Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir að niðursveiflan í efnahagslífinu hafi þegar verið hafin fyrir COVID-19 faraldurinn og segir hún að ríkissjóður hafi verið orðinn ósjálfbær fyrir veiruna. Hún telur enn fremur að ríkisstjórnin hafi ekki verið reiðubúin þegar áfallið skall á.
Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali Kjarnans við Þorgerði Katrínu sem birtist um síðustu helgi.
„Það kom mér á óvart að þau skildu ekki vera tilbúin í ljósi þess að niðursveiflan var hafin. Þau máttu gera sér grein fyrir því. Við í Viðreisn bentum líka á að ríkisstjórnin væri að eyða um efni fram. Hagvöxturinn var ekki í samræmi við útgjaldaþenslu ríkissjóðs og við erum ekki lengur með þrotabú föllnu bankanna sem borga allt. Það var stóri lottóvinningurinn eftir að við fengum og gátum greitt svona hratt niður ríkisskuldir. Af því að þar komu þessar risagreiðslur inn til okkar, í gegnum þrotabúin,“ segir hún.
Þorgerður Katrín segir þetta jafnframt vera ótrúlega áhugaverða tíma sem við lifum nú. „Það er spennandi að vera í pólitík núna – og ég spái því ekki síst í haust að þá muni hugmyndafræðilegar pólitískar línur skerpast.
Ég held að þegar fram líður á árið þá munum við sem elskum stjórnmál og höfum áhuga á þeim sjá hversu áhugaverðir tímar séu framundan. Og það er mjög stutt í ákveðna kontrasta í samfélaginu sem við megum ekki hunsa eða líta fram hjá. Því þeir munu líka vera vegvísar inn í framtíðina – það er hvernig framtíð við ætlum að skapa og móta eftir veiruna.“