Ber að fjalla um hugsanlega áfangaskiptingu Hagavatnsvirkjunar

Íslenskri vatnsorku ehf. ber að sögn Orkustofnunar að fjalla um hugsanlega áfangaskiptingu fyrirhugaðrar Hagavatnsvirkjunar í frummatsskýrslu. Þá ber fyrirtækinu einnig að bera saman 9,9 MW virkjun og fyrri áform um stærri virkjanir.

Hugmyndir um að hækka vatnsborð Hagavatns með því að stífla útfall þess, Farið, eru ekki nýjar af nálinni.
Hugmyndir um að hækka vatnsborð Hagavatns með því að stífla útfall þess, Farið, eru ekki nýjar af nálinni.
Auglýsing

Orkustofnun segir að í frummatsskýrslu um umhverfisáhrif fyrirhugaðrar Hagavatnsvirkjunar sunnan Langjökuls beri að fjalla um og bera saman mismunandi útfærslur á virkjunarkostum, þar með talið hugsanlega áfangaskiptingu virkjunar á síðari stigum. 

Í tillögu að matsáætlun um Hagavatnsvirkjun, sem Mannvit vann fyrir Íslenska vatnsorku ehf. og lögð var fram til kynningar hjá Skipulagsstofnun í lok síðasta árs, er fjallað um 9,9 MW virkjun. Það er rétt undir þeim mörkum sem kalla samkvæmt lögum á meðferð hjá verkefnisstjórn rammaáætlunar. Í tillögunni kemur ekki fram hvort um sé að ræða fyrsta áfanga en rannsóknarleyfi sem Orkustofnun endurnýjaði í fyrra miðast við 18 MW. Í viðtali við framkvæmdastjóra Íslenskrar vatnsorku í Morgunblaðinu á síðasta ári kom fram að 9,9 MW virkjun væri fyrsti áfangi verkefnisins.

Líkt og Orkustofnun bendir á í umsögn sinni liggur fyrir tillaga um 20 MW Hagavatnsvirkjun í þriðja áfanga rammaáætlunar og í umsókn um rannsóknarleyfi sem stofnunin gaf árið 2013 eru tvær kostnaðaráætlanir, annars vegar fyrir 20 MW virkjun og hins vegar 35 MW. Þriðji áfangi rammaáætlunar hefur enn ekki verið afgreiddur á Alþingi. Verkefnastjórn skilaði tillögum af sér í ágúst 2016 og þar var 20 MW Hagavatnsvirkjun sett í biðflokk.

Auglýsing

Orkustofnun vekur athygli á því að í nýju matsáætluninni er ekki tilgreint hvers vegna tilhögun 9,9 MW virkjunar er lögð fram nú og að ekki sé heldur tekið fram að gerður verði samanburður milli mismunandi útfærsla á virkjun sem þegar hafi verið álitnir raunhæfir. 

Með vísan til markmiða um þjóðhagslega hagkvæmni raforkukerfisins í raforkulögum og markmiðs í landsskipulagsstefnu um sjálfbæra nýtingu orkulinda telur Orkustofnun að í frummatsskýrslu, sem er næsta skref í skipulagsferlinu, beri að fjalla um og bera saman mismunandi útfærslur og hugsanlega áfangaskiptingu.

Þó að megawött Hagavatnsvirkjunar séu í nýjustu tilhöguninni færri en áður stóð til er umfang framkvæmdarinnar sjálfrar sambærilegt. Stíflur eru jafn margar, jafn háar og svipað langar og miðlunarlónið sem yrði til með stíflun Hagavatns yrði jafn stórt.

