Lögreglan hefur haft uppi á tveimur af þeim þremur rúmensku ríkisborgurum sem lýst var eftir seint í gær. Samkvæmt frétt RÚV höfðu mennirnir skráð sig inn á hótel á höfuðborgarsvæðinu og barst lögreglu ábending um mennina eftir að lýst var eftir þeim. Þetta er haft eftir Víði Reynissyni, yfirlögregluþjóni hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Þar segir enn fremur að búið sé að taka sýni úr mönnunum tveimur til að athuga hvort þeir séu smitaðir af COVID-19, líkt og tveir félagar þeirra sem handteknir voru í gær reyndust vera. Búist er við að niðurstaða úr sýnatökunni að liggi fyrir síðar í dag.
Í frétt RÚV segir að rannsókn á máli mannanna sex hafi hins vegar nú tekið óvænta stefnu þar sem lögreglan kannar nú samskipti hópsins við annan hóp Rúmena sem er talinn vera staddur hér á landi, og hefur verið hér í viku.
Tveir greindir með virkt COVID-19 smit
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsti í gær eftir þremur rúmenskum karlmönnum, sem komu til landsins fyrripart vikunnar, nánar tiltekið fyrir fimm dögum síðan. Mennirnir þrír komu til landsins í sex manna hópi, en þeir eru taldir vera mögulega smitaðir af COVID-19 og vera með virk smit.
Þrír hinna sex mannanna voru handteknir í gær vegna búðarhnupls á Selfossi og reyndust tveir þeirra vera greindir með virkt COVID-19 smit. Því grunaði lögregluna að þeir þrír sem lýst var eftir gætu verið smitaðir líka.
Í morgun voru tveir þeirra þriggja sem leitað var handteknir og sá þriðji var, líkt og áður sagði, handtekinn síðdegis í dag.
Fóru víða
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu greindi frá því í gær að hún hefði handtekið áðurnefnda þrjá menn fyrir þjófnað á Selfossi í gær. Við rannsókn málsins hafi komið í ljós að þeir komu til landsins fyrir fjórum dögum og áttu því að vera í sóttkví. Vegna þessa var ákveðið að taka sýni úr nefkoki til að kanna með hugsanleg COVID-19 smit.
Niðurstöður bárust lögreglu um hádegi í gær og reyndust þá tveir einstaklingana vera jákvæðir.
Þar sem mennirnir voru með virk smit, og höfðu ekki myndað mótefni gegn COVID-19, eru 16 lögreglumenn hjá lögreglunni á Suðurlandi og Höfuðborgarsvæðisins sem komu að máli þeirra í sóttkví.
Viðir sagði við RÚV í gær að mennirnir sem voru handteknir í gær verði fluttir í farsóttarhús á höfuðborgarsvæðinu í dag, sunnudag, þar sem þeir verða í einangrun. Þar munu þeir sæta gæslu lögreglunnar þar til næstu skref verða ákveðin en fá viðeigandi heilbrigðisþjónustu og aðgang að heilbrigðisstarfsfólki sem mun meta veikindi þeirra.