Streymiþjónustan og framleiðslufyrirtækið Netflix hefur tekið ljósmynd af Sigurði Inga Jóhannsyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, úr kvikmyndinni The Laundromat. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu hjá ráðherranum í dag.
Í henni segir að hann hafi fengið lögmann til þess að ganga í málið og í framhaldinu hafi Netflix tekið þetta atriði úr myndinni og sett annað í staðinn – sem samræmist betur raunveruleikanum í málinu. Mjög margir hafi hvatt hann til þess að fara fram á leiðréttingu og þakkar hann stuðninginn. „Rétt skal vera rétt,“ skrifar hann.
Kjarninn greindi frá því á sínum tíma þegar málið komst í hámæli í október 2019 að Sigurður Ingi hefði sagt að skeytum hefði rignt yfir hann og símtölum með ábendingum um myndina.
Í kvikmyndinni, sem sýnd var á Netflix, er fjallað um Panamaskjölin og lögfræðistofuna Mossack Fonseca. „Svo illa vill til að í henni birtist mynd af mér þegar fjallað er um spillta þjóðarleiðtoga. Eins og fólki er eflaust í fersku minni þá var atburðarásin á þann veg að þegar upp komst um eignir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þáverandi forsætisráðherra, í skattaskjólum Mossack Fonseca var hann knúinn til að segja af sér,“ skrifaði hann í október.
Sigurður Ingi tók við sem forsætisráðherra í apríl árið 2016 eftir mikið umrót í stjórnmálum á Íslandi vegna umtalaðra uppljóstrana í fjölmiðlum. Hann var varaformaður Framsóknar á þessum tíma en var síðan kjörinn formaður flokksins í byrjun október sama ár. Hann tók við embættinu af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni sem síðar stofnaði Miðflokkinn.
Hann sagði við sama tækifæri að þetta hefðu verið erfiðir tímar í íslenskum stjórnmálum og að Íslendingar hefðu verið fullir af réttlátri reiði og því mikil áskorun að setjast í stól forsætisráðherra. „Síðan hef ég litið á það sem eitt helsta verkefni mitt og annarra stjórnmálamanna að efla traust í íslensku samfélagi og er sú ríkisstjórn sem nú situr við völd stórt skref í að skapa stöðugleika og mynda sátt í samfélaginu.“
Ráðherrann sagði að eins og honum þætti það sárt og óþolandi að vera bendlaður við þessi spillingarmál í The Laundromat þá yrði myndinni vart breytt úr þessu. Falsfréttir væru og yrðu vandamál á tækni- og upplýsingaöld. Það væri áskorun fyrir fjölmiðlaheiminn og framleiðendur efnis að hafa sannleikann ávallt að leiðarljósi.
Sigurður Ingi var ekki alveg sannspár þegar hann skrifaði færsluna í október þar sem myndinni hefur nú verðir breytt, eins og hann greindi frá í dag.
Síðastliðið haust skýrði ég frá myndbirtingu hér á Facebook sem varðar kvikmynd á Netflix en eins og ýmsum er væntanlega...
Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Sunday, June 7, 2020