Um 91 prósent þeirra landsmanna sem taka afstöðu ætla að kjósa Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, í forsetakosningunum síðar í þessum mánuði, samkvæmt niðurstöðu könnunar sem EMC rannsóknir framkvæmdu daganna 3. til 8. júní. Um níu prósent ætla að kjósa Guðmund Franklín Jónsson.
Guðni nýtur yfirgnæfandi stuðnings kjósenda nær allra flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi. Þeir sem skera sig þar úr eru kjósendur Flokks flokksins, þar sem 18,3 prósent segjast ætla að kjósa Guðmund Franklín, og kjósendur Miðflokksins, en 39,9 prósent þeirra styðja hann.
EMC rannsóknir spurðu líka hvern viðkomandi myndu kjósa í forsetakosningunum í Bandaríkjunum ef þeir gætu kosið þar í nóvember næstkomandi. Þar kom í ljós að 94,2 prósent þeirra sem myndu kjósa Joe Biden, frambjóðanda Demókrataflokksins, ætla sér að setja x við Guðna. Af þeim sem myndu kjósa Donald Trump, forseta Bandaríkjanna og frambjóðanda Repúblíkanaflokksins, ætlaði hins vegar 52,7 prósent að kjósa Guðmund Franklín.
Töluverður munur er þó á afstöðu kynjanna til forsetaframbjóðendanna. Guðmundur Franklín myndi fá 15,7 prósent atkvæða ef einungis karlar mættu kjósa en hann er vart með mælanlegt fylgi hjá konum, þar sem 97,2 prósent þeirra segjast styðja Guðna.
Fjöldi svarenda var 825. Könnunin var framkvæmd á Netinu og send á þátttakendur í svarendahópi EMC Rannsókna. Um kvótakönnun var að ræða þar sem tryggt var að svarendur endurspegla landsmenn með tilliti til kyns, aldurs og búsetu með hlutfalli í svarendahópum og vigtun. Niðurstöður eru greindar eftir lýðfræði (kyni, aldri og búsetu) og menntun. Alls tóku 89 prósent þeirra sem svöruðu könnuninni afstöðu.
Niðurstaða EMC er nánast hin sama og í könnun Gallup sem gerð var dagana 29. maí til 3. júní 2020. Þar mældist Guðni með 90,4 prósent fylgi og Guðmundur Franklín með 9,6 prósent. Í þeirri könnun voru kjósendur Miðflokksins líka langlíklegastir til að kjósa Guðmund Franklín, en ríflega 45 prósent þeirra sögðust ætla að gera það.
Kjósendur Miðflokksins eru líka allra íslenskra kjósenda líklegastir til að styðja Donald Trump. Í könnun sem EMC birti í byrjun júní kom fram að einungis fjögur prósent Íslendinga myndi kjósa Trump ef þeir hefðu kosningarétt í Bandaríkjunum. Af kjósendum Miðflokksins sögðust hins vegar 29 prósent styðja sitjandi Bandaríkjaforseta.