðinni. Að sama skapi hafi verið gripið til aðgerða til að auðvelda þá aðlögun. Til skemmri tíma muni skipta miklu að nýta megi þá framleiðsluþætti sem byggðir hafa verið upp á undanförnum árum.
„Það er þó með öllu óvíst hversu hratt ferðaþjónustan mun geta tekið við sér eftir þetta áfall og stutt við efnahagsbatann. Til lengri tíma munu lífskjör því ekki síður ráðast af því hvernig til tekst að skjóta fleiri stoðum undir hagkerfið og stuðla að aukinni framleiðni, sem almennt er lág í ferðaþjónustu. Í ljósi þessara þátta hefur Alþingi samþykkt verulega aukna fjármuni í fjárfestingar í innviðum, rannsóknum og þróun auk tæknivæðingar opinberrar starfsemi.“