Namibísk yfirvöld hafa leitað á náðir alþjóðalögreglunnar Interpol til þess að hjálpa sér við rannsókn sína í tengslum við Samherjaskjölin. Frá þessu er greint á vef namibíska miðilsins Informanté í dag, en RÚV sagði frá fyrst hérlendra miðla.
Rannsókn namibískra yfirvalda teygir sig til níu landa, meðal annars Íslands, og er ekki lokið. Í dag voru sex sakborningar í málinu, þeirra á meðal ráðherrarnir fyrrverandi Bernhard Esau og Sacky Shanghala, úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald til 28. ágúst á meðan yfirvöld rannsaka mál þeirra.
Mennirnir sex fóru fram á það, frammi fyrir dómstóli í höfuðborginni Windhoek, að þeim yrði sleppt úr haldi. Helstu rök þeirra fyrir því voru þau, samkvæmt frásögn Informanté, að yfirvöld í Namibíu vissu ekki hvenær rannsókn á málum þeirra yrði lokið. Ósanngjarnt væri að halda þeim í varðhaldi á meðan.
Saksóknari í málinu sagði að rannsóknin hefði reynst afar flókin til þess og málið væri reyndar svo flókið að rannsókn þess myndi leggja miklar fjárhagslegar byrðar á namibísk yfirvöld. Efnahagslegar afleiðingar kórónuveirufaraldursins bæta heldur ekki úr skák, að sögn saksóknarans, og ferðatakmarkanir vegna faraldursins flækt rannsóknina enn frekar.
Héraðssaksóknari hefur verið með viðskiptahætti Samherjasamstæðunnar í Namibíu til rannsóknar frá því að Kveikur, Stundin, WIkileaks og Al Jazeera fjölluðu um meintar mútugreiðslur, peningaþvætti og skattasniðgöngu fyrirtækisins í nóvembermánuði.
Í umfjölluninni steig fram uppljóstrarinn Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmaður Samherja í Namibíu, sem sagði að öll ætluð mútubrot Samherja í landinu hefði verið framkvæmd með vitund og vilja forstjóra fyrirtækisins, Þorsteins Más Baldvinssonar, sem sneri aftur í forstjórastólinn við hlið Björgólfs Jóhannssonar í lok marsmánaðar.
Engin niðurstaða liggur fyrir í rannsókn á málinu hérlendis enn sem komið er, en hún hefur verið í gangi undanfarna mánuði, samkvæmt upplýsingum Kjarnans.