Dómnefnd um hæfni umsækjenda um embætti dómara hefur skilað umsögn sinni um umsækjendur um skipun í embætti dómara við Landsrétt sem auglýst var laust til umsóknar 17. apríl 2020. Alls sóttu fimm um starfið og niðurstaðan var sú að Arnfríður Einarsdóttir væri hæfust til að hljóta skipun í embætti dómara við Landsrétt. Arnfríður er þegar Landsréttardómari en hefur ekki mátt dæma við réttinn frá því í mars í fyrra, eftir niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu svokallaða. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra fjallaði um skipun nýs Landsréttardómara og lausn slíks frá störfum á ríkisstjórnarfundi í morgun. Því eru allar líkur á því að Arnfríður verði skipuð í dag.
Hún yrði þá annar þeirra fjögurra dómara við réttinn sem það gildir upp sem hafa sótt um lausar stöður og verið skipaðir í þær. Hinn er Ásmundur Helgason sem var skipaður í mars síðastliðnum, og óskaði samhliða eftir lausn úr embætti.
Aðrir umsækjendur nú voru Ástráður Haraldsson, héraðsdómari, Helgi Sigurðsson héraðsdómari, Ragnheiður Bragadóttir, dómari við Landsrétt og Ragnheiður Snorradóttir, héraðsdómari.
Dómnefndina nú skipuðu Eiríkur Tómasson, formaður, Halldór Halldórsson, Kristín Benediktsdóttir, Óskar Sigurðsson og Sigríður Þorgeirsdóttir. Í umsögn hennar segir að það sé niðurstaða dómnefndar að Arnfríður hafi mesta reynslu þeirra sem sóttu um af dómstörfum, mikla reynslu af stjórnsýslustörfum og verulega reynslu af stjórnun. Auk þess hafi hún lokið háskólanámi í opinberri stjórnsýslu og stjórnun og sinnt öðrum störfum sem nýtast dómara við Landsrétt. „Síðast en ekki síst hefur Arnfríður sýnt í störfum sínum sem dómari að hún hefur gott vald jafnt á einkamála- og sem sakamálaréttarfari og á auðvelt með að leysta úr flóknum lögfræðilegum ágreiningsefnum á greinargóðan og rökstuddan hátt.
Afleiðing af Landsdómsmálinu
Arnfríður var á meðal þeirra fjögurra einstaklinga sem voru ekki metin á meðal 15 hæfustu í hæfnismati dómnefndar þegar dómarar voru upphaflega skipaðir í Landsrétt í aðdraganda stofnunar hans, en voru samt sem áður skipuð í embætti við réttinn. Það gerðist eftir að Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, ákvað að víkja frá hæfnismati dómnefndar og tilnefna fjóra einstaklinga dómara sem nefndin hafði ekki metið á meðal 15 hæfustu og þar af leiðandi að skipa ekki fjóra aðra sem nefndin hafði talið á meðal þeirra hæfustu. Alþingi samþykkti þetta í byrjun júní 2017.
Í kjölfarið hafa íslenskir dómstólar úrskurðað að Sigríður hafi brotið stjórnsýslulög með atferli sínu. Auk þess komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu í málinu í mars í fyrra að dómararnir fjórir sem voru færðir upp á lista Sigríðar væru ólöglega skipaðir, og geti þar með ekki fellt dóma yfir þeim sem fyrir þá koma, enda hafi þeir ekki hlotið réttláta málsmeðferð. Í kjölfar þess að dómur Mannréttindadómstólsins féll þá sagði Sigríður af sér embætti dómsmálaráðherra.
Í greinargerð sinni fyrir Mannréttindadómstólnum hélt Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður þess sem kærði málið þangað, því meðal annars fram að þáverandi dómsmálaráðherra hefði handvalið umsækjendur á þann lista sem hún lagði fyrir Alþingi til samþykktar. Það hafi hún gert á grundvelli vináttu og pólitískra tengsla. Í málatilbúnaði Vilhjálms var því haldið fram að Arnfríður, sem er eiginkona Brynjars Níelssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins, hafi verið skipuð sem hluti af hrossakaupum innan Sjálfstæðisflokksins þar sem Brynjar gaf í staðinn eftir oddvitasæti sitt í öðru Reykjavíkurkjördæminu í síðustu kosningum til Sigríðar Á. Andersen. Þessu hafa bæði Brynjar og Sigríður hafnað með öllu.