Alls 440 sjóðfélagalán sem samtals nema ellefu milljörðum króna eru í greiðsluhléi hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna vegna kórónuveirufaraldursins. Þetta kom fram í kynningu Guðmundar Þórhallssonar framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á ársfundi sjóðsins í gær. Þetta er þó einungis brot af útistandandi sjóðfélagalánum. Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2019 námu útistandandi lán til sjóðfélaga alls rúmum 120 milljörðum króna við lok ársins.
Í kynningu Guðmundar kom einnig fram að 370 umsóknir að fjárhæð 330 milljónir króna hafa borist sjóðnum vegna tímabundinnar heimildar til úttektar á séreignasparnaði.
Í fréttatilkynningu sem send var í kjölfar fundarins kemur fram að ávöxtun eignasafns Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á fyrstu fjórum mánuðum ársins er áætlaður 3,5 prósent. Hrein eign til greiðslu lífeyris hækkaði á tímabilinu úr 868 milljörðum króna í 904 milljarða króna á tímabilinu. Upphaflega átti aðalfundur sjóðsins að vera haldinn í mars en hann frestaðist sökum kórónuveirufaraldursins.
Heimsfaraldur kórónuveiru hefur óneitanlega haft áhrif á rekstur sjóðsins, samkvæmt tilkynningu. „Afkoma sjóðsins það sem af er ári markast óhjákvæmilega af Covid-19 heimsfaraldrinum sem hefur haft mikil áhrif á efnahag gjörvallrar heimsbyggðarinnar. Ísland og íslenskir lífeyrissjóðir eru þar engin undantekning.“
Þar segir enn fremur að sterk tryggingarfræðileg staða sjóðsins geri „sjóðnum kleift að standa styrkur í því efnahagslega óvissuástandi sem nú ríkir í heiminum.“ Tryggingafræðileg staða sjóðsins var 8,6 prósent um síðustu áramót. Tryggingafræðileg staða tekur tillit til heildarstöðu sjóðsins umfram skuldbindingar hans.
Þá séu eignir sjóðsins í góðri áhættudreifingu. 40 prósent heildareigna í árslok hafi verið í erlendum verðbréfum en 16 prósent í innlendum hlutabréfum. Hlutfall ríkisskuldabréfa af heildareignum nam 19 prósentum og um 14 prósent af heildareignum sjóðsins voru bundin í sjóðfélagalánum.
Á ársfundinum í gær var farið yfir ársskýrslu síðasta árs sem birt var í febrúar. Síðasta ár var metár í sögu Lífeyrissjóðsins en eignir hans hækkuðu um 155 milljarða á árinu.