„Ég gerði öllum ljóst að það var mjög rangt að gera þetta“

Lars Calmfors, sænskur hagfræðiprófessor sem var ritstjóri fræðatímaritsins NEPR, mótmælti afstöðu íslenska fjármálaráðuneytisins til Þorvalds Gylfasonar. Hann segir pólitískar röksemdir ekki eiga að hafa nokkur áhrif á ráðningu í stöðuna.

Lars Calmfors (t.v.) er prófessor við Stokkhólmsháskóla og var síðasti ritstjóri NEPR. Hann segir það hafa verið rangt af íslenska fjármálaráðuneytinu að hafna því að Þorvaldur yrði ráðinn í stöðuna.
Lars Calmfors (t.v.) er prófessor við Stokkhólmsháskóla og var síðasti ritstjóri NEPR. Hann segir það hafa verið rangt af íslenska fjármálaráðuneytinu að hafna því að Þorvaldur yrði ráðinn í stöðuna.
Auglýsing

„Jafnvel þó það væri rétt að hann væri formaður stjórnmálaflokks þá hefði það ekki átt að hafa nein áhrif,“ segir sænski hagfræðiprófessorinn Lars Calmfors, um mál Þorvalds Gylfasonar, sem íslenska fjármála- og efnahagsráðuneytið sagðist ekki geta stutt í stöðu ritstjóra samnorræna fræðatímaritsins Nordic Economic Policy Review (NEPR) í nóvember síðastliðnum.

Lars Calmfors var ritstjóri NEPR frá 2017 og þar til síðasta haust og mælti hann sjálfur með því að Þorvaldur yrði eftirmaður sinn í starfi. Hann er prófessor við Stokkhólmsháskóla og hefur meðal annars setið í Nóbelsnefndinni í hagfræði, verið ráðgjafi í sænska fjármálaráðuneytinu og veitt ríkisfjármálaráði Svíþjóðar formennsku á löngum ferli sínum.

Calmfors segir að pólitískar skoðanir eða stjórnmálaþátttaka fræðimanna eigi ekki að hafa áhrif á framgang þeirra í akademísk störf og segist hafa mótmælt þeirri afstöðu sem Ólafur Heiðar Helgason, sérfræðingur íslenska fjármála- og efnahagsráðuneytisins, setti fram í tölvupósti 11. nóvember síðastliðinn. 

Í póstinum sagði að Þorvaldur þætti of pólítískt virkur að mati ráðuneytisins til að viðeigandi væri að hann yrði næsti ritstjóri tímaritsins. Einnig var farið með rangfærslur um stjórnmálaþátttöku hans, eins og fjallað hefur verið um í Kjarnanum í vikunni.

Auglýsing

Sænski prófessorinn segir að aðrir í norræna stýrihópnum sem tekur ákvörðun um ráðningu ritstjóra NEPR, fulltrúar norrænna fjármálaráðuneyta, hafi einnig verið óánægðir með þá afstöðu íslenska ráðuneytisins að hafna Þorvaldi á grundvelli stjórnmálaþátttöku hans.

Hreinskiptar umræður á fundi eftir að afstaða Íslands varð ljós

Fundur var haldinn hjá stýrihópnum skömmu eftir að afstaða Íslands um að hafna Þorvaldi lá fyrir og segir Calmfors að þar hafi farið fram hreinskiptar umræður. 

„Ég gerði öllum ljóst að það var mjög rangt að gera þetta. Við getum ekki látið pólitískar röksemdir hafa áhrif, þetta er akademískt starf,“ segir prófessorinn og bætir við að á þessum fundi hafi fulltrúi frá íslenska ráðuneytinu játað munnlega að hafa farið með rangfærslur um Þorvald. 

Þessi umdeilda afstaða Íslands til Þorvalds setti norræna stýrihópinn í nokkurn vanda, enda er það hefð þar innanborðs að öll norrænu ríkin þurfi að komast að sameiginlegri niðurstöðu um ráðningu ritstjóra NEPR.

Þó að svo sé var starfsmaður Norrænu ráðherranefndarinnar búinn að bjóða Þorvaldi starfið og Þorvaldur búinn að samþykkja starfstilboðið. En afstaða Íslands varð þess valdandi að afturkalla þurfti ráðningu Þorvalds þann 13. nóvember. Þorvaldur leitar nú réttar síns, enda telur hann ráðninguna góða og gilda.

Kjarninn hafði í gær samband við Anders Hedberg, starfsmann Norrænu ráðherranefndarinnar sem gekk frá ráðningu Þorvalds og spurði af hverju Þorvaldi hefði verið gert starfstilboð fyrst ekki var komið samróma samþykki í norræna stýrihópnum. 

Hedberg svaraði því til að allar „fyrirspurnir og kröfur“ vegna málsins ættu að beinast til fjármálaráðuneytanna fimm sem hafa veg og vanda að útgáfu NEPR, enda bæru þau ábyrgð á ráðningunni. Haft var eftir sama manni í kvöldfréttum RÚV í gær að hann vissi ekki um nein önnur dæmi þess að fjármálaráðuneyti hefðu sett sig upp á móti ráðningu í ritstjórastarfið.

Vildu hvorki ráða Dana né Svía

Svo spólað sé aðeins til baka, þá var tímaritinu sem um ræðir komið á laggirnar árið 2009 undir hatti Norrænu ráðherranefndarinnar, en það á þó rætur sínar að rekja til sænsks tímarits sem hét Swedish Economic Policy Review, sem Calmfors sjálfur kom að því að stofna á tíunda áratug síðustu aldar.

