Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir það vera grafalvarlegt mál að Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hafi farið gegn tillögu sérfræðinga í menntamálaráðuneytinu þegar hún skipaði Einar Huga Bjarnason sem formann fjölmiðlanefndar í nóvember síðastliðnum. Þingmaðurinn gerði málið að umtalsefni í stöðuuppfærslu á Facebook í gær.
„Það eru nákvæmlega svona mál sem halda aftur af Íslandi. Svona mál leiða til lélegri niðurstaðna í öllu sem gerist í framhaldinu af því að hæfasta fólkið er ekki að taka ákvarðarirnar. Afleiðingin er lélegra Ísland,“ skrifaði hann.
Vísar Björn Leví í frétt RÚV þar sem fram kemur að samkvæmt minnisblaði til Lilju hafi verið mælt með því að skipa sem formann, konu sem er einn helsti sérfræðingur í fjölmiðlarétti í landinu. Lilja hafi þess í stað valið karl sem hefur litla sem enga reynslu á sviðinu en hefur setið í minnst átta nefndum á vegum Framsóknarflokksins.
Einar Hugi Bjarnason var formaður hæfnisnefndar um mat á umsækjendum um embætti ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytisins en Lilja braut jafnréttislög með því að skipa flokksbróður sinn, Pál Magnússon, í embættið. Umboðsmaður Alþingis hefur nú skipanina til athugunar, samkvæmt RÚV.
Ég er dálítið seinn í athugasemdirnar hérna en það er aðallega af því að þetta mál er ekkert að hverfa. Þetta er...
Posted by Björn Leví Gunnarsson on Thursday, June 4, 2020