Alma Möller
landlæknir segir að yfirvofandi verkfall hjúkrunarfræðinga sé mikið áhyggjuefni
enda sé stéttir lykilstoð í heilbrigðiskerfinu. Hún minnir á að
hjúkrunarfræðingar séu í sýnatöku á landamærum og í smitrakningu. Ef af
verkfalli verði í næstu viku sé ljóst að mikil röskun verði á starfseminni.
„Það er gríðarlega mikilvægt að aðilar keppist við og nái saman fyrir
mánudaginn,“ sagði Alma á upplýsingafundi almannavarna í dag. „Ef ekki [næst
saman] þá þurfum við að reiða okkur á undanþágur.“
Sagðist hún vona að í þær beiðnir verði vel tekið.
Ótímabundið verkfall félagsmanna í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga mun að óbreyttu hefjast klukkan 8 að morgni mánudagsins 22. júní og vara fram til þess tíma er samkomulag um kjarasamning hefur náðst milli aðila.Á upplýsingafundi almannavarna í dag kom einnig fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis að frá því að komufarþegum fór að bjóðast skimun við landamæri Íslands 15. júní hafa tæplega 3.000 ferðamenn komið til landsins og um 2.400 sýni verið tekin. Sex hafa greinst með veiruna og tveir af þeim taldir smitandi og því í einangrun.