Sænska dagblaðið Dagens Nyheter fjallar um mál Þorvalds Gylfasonar á vef sínum í kvöld, en í umfjöllun blaðsins er málið rakið og meðal annars rætt við sænska hagfræðiprófessorinn Lars Calmfors.
Hann segir blaðamanni Dagens Nyheter að sú afstaða Íslands að leggjast gegn því að Þorvaldur komi til greina í ritstjórastöðuna á pólitískum forsendum geti skaðað trúverðugleika fræðitímaritsins Nordic Economic Policy Review (NEPR).
Einnig er rætt við Þorvald sjálfan, sem segir frá því að Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra hafi sjálfur viðurkennt að hafa hvorki viljað tilnefna sig né styðja í ritstjórastöðuna. „Þau treysta ekki hagfræðingi sem hefur verið gagnrýninn á efnahagsstefnu þeirra,“ ef haft eftir Þorvaldi.
Calmfors, sem eins og fram hefur komið lagði til nafn Þorvalds í stöðuna, segir að honum þyki óboðlegt að íslenska ráðuneytið hafi neitað að styðja Þorvald í stöðuna á þeim forsendum að hann hafi verið virkur í stjórnmálum, valið eigi að fara fram á faglegum forsendum, en ekki pólitískum.
Þess má geta að Calmfors hefur beðið Bjarna Benediktsson um afsökunarbeiðni, fyrir að halda því fram að mögulega hafi hann viljað koma Þorvaldi að í ritstjórastöðuna af því að þeir væru gamlir kunningjar. Hann sagði Kvennablaðinu í dag að hann hefði aldrei áður á 50 ára starfsferli verið sakaður um kunningjaspillingu.
Dagens Nyheter rekur að málið hafi vakið mikla athygli á Íslandi og ræðir við Guðmund Andra Thorsson, þingmann Samfylkingar, sem óskaði eftir því að fjármála- og efnahagsráðherra kæmi fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins í dag.
Blaðamaður spurði Guðmund Andra að því hvort hann ætlaði sér að leggja fram vantraustsyfirlýsingu á hendur Bjarna og Guðmundur Andri svaraði því til að það hefði hann ekki gert, ennþá, en fyrirsögn fréttarinnar í sænska blaðinu er þó „Ráðningarhneyksli skekur ríkisstjórn Íslands“.
Það er þó ef til vill ofsögum sagt, enda hefur Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lýst því yfir að eðlilegt sé að fjármálaráðherrar Norðurlandanna hafi sín áhrif á það hver verður ritstjóri þessa hagfræðitímarits og stjórnarliðar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd virtust almennt líta á þetta mál sem storm í vatnsglasi, á fundi nefndarinnar í dag.