Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, hefur sagt af sér formennsku í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þetta tilkynnti hún við upphaf þingfundar í dag klukkan 15. Í ræðu sinni sagði hún að tilraunir minnihlutans í nefndinni til að sinna því eftirlitshlutverki sem hún á að sinna hafi orðið „meirihlutanum tilefni til valdníðslu og linnulausra árása.“
Skýrasta dæmið sé hvernig staðið hafi verið í vegi fyrir því að frumkvæðisathugun fari fram á hæfi Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, vegna stöðu hans gagnvart Samherja en meirihluti nefndarinnar, skipaður stjórnarþingmönnum og þingmanni Miðflokksins, lagði til að henni yrði hætt fyrir viku síðan. „Með þessu er meirihlutinn að setja hættulegt fordæmi, veikja eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu,“ sagði Þórhildur Sunna.
Hún sagði enn fremur að meirihlutinn persónugerði starf nefndarinnar til að ná markmiðum sínum. „Til þess að réttlæta þessa aðför sína kýs meirihluti nefndarinnar að draga persónu mína sífellt niður í svaðið og nota mig sem blóraböggul. Þessi aðferðarfræði; að skjóta sendiboðann, er þaulreynd þöggunar- og kúgunartaktík. Ég mótmæli þessari aðför, mér misbýður þetta leikrit og ætla ekki að taka þátt í því lengur. Meirihlutinn verður að finna sér aðrar átyllur til þess til að réttlæta aðför sína að eftirlitshlutverki nefndarinnar og þingsins. Formennsku minni í þessari nefnd er hér með lokið.“
Vitnaði í fræga ræðu bróður Þorvalds Gylfasonar
Þórhildur Sunna hóf ræðu sína í dag á því að vitna í fræga ræðu Vilmundar Gylfasonar, þáverandi þingmanns og formanns Bandalags jafnaðarmanna, um varðhunda valdsins. Ræða Vilmundar fjallar um aðferðir þeirra sem valdið hafa til að halda uppreisnarmönnum niðri og gagnrýni úti. Þórhildur Sunna sagði að fátt hefði breyst síðan að Vilmundur flutti sína ræðu.
Sá fundur var boðaður í kjölfar þess að Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að starfsmaður fjármála- og efnahagsráðuneytisins hefði komið þeim boðum til kollega sinna í norrænum fjármálaráðuneytum og til Norrænu ráðherranefndarinnar að ráðuneytið gæti ekki stutt að Þorvaldur Gylfason, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, yrði ráðinn sem ritstjóri norræna fræðatímaritsins Nordic Economic Policy Review. Þorvaldur er bróðir Vilmundar, sem lést árið 1983. Hægt er að hlusta á ræðu Vilmundar hér að neðan.