Þótt lífeyrissjóðir eigi tæpan helming alls hlutafjár í Icelandair Group, og raunar stóran hluta eiginfjár í íslensku atvinnulífi, er ýmislegt sem mæli á móti því að þeir leggi meira fé í rekstur félagsins. Stór hluti í einu flugfélagi sé til að mynda varasamur út frá sjónarmiðum um áhættudreifingu. Þá átti fyrri fjárfesting hluta sjóðanna í Icelandair Group, þegar félagið var fjárhagslega endurskipulagt eftir bankahrunið, sér stað þegar til staðar voru fjármagnshöft sem gerðu lífeyrissjóðum ekki kleift að fjárfesta í útlöndum. Fjárfestingin var því ekki til komin vegna þess að Icelandair Group hefði verið besti fjárfestingakostur sem til væri.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í grein Sigurðar Jóhannessonar, forstöðumanns Hagfræðistofnunnar Háskóla Íslands, sem birtist í síðasta tölublaði Vísbendingar sem barst áskrifendum í lok síðustu viku.
Sigurður segir þar að nú sé þrýst á lífeyrissjóði að taka þátt í endurfjármögnun Icelandair Group með þjóðarhag í huga. „Hagsmunir Icelandair fara vissulega saman við hagsmuni margra félaga í íslenskum lífeyrissjóðum, en einu hagsmunirnir sem sameina alla sjóðsfélaga eru að sjóðirnir ávaxtist vel og geti borgað góðan lífeyri. Besta leiðin til þess að draga úr óvissu um lífeyrisgreiðslur á komandi árum er sennilega að sjóðirnir beini hlutabréfakaupum sínum til útlanda. Aðrir fjárfestar hér á landi ráða líklega ekki yfir jafnmiklu fé og lífeyrissjóðir, en um þá gilda sömu rök: Líkast til er ekki skynsamlegt að þeir leggi mikið undir í íslensku flugfélagi.“
Ættu að sækja nýtt hlutafé til útlanda
Að mati Sigurðar liggur beinast við að sækja nýtt hlutafé í Icelandair til útlanda. „Vissulega getur brugðið til beggja vona um gengi hlutabréfa í félaginu, en þau þurfa ekki að vera slæm fjárfesting fyrir fjárfestingarsjóði sem eiga eignir víða. Enginn vafi er á að áfram verður flogið til Íslands. Icelandair er í betri stöðu en önnur félög í Íslandsflugi vegna þekkingar innan félagsins á markaðinum og velvildar sem félagið nýtur.“
Umhverfisverndarsamtök séuá meðal fárra sem mótmæli nú ríkisstuðningi við flugfélög. En einnig megi benda á að endurskipulagning á flugmarkaði taki tíma. „Brotthvarf Icelandair tefur fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu á næstu misserum. Rök af þessu tagi verður að vega á móti kostnaði sem stuðningur við félagið leggur á skattgreiðendur.“
Hvað gerist ef Icelandair á ekki fyrir skuldum?
Sigurður segir í greininni að ekki sé víst að Icelandair hætti rekstri þó að það fari í þrot. Forræði félagsins færist þá um sinn til lánardrottna og framtíð þess yrði í höndum þeirra. „Þeir verða að svara spurningum eins og: Fáum við meira upp í skuldirnar með því að selja eignir eða halda rekstrinum áfram? Er rekstrinum kannski betur borgið í höndum nýrra stjórnenda? Flugvélar eru ekki í háu verði þessa dagana. Vandræði félagsins verða ekki heldur rakin til mistaka í rekstrinum. Ekki kæmi á óvart að lánardrottnar semji við fyrri stjórnendur um að halda rekstrinum áfram, þó að engir ríkisstyrkir komi til.“
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.