Fyrstu árin voru ritstjórar NEPR ráðnir árlega til þess að hafa umsjón með efnistökunum, eftir því hver þau voru, en það skipulag gaf ekki sérlega góða raun, að sögn Calmfors. Því var ákveðið að byrja að ráða yfirritstjóra til þriggja ára í senn til þess að betri yfirsýn fengist yfir útgáfuna.

Fyrstur í röðinni var danskur hagfræðingur, Torben Andersen, sem starfar við Árósaháskóla. Hann var ráðinn var í starfið frá 2014 til 2017. Þá tók Calmfors sjálfur við og þegar leit hófst að eftirmanni hans síðasta haust var vilji til þess að reyna að láta ritstjórastöðuna ganga á milli landanna og hvorki ráða Svía né Dana í starfið að þessu sinni. Búið var að reyna að fá bæði finnska og norska fræðimenn í starfið, án árangurs, segir Calmfors. 

Þá var reynt að finna Íslending og stakk Calmfors upp á Þorvaldi, sem hann hafði haft kynni af, en Þorvaldur starfaði um langt árabil sem rannsóknafélagi við Stokkhólmsháskóla. Calmfors taldi hann hæfan til þess að taka ritstjórahlutverkið að sér og segist hafa mikið álit á honum sem fræðimanni. En afstaða íslenska ráðuneytisins til Þorvalds varð síðan ljós og á endanum varð niðurstaðan sú að áfram verður Svíi sem stýrir NEPR. 

Harry Flam hefur verið ráðinn sem yfirritstjóri til næstu þriggja ára, en sá starfar með Calmfors við Alþjóðahagfræðistofnun Stokkhólmsháskóla. Calmfors segir að nýi ritstjórinn hafi heyrt af afstöðu Íslands til ráðningu Þorvalds áður en honum sjálfum var boðið starfið.

„Ég held að hann hafi ekki verið ánægður með að heyra af því sem átti sér stað,“ segir Calmfors.

Vonar að svipað gæti ekki átt sér stað í Svíþjóð

Blaðamaður spyr hvort hann telji mögulegt að sænsk stjórnvöld myndu leggjast gegn ráðningu þarlends fræðimanns í þessa stöðu, eða svipaða, vegna pólitískra skoðana eða stjórnmálaþátttöku umrædds fræðimanns, eins og íslenska ráðuneytið gerði í tilfelli Þorvalds.

„Ég vona að það sé ómögulegt, en ég myndi þó ekki segja að ég væri 100 prósent viss,“ segir Calmfors. Hann bætir við að það flæki málin að Norræna ráðherranefndin sé þegar allt kemur til alls pólitísk eining, sem hafi umsjón með útgáfu fræðatímarits sem hafi það yfirlýsta markmið að birta rannsóknir sem geti nýst norrænu ríkjunum við opinbera stefnumótun.

„Það er mjög sérstakt, flest fræðirit eru gefin út með sjálfstæðari hætti,“ segir Calmfors.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Árvakur hf. gefur út Morgunblaðið, mbl.is og útvarpsstöðina K100.
Útgáfufélag Morgunblaðsins tapaði 75 milljónum þrátt fyrir 100 milljóna ríkisstyrk
Tap Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, minnkaði um 135 milljónir á milli ára. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins þakkar veigamiklum hagræðingaraðgerðum fyrir það að reksturinn hafi batnað þrátt fyrir veirufaraldurinn.
Kjarninn 26. júlí 2021
Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Bandaríkin ætla að halda ferðabanni gagnvart Evrópu til streitu enn um sinn
Íslendingar og aðrir Evrópubúar munu ekki geta sótt Bandaríkin heim alveg á næstunni án þess að hafa sérstakar undanþágur. Í ljósi útbreiðslu delta-afbrigðis kórónuveirunnar hefur Bandaríkjastjórn ákveðið að halda núverandi ferðatakmörkunum í gildi.
Kjarninn 26. júlí 2021
Eyþór Eðvarðsson
Fjórar spurningar um loftslagsmál sem kjósendur þurfa að fá svar við
Kjarninn 26. júlí 2021
Þrettán starfsmenn Landspítalans í einangrun
Um helgina komu upp smit hjá starfsmönnum í nokkrum starfseiningum Landspítala. Rakning er langt komin og þrettán starfsmenn eru komnir í einangrun og nokkur fjöldi starfsmanna og sjúklinga í sóttkví.
Kjarninn 26. júlí 2021
Benedikt Jóhannesson, einn stofnenda Viðreisnar, mun starfa áfram með flokknum.
Sættir hafa náðst hjá Viðreisn og Benedikt starfar áfram innan flokksins
Benedikt Jóhannesson fyrrverandi formaður Viðreisnar greinir frá því í dag að samkomulag hafi náðst um að hann starfi áfram með flokknum.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meirihluti þjóðarinnar er bólusettur og meirihluti þeirra sem eru að greinast með veiruna er bólusettur.
116 óbólusettir greinst á einni viku
Um 64 prósent þeirra sem eru með COVID-19 á landinu eru á aldrinum 18-39 ára. Flestir sem greinst hafa síðustu daga eru bólusettir en 116 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á einni viku.
Kjarninn 26. júlí 2021
Þórður Snær Júlíusson
Endalok tálmyndar um endurkomu hins eðlilega lífs
Kjarninn 26. júlí 2021
Himinn og haf skilja fátækari ríki heims og þau ríkari að þegar kemur að bólusetningum.
Þórólfur: Hægt að hafa margar skoðanir á siðferði bólusetninga
Að baki þeirri ákvörðun að gefa fólki bólusettu með Janssen örvunarskammt býr að sögn sóttvarnalæknis sú stefna að reyna að bólusetja sem flesta hér á landi með áhrifaríkum hætti. 1,32 prósent íbúa fátækustu ríkja heims hafa verið bólusett.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meira úr sama flokkiViðtal