Starfsmaður fjármála- og efnahagsráðuneytisins kom þeim boðum til kollega sinna í norrænum fjármálaráðuneytum og til Norrænu ráðherranefndarinnar að ráðuneytið gæti ekki stutt að Þorvaldur Gylfason, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, yrði ráðinn sem ritstjóri norræna fræðatímaritsins Nordic Economic Policy Review.
Ástæðan sem ráðuneytið gaf upp var sú að Þorvaldur hefði verið og væri enn, samkvæmt bestu vitneskju ráðuneytisins, formaður stjórnmálaafls. Hann væri því of pólitískt virkur til þess að ráðuneytið gæti stutt að hann yrði ritstjóri fræðatímaritsins.
Þarna fór starfsmaður ráðuneytisins með rangfærslur um prófessorinn. Hann var vissulega á meðal stofnenda Lýðræðisvaktarinnar árið 2013 og leiddi hana til Alþingiskosninga þar sem flokkurinn hlaut eftirminnilega 2,46 prósent atkvæða, en hætti síðan í stjórn flokksins um haustið 2013 og hefur ekki gegnt trúnaðarstörfum í stjórnmálum síðan.
Þorvaldur, sem fékk tölvupóstsamskipti ráðuneytisins við Norrænu ráðherranefndina afhent á grundvelli upplýsingalaga, segir við Kjarnann að ráðuneytið hafi hvorki veitt sér staðfestingu á að þessar rangfærslur um hann hafi verið leiðréttar, né afsökunarbeiðni fyrir að hafa farið með rangt mál um sig.
Hann telur ljóst að rangfærslurnar hafi komið í veg fyrir ráðningu hans í ritstjórastarfið, sem Þorvaldur segir að hafi verið afturkölluð munnlega 13. nóvember.
Kjarninn fjallaði um úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál í málinu síðasta föstudag og hefur blaðamaður síðan fengið að sjá gögn sem tengjast málinu.
Þorvaldur segir að búið hafi verið að bjóða sér ritstjórastarfið og annað er ekki hægt að lesa út úr tölvupóstsamskiptum hans við starfsmann Norrænu ráðherranefndarinnar, sem dagsett eru 1. nóvember.
Þann dag kannaði starfsmaður Norrænu ráðherranefndarinnar hvort Þorvaldur hefði komist að niðurstöðu um hvort hann vildi þiggja starf sem ritstjóri Nordic Economic Policy Review. Það er fræðatímarit sem norrænu fjármálaráðuneytin gefa út í samstarfi við rannsóknastofnunina Nordregio, sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina.
Þorvaldur þáði starfstilboðið með tölvupósti eftir að hafa fengið upplýsingar um bæði starfsaðstæður og kaup og kjör og fékk í kjölfarið svar til baka frá starfsmanni Norrænu ráðherranefndarinnar, þar sem honum var þakkað fyrir að þiggja starfið.
„Við hlökkum til að hafa þig og þína sérþekkingu með okkur í næstu útgáfum NEPR,“ sagði embættismaður Norrænu ráðherranefndarinnar í pósti til Þorvalds, sem segir enga fyrirvara hafa verið á ráðningu sinni.
Vildu frekar leggja til annan Íslending síðar
Eftir þetta fóru þó í hönd umræður á milli norrænu fjármálaráðuneytanna um hver skyldi verða ráðinn næsti ritstjóri tímaritsins, en öll ríkin þurfa að vera samhljóða um ráðningu ritstjóra NEPR. Íslenska ráðuneytið hefur sagt Þorvaldi í bréfaskiptum þeirra á milli að hann hafi aldrei verið formlega ráðinn í starfið, það sé misskilningur. Hann hafi einungis verið einn margra sem komu til greina.
Þann 4. nóvember sendi starfsmaður finnska fjármálaráðuneytisins póst á kollega sína á hinum Norðurlöndunum þar sem hann sagði að nú væri kominn annar kandídat í starfið, Þorvaldur Gylfason. Miðað við fyrirsögn tölvupóstsamskiptanna stóð valið þá á milli hans og finnsks prófessors, Jukka Pekkarinen.
Embættismaður í íslenska ráðuneytinu svaraði fulltrúa finnska ráðuneytisins persónulega 7. nóvember og sagði að Ísland gæti ekki stutt Þorvald í ritstjórastarfið, án þess þó að rökstyðja af hverju.
„Við tókum vel í uppástunguna um að ritstjórastarfið myndi að nokkru leyti færast á milli landanna, en við vildum frekar leggja til Íslending í starfið síðar fremur en að styðja Gylfason núna,“ sagði íslenski embættismaðurinn.
