Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokks og nefndarmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, lét bóka á fundi nefndarinnar í síðustu viku, nánar tiltekið 10. júní, að löngun Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata og þá formanns nefndarinnar, til að breyta henni í pólitískan rannsóknarrétt virtist vera mikil. „Markmiðið er að nýta trúnaðar- og valdastöðu til að koma höggi á pólitíska mótherja. Tilgangurinn helgar meðalið,“ sagði í bókun Óla Björns.
Tilefnið var það sem hann kallaði „ásakanir og dylgjur formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem komu fram í bókun á fundi 5. júní sl. og endurteknar efnislega í fjölmiðlum og þingsal í garð sex nefndarmanna“. Óli Björn sagði þær ásakanir alvarlegar og að ekki væri hægt að sitja undir þeim. „Brigsl um vanvirðingu gagnvart réttindum minnihluta, leyndarhyggju og lítilsvirðingu gagnvart hlutverki nefndarinnar sem veiki Alþingi, eru án innistæðu og tilefnislaus.“
Í bókun Þorhildar Sunnu frá 5. júní var fjallað um ákvörðun meirihluta nefndarinnar um að hætta frumkvæðisathugun á hæfi Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, vegna stöðu hans gagnvart Samherja. Þar sagði meðal annars: „Afstaða meiri hlutans ber merki um vanvirðingu fyrir réttindum og hlutverki minni hlutans á þingi, ýtir undir grunsemdir um samtryggingu og leyndarhyggju, lítilsvirðir sérstakt eftirlitshlutverk stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og er til þess fallin að veikja Alþingi og traust almennings á því. Minni hlutinn harmar þessa afstöðu.“
„Tilgangurinn helgar meðalið“
Í ræðunni sagði hún skýrasta dæmið vera hvernig hefði verið staðið í vegi fyrir því að frumkvæðisathugun fari fram á hæfi Kristjáns Þórs. „Með þessu er meirihlutinn að setja hættulegt fordæmi, veikja eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu.“
Hún sagði enn fremur að meirihlutinn persónugerði starf nefndarinnar til að ná markmiðum sínum. „Til þess að réttlæta þessa aðför sína kýs meirihluti nefndarinnar að draga persónu mína sífellt niður í svaðið og nota mig sem blóraböggul.“
Óli Björn sagði í sinni bókun að engin tilraun hefði verið gerð í desember 2019, þegar ákveðið var að hefja frumkvæðisathugunina, að koma í veg fyrir að hún færi fram. „Formaður telur sig hins vegar þess umkominn að ásaka undirritaðan og aðra nefndarmenn um að virða ekki rétt minnihluta. [...}Aldrei frá því að frumkvæðisathugun á hæfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hófst hefur meirihluti nefndarinnar lagt steina í götur minni hlutans eða staðið í vegi fyrir að gestir kæmu á fund eða upplýsinga aflað.“
Gögn sem nefndin hefði aflað og umsagnir gesta sem komið hefðu á fund nefndarinnar hefðu hins vegar ekki gefið tilefni til annars en að frumkvæðisathugun verði hætt. „Ekkert hefur komið fram um að framkvæmd eða verklag ráðherra hafi farið í bága við lög og reglur. Frumkvæðisathuguninni er því sjálfhætt. Löngun formanns nefndarinnar til að breyta nefndinni í pólitískan rannsóknarrétt virðist hins vegar mikil. Markmiðið er að nýta trúnaðar- og valdastöðu til að koma höggi á pólitíska mótherja. Tilgangurinn helgar meðalið.“
Í ræðu sinni í dag sagði Þórhildur Sunna að sú aðferðarfræði sem hún upplifði að beitt væri í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, og feli að hennar mati í sér að skjóta sendiboðann, sé „þaulreynd þöggunar- og kúgunartaktík. Ég mótmæli þessari aðför, mér misbýður þetta leikrit og ætla ekki að taka þátt í því lengur. Meirihlutinn verður að finna sér aðrar átyllur til þess til að réttlæta aðför sína að eftirlitshlutverki nefndarinnar og þingsins. Formennsku minni í þessari nefnd er hér með lokið.“