Áætlanir Kadeco um uppbyggingu svokallaðrar flugvallarborgar í nágrenni Keflavíkurflugvallar hafa ekki breyst þrátt fyrir að fjöldi farþega um Keflavíkurflugvöll hafi fækkað mikið á síðasti ári. Þetta segir framkvæmdastjóri Kadeco, Pálmi Freyr Randversson í samtali við Kjarnann. Hann tekur þó fram að umfang verkefnisins geti tekið mið af farþegatölum sem hann er fullviss um að muni ná fyrri styrk.
„Í mínum huga er engin spurning um að vöxturinn heldur áfram en hversu mikill hann verður verður þá að koma í ljós núna eftir það sem hefur dunið á. Við auðvitað skölum okkar uppbyggingaráform út frá farþegafjölda og umferð um flugvöllinn,“ segir Pálmi Freyr.
Hjá Kadeco stendur nú yfir undirbúningsvinna fyrir samkeppni sem á að halda á næsta ári um skipulag svæðisins. Pálmi segir að flugvallarborgir og svæði nálægt flugvöllum séu í skoðun, hvernig slík svæði nýti sér flug sérstaklega og hvað það sé sem að gerir flugvallarborg öðruvísi en aðrar borgir eða önnur svæði. Þegar þeirri greiningarvinnu verður lokið er hægt að efna til samkeppni um framtíðarskipulag.
Vill að þar skapist fjölbreytt atvinnustarfsemi
Þrátt fyrir að umferð fólks um Keflavíkurflugvöll hafi minnkað, þá skipta þær tölur ekki öllu máli þegar horft er til framtíðaruppbyggingar á svæðinu að mati Pálma. Ekki megi heldur einblína um of á ferðaþjónustu þegar kemur að uppbyggingu í kringum flugvöllinn.
„Það sem við erum að vilja með þessu er að dreifa þessum eggjum í aðeins fleiri körfur. Vera með aðeins fleiri tækifæri. Auðvitað munu þau tengjast mest flugi, þess vegna erum við að gera þetta hérna við flugvöllinn. Ef að túrisminn fer eða hann klikkar eitthvað aftur þá eru önnur tækifæri á svæðinu. Núna eru fraktflutningar alveg á fullu, verið að nota farþegavélarnar í það, þannig að ef við getum til dæmis boðið upp á einhverja frábæra fraktaðstöðu með nútímatækni þá er það eitt tækifæri.“
Mikilvægt að horfa langt fram í tímann
Hann segir að það sé mikilvægt að horfa langt fram í tímann í skipulagsmálum og það sé akkúrat það sem Kadeco einblíni á. Þá telur hann félagið vera góðan samræðuvettvang fyrir ríkið og sveitarfélög á svæðinu til að eiga samtal um skipulagið.
„Þá ertu ekki að skipuleggja eitthvað sérstaklega hér því það er innan þessa sveitarfélags eða innan marka flugvallarins. Heldur á þetta að vera það sem virkar til framtíðar. Þá ertu ekki að tímasetja uppbygginguna út frá því innan hvaða skipulagsmarka hún er, þú ert að tímasetja hana út frá því hvað vantar, hver þörfin er og hvar tækifærin eru,“ segir Pálmi.
Þá telur hann mikil verðmæti vera fólgin í landsvæðinu sem félagið hefur til umráða. „Það gefur okkur ákveðin tækifæri að vera á þessum stað og að vera með ótrúlega mikið landsvæði sem við getum þróað, það eru ekki allir flugvellir sem búa við það. Við getum bætt við flugbrautum og við getum stækkað flugstöðina, við þurfum ekki að rífa niður nein hverfi eða þorp til þess eins og sumir eru að gera. Þannig að það verður ódýrara í okkar tilfelli að stækka flugvöllinn, miðað við marga aðra.“
Kadeco er í eigu ríkisins og var stofnað í október 2006 eftir að Bandaríkjaher yfirgaf herstöðina á Miðnesheiði. Upprunalegt hlutverk félagsins var að selja fasteignirnar sem herinn skildi eftir sig en nú er helsta hlutverk félagsins að hafa umsjón með og ráðstafa lóðum og landi í eigu ríkisins.