Fulltrúi finnska ráðuneytisins svaraði þessu sama dag og sagðist „mjög undrandi“ á þessari afstöðu Íslands. „Teljið þið í fjármálaráðuneytinu að hann væri ekki hæfur og fær um að stýra NEPR?“ spurði finnski embættismaðurinn, sem sagðist enn fremur hafa skoðað opinberar upplýsingar um Þorvald og út frá þeim talið hann mjög góðan kandídat í starfið.
„Það er rétt - hann nýtur ekki okkar stuðnings,“ svaraði íslenski embættismaðurinn þeim finnska morguninn eftir, 8. nóvember, og bætti því við að íslenska ráðuneytið gæti stutt hinn finnska Pekkarinen í stöðuna.
Auk þessara einkaskilaboða til finnska embættismannsins kom íslenska ráðuneytið afstöðu sinni áleiðis til allra sem fengu upprunalega tölvupóstinn frá finnska ráðuneytinu.
Í þeim pósti, sem sendur var 8. nóvember, segir að eftir smá umræður í ráðuneytinu hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að Ísland myndi fremur styðja Pekkarinen í stöðuna. „Við teljum að Gylfason sé ekki rétti kandídatinn,“ segir í svari íslenska embættismannsins.
Þessi afstaða kom fulltrúa danska ráðuneytisins mjög á óvart, rétt eins og þeim finnska, og bað sá danski íslenska ráðuneytið um að færa rök fyrir afstöðu sinni. „Á pappír virðist hann vera afar hæfur umsækjandi. Við vildum gjarnan geta tekið upplýsta ákvörðun hérna,“ segir danski embættismaðurinn í tölvupósti 8. nóvember.
Efnislegt svar um ástæðurnar fyrir því að Ísland gæti ekki stutt stutt Þorvald barst svo frá íslenska embættismanninum þann 11. nóvember:
„Þorvaldur er virkur í stjórnmálum. Hann hefur verið, og er ennþá eftir því sem við best vitum, formaður Lýðræðisvaktarinnar. Við teljum ekki viðeigandi að manneskja sem er svo virk í stjórnmálum, hvað þá einhver sem veitir stjórnmálaafli formennsku, sé ritstjóri NEPR,“ segir starfsmaður ráðuneytisins, sem stingur síðan upp á því að Friðrik Már Baldursson, forseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík, væri heppilegri í starfið.
Starfstilboð afturkallað munnlega
Þessir tölvupóstar sem Kjarninn hefur séð varpa ekki nánara ljósi á það sem fór norrænu ráðuneytanna á milli varðandi mögulega ráðningu Þorvalds í starfið, en þetta eru einu tölvupóstsamskiptin sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál gerði ráðuneytinu að afhenda Þorvaldi.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið segist hafa leiðrétt rangfærslurnar sem settar voru fram um pólitíska þátttöku prófessorsins, en hann sjálfur hefur sem áður segir ekki fengið staðfestingu á því, þrátt fyrir að lögmaður hans hafi sérstaklega óskað eftir því við ráðuneytið að upplýst verði um dagsetningar slíkra samskipta.
Þann 13. nóvember, tveimur dögum eftir að starfsmaður fjármála- og efnahagsráðuneytisins sagði erlendum kollegum sínum frá að Ísland gæti ekki stutt Þorvald í starfið vegna stjórnmálaþátttöku hans, segist Þorvaldur hafa fengið símtal frá starfsmanni Norrænu ráðherranefndarinnar þar sem honum var tjáð að hann yrði, þrátt fyrir að hafa þegar þegið starfstilboð, ekki ráðinn næsti ritstjóri NEPR.
Þetta segir Þorvaldur að geti ekki staðist, lagalega, þar sem tölvupóstsamskipti hans við Norrænu ráðherranefndina um atvinnuboðið hafi verið ígildi bindandi samnings.
Í bréfi sem lögmaður hans sendi Norrænu ráðherranefndinni 27. nóvember segir að Þorvaldur áskilji sér rétt til þess að sækja skaðabætur til Norrænu ráðherranefndarinnar vegna ólögmætra slita á ráðningarsambandi og vegna orðsporsmissis.
Norræna ráðherranefndin er hvött til þess að stinga upp á sátt vegna deilunnar, en við þessu bréfi hefur ekki verið brugðist.
Samkvæmt upplýsingum sem Kjarninn fékk frá Norrænu ráðherranefndinni verður Harry Flam, hagfræðiprófessor við Stokkhólmsháskóla, næsti ritstjóri Nordic Economic Policy Review.