Útsýni af Stóru-Jarlhettu til vesturs yfir Hagafellsjökul, Hagavatn, Læmið og Hlöðufell. Skjaldbreiður fjærst. Mynd: Ólafur Örn Haraldsson

Í athugasemdum náttúruverndarsamtaka er það sem þau telja uppbrot framkvæmdarinnar harðlega gagnrýnt og sagt óheimilt. Ekki verði betur séð en að um sömu framkvæmd og áður sé að ræða. „Dagljóst er að framkvæmdaraðili reynir með undanbrögðum að komast hjá því að fara að gildandi lögum í landinu,“ segir í athugasemd Náttúruverndarsamtaka Suðurlands. „Heildar umhverfisáhrif framkvæmda vegna fyrirhugaðrar 18 MW Hagavatnsvirkjunar er það sem metið skal, í einu lagi.“

Ólafur Örn Haraldsson, forseti Ferðafélags Íslands sagði í viðtali við Kjarnann í vetur að það væri „hrein ósvífni“ og til marks um „fúsk og faglegt siðleysi“ að Íslensk vatnsorka reyni að „svindla sér fram hjá faglegri skoðun“ með því að leggja fram tillögu að Hagavatnsvirkjun rétt undir þeim stærðarmörkum sem kalli á meðferð í rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Á sama tíma sé boðað að aðeins sé um fyrsta áfanga að ræða. Til standi að stækka virkjunina með því að nýta vatnasvið Jarlhettukvíslar sem er á milli Langjökuls og móbergshryggjarins Jarlhetta.

Hann segir miklu nær að friðlýsa hinar sérstæðu jarðmyndanir sunnan og austan Langjökuls, Jarlhettur og Hagavatn þar með. „Landmótun við Hagavatn er meðal merkustu ferla í jöklum á Íslandi. Þetta er hin kalda kinn landsins. Hlýnun jarðar og hop jöklanna myndar bakgrunninn og svæðið er eins og opin bók fyrir hvert mannsbarn að skilja áhrifin. Þarna er hægt að skoða söguna, verða vitni að henni. Og í þessu felast gríðarlega mikil verðmæti.“

Tilhögun fyrirhugaðrar Hagavatnsvirkjunar eins og hún er kynnt í tillögu að matsskýrslu.

Hugmyndir um að hækka vatnsborð Hagavatns með því að stífla útfall þess, Farið, eru ekki nýjar af nálinni. Á árum áður var það fyrirhugað sem liður í uppgræðsluverkefni vegna sandfoks og „mikið áhugamál“ sveitarstjórnar Bláskógabyggðar og sveitarstjórnar Biskupstungnahrepps þar á undan. Á síðari árum kviknaði áhugi á að nýta þá framkvæmd og vatn Hagavatns til orkuframleiðslu.

Gert er ráð fyrir 20 MW Hagavatnsvirkjun í nýlega samþykktu aðalskipulagi Bláskógabyggðar. „Til að draga úr uppblæstri í nágrenni Hagavatns og minnka fok yfir byggðina þá er stefnt að því að endurheimta Hagavatn í þeirri mynd sem það var fyrir hlaupið árið 1939,“ segir í greinargerð. „Endurheimt Hagavatns er forsenda þess að hægt sé að ráðast í frekari landgræðsluaðgerðir sunnan þess. Til að auka hagkvæmni framkvæmdarinnar er æskilegt að nýta stækkað Hagavatn til raforkuframleiðslu.“

Í tillögu að matsáætlun 9,9 MW Hagavatnsvirkjunar kemur fram að 5 metra sveifla yrði á vatnsyfirborði uppistöðulónsins eftir árstíma. Þessi sveifla mun að mati náttúruverndarsamtaka og Landgræðslunnar auka jarðvegsfok á svæðinu en ekki draga úr því eins og yfirlýst markmið sveitarstjórnar Bláskógabyggðar er.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Einkarekstur í forgrunni – Umhverfisstefna Sjálfstæðisflokksins
Kjarninn 19. september 2021
Magnús Gottfreðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Segir gæði vísindastarfs á Landspítala hafa hrakað á síðustu árum
Prófessor við læknadeild Háskóla Íslands segir að öfugþróun hafi átt sér stað í vísindastarfi á Landspítala eftir að hann var gerður að háskólasjúkrahúsi árið 2000, og að ekkert skilgreint fjármagn hafi fengist til að sinna því.
Kjarninn 19. september 2021
Jean-Rémi Chareyre
VG og loftslagsmálin: Að hugsa lengra en þjóðarnefið nær
Kjarninn 19. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdraganda alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar