Fjármála- og efnahagsráðuneytið studdist við rangar upplýsingar, sem það segir að hafi verið að finna á Wikipedia-síðu um Þorvald Gylfason hagfræðiprófessor, þegar það kom boðum til sérfræðinga í starfshópi norrænu fjármálaráðuneytanna um að Þorvaldur væri of virkur í pólitísku starfi til þess að Ísland gæti samþykkt að hann yrði ritstjóri norræna fræðatímaritsins Nordic Economic Policy Review, sem gefið er út af Norrænu ráðherranefndinni.
Þetta segir ráðuneytið í svari við fyrirspurn Kjarnans, þar sem það biðst einnig velvirðingar á því að hafa farið með rangfærslur um Þorvald í tölvupósti sem sendur var 11. nóvember í fyrra. Ráðuneytið segist einnig hafa leiðrétt rangfærslurnar um prófessorinn í tölvupósti, sem sendur var á þá sem fengu upprunalega póstinn, 29. nóvember.
Ráðuneytið segir að upplýsingunum um Þorvald sem finna mátti á Wikipedia hafi síðar verið breytt. Wikipedia er eins og flestir vita alfræðirit á netinu þar sem hver sem er getur breytt þeim upplýsingum sem þar koma fram um menn og málefni. Þar má gjarnan reka sig á úreltar upplýsingar.
Ekki borið undir fjármálaráðherra eða aðra á skrifstofu yfirstjórnar
Samkvæmt svari ráðuneytisins var ákvörðunin um að bera fram þessi sjónarmið um Þorvald, að hann væri of pólitískt virkur til að njóta stuðnings Íslands í starfið, „ekki borin undir ráðherra né aðra á skrifstofu yfirstjórnar ráðuneytisins.“
Ekki fékkst skýrt svar við því hvort sú ákvörðun að hafna Þorvaldi hefði verið tekin af starfsmanni ráðuneytisins sem var í samskiptum við norræna stýrihópinn fyrir Íslands hönd eða einhverjum öðrum innan ráðuneytisins.
„Virða beri í hvívetna akademískt frelsi fræðimanna“
Kjarninn spurði ráðuneytið einnig að því hvort það væri mat ráðuneytisins að stjórnmálaþátttaka íslenskra fræðimanna kæmi í veg fyrir að hægt væri að mæla með þeim í fræðastörf, á samnorrænum vettvangi eða annarsstaðar.
„Ekki eru til neinar reglur um að stjórnmálaþátttaka íslenskra fræðimanna eigi að hafa áhrif á það hvort þeir komi til álita í fræðastörf, hvorki á samnorrænum vettvangi né annarsstaðar. Líta verður svo á að virða beri í hvívetna akademískt frelsi fræðimanna, en alvanalegt er að einstaklingar sem tekið hafa þátt í stjórnmálastarfi séu valdir til að taka þátt í alþjóðasamvinnu og það á vitanlega við um verkefni á borð við ritstjórn fræðilegs tímarits,“ segir í svari ráðuneytisins.
Í tölvupóstsamskiptum sérfræðings ráðuneytisins við norrænu kollega sína var þó skýrt tekið fram að stjórnmálaþátttaka Þorvalds væri ástæðan fyrir því að íslenska fjármálaráðuneytið teldi óviðeigandi að hann ritstýrði NEPR.
Ekkert samhljóða samþykki lá fyrir
Kjarninn bað um útskýringu frá ráðuneytinu á því hvernig ráðningarferli ritstjóra NEPR er háttað, en eins og fram hefur komið telur Þorvaldur Gylfason sig hafa fengið fyrirvaralausa ráðningu í starfið, vegna tölvupóstsamskipta hans við embættismann Norrænu ráðherranefndarinnar 1. nóvember.
Ráðuneytið segir að fjallað sé um ráðningu á ritstjóra tímaritsins í starfshópi sérfræðinga í fjármálaráðuneytum Norðurlandanna. „Vanalegt er að í aðdraganda slíkrar ákvörðunar séu ýmsir nefndir til sögunnar og svo var einnig í því tilviki sem hér um ræðir. Ákvörðun um ráðningu er tekin samhljóða, þ.e. að krafist er samsinnis allra fyrir ráðningu. Ekkert slíkt samþykki lá fyrir þann 11. nóvember sl., en óformleg skoðanaskipti áttu sér stað meðal þeirra sérfræðinga sem að ákvörðuninni koma,“ segir ráðuneytið í svari sínu.
Þorvaldur hefur þann skilning eftir samskipti sín við Norrænu ráðherranefndina að hann hafi verið ráðinn til starfans. Embættismaður Norrænu ráðherranefndarinnar skrifaði til hans, 1. nóvember: „Við hlökkum til að hafa þig og þína sérþekkingu með okkur í næstu útgáfum NEPR.“ Þá hafði Þorvaldur þegar fengið upplýsingar um kaup og kjör og samþykkt að taka að sér starfið.
Það er þó ljóst af samskiptum stýrihóps norrænu ráðuneytanna, sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál lét Þorvaldi í té með úrskurði sínum í síðasta mánuði, að enginn í þeim hópi leit svo á að búið væri að taka endanlega ákvörðun, enda þarf, eins og fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur sagt frá, samhljóða samþykki allra aðildarríkjanna til þess að einstaklingur sér ráðinn í þetta starf.
Þorvaldur segir að starfstilboð sitt hafi verið dregið til baka munnlega 13. nóvember af hálfur Norrænu ráðherranefndarinnar, tveimur dögum eftir að rangfærslur um hann voru settar fram af hálfu sérfræðings íslenska ráðuneytisins og 16 dögum áður en þær voru leiðréttar.
Norræna ráðherranefndin svarar engu
Norræna ráðherranefndin hefur ekki svarað erindi lögmanns Þorvalds Gylfasonar, sem sent var 27. nóvember. Þar segist hann áskilja sér rétt til að sækja bætur vegna ólögmætra slita á ráðningarsambandi, sem myndast hafi með tölvupóstsamskiptunum þann 1. nóvember.
Norræna ráðherranefndin svaraði ekki heldur formlegum fyrirspurnum frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál þegar nefndin var með gagnabeiðni Þorvalds til meðferðar.
Athugasemd ritstjórnar: Fréttinni hefur verið breytt. Í fyrri útgáfu hennar sagði að fjármála- og efnahagsráðuneytið hefði sagt að Wikipedia-síðu um Þorvald hefði verið uppfærð fyrir 29. nóvember, þegar það sendi leiðréttingu til þeirra sem fengu rangfærslur ráðuneytisins um Þorvald sendar. Hið rétta er að ráðuneytið tiltók ekki sérstaklega hvenær Wikipedia-síðunni hefði verið breytt, einungis að henni hefði verið síðar breytt. Beðist er velvirðingar á þessu.