Farþegar sem koma til landsins og kjósa að fara í sýnatöku vegna Covid-19 fremur en að sitja 14 daga í sóttkví, munu frá 1. júlí næstkomandi greiða 15.000 króna gjald vegna sýnatökunnar. Sýnataka á landamærum hefst 15. júní og verður gjaldfrjáls fyrstu tvær vikurnar. Börn fædd árið 2005 eða síðar þurfa ekki að fara í sýnatöku.
Tillaga heilbrigðisráðherra um gjaldtökuna var samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar í dag.
Í greinargerð fjármálaráðuneytisins sem kynnt var á síðasta ríkisstjórnarfundi, mæla hagfræðileg rök með því að ferðamenn verði látnir greiða fyrir kostnað við sýnatöku. Með því móti má, að því er fram kemur í greinargerðinni, m.a. stuðla að því að þeir sem sæki landið heim séu efnameiri ferðamenn sem eyði meiru og dvelji lengur.
Í frétt frá heilbrigðisráðuneytinu í dag kemur fram að nú liggi fyrir að alþjóðaheilbrigðisreglugerðin stendur ekki í vegi fyrir gjaldtöku, enda sé sýnatakan valkvæð og tilkynnt með hæfilegum fyrirvara.
Gjaldið sem innheimt verður frá 1. júlí miðast við beinan kostnað ríkisins annan en stofnkostnað og er miðað við fyrirliggjandi kostnaðargreiningu sem fram kemur í skýrslu verkefnisstjórnar um sýnatöku fyrir COVID-19 á landamærum sem kynnt var í ríkisstjórn 26. maí.
Á fréttamannasfundi ríkisstjórnarinnar 12. maí kom fram að talið væri rétt að sýnataka á landamærum yrði farþegum að kostnaðarlausu í upphafi meðan verið væri að ýta úrræðinu úr vör og leysa úr mögulegum hnökrum.
Lagaheimild til gjaldtöku vegna sýnatökunnar er í lögum um sjúkratryggingar og mun heilbrigðisráðherra gefa út reglugerð um gjaldtökuna og fleiri atriði sem varða sýnatökuverkefnið á næstu dögum.
Heilbrigðisráðherra ákvað í síðustu viku að fara að tilmælum sóttvarnalæknis um að opna landamæri Íslands gegn því að komufarþegar fari í sýnatöku, framvísi vottorði eða sæti tveggja vikna sóttkví.
Í greinargerð sem fjármálaráðuneytið vann um hagræn áhrif opnunar landamæra kom fram að ferðavilji fólks virðist enn mjög takmarkaður en að með opnun innri landamæra Schengen-ríkjanna upp úr miðjum mánuði megi áætla að þeir ferðamenn sem hingað koma verði fyrst og fremst frá Evrópu.
Samfélagslegur kostnaður af utanlandsferðum Íslendinga verði ekki niðurgreiddur
Í greinargerðinni segir að „rétt þyki“ að ferðamenn greiði sjálfir fyrir sýnatökuna við komuna til landsins. Á það er þó bent að almenn skimun sé ígildi skattlagningar á ferðalög. „Enn er þó mjög óljóst hvernig verð á flugi til og frá landinu munu þróast. Með greiðslu ferðamanna fyrir prófið má þó stuðla að því að þeir sem sækja landið heim séu efnameiri ferðamenn sem eyði meiru og dvelji lengur, enda yrði greiðslan fyrir prófið hin sama óháð dvalarlengd.“
Einnig þarf, að mati ráðuneytisins, að horfa til þess að ríkissjóður niðurgreiði ekki samfélagslegan kostnað af utanlandsferðum Íslendinga „sem virðast af reynslu síðustu mánaða hafa meiri áhrif á mögulega útbreiðslu veirunnar en komur erlendra ferðamanna“. Ef Íslendingar leiti hraðar út en ferðamenn til landsins geti það haft neikvæð áhrif á innlenda eftirspurn og viðskiptajöfnuð.