Enn hafa engin brúarlán verið veitt til fyrirtækja sem hafa orðið fyrir rekstrarvanda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Þetta kemur fram í svörum bankanna fjögurra sem veita slík lán við fyrirspurn Kjarnans.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið fól Seðlabanka Íslands að annast framkvæmd á ábyrgðum ríkissjóðs. Þann 12. maí tilkynnti Seðlabankinn að hann væri búinn að undirrita samninga við Arion banka, Íslandsbanka, Kviku og Landsbankann um veitingu viðbótarlána til fyrirtækja, svokallaðra brúarlána.
Í samningum Seðlabankans við bankana er tilgreind heildarábyrgð ríkissjóðs gagnvart hverjum banka fyrir sig vegna úrræðisins. Þannig nemur heildarábyrgð ríkissjóðs gagnvart Landsbankanum 20 milljörðum króna, 16 milljörðum gagnvart Íslandsbanka, 10 milljörðum gagnvart Arion banka og 630 milljónum gagnvart Kviku.
Á vef stjórnarráðsins segir að brúarlánin séu einkum ætluð smáum og meðalstórum fyrirtækjum sem orðið hafa fyrir tímabundnum rekstrarvanda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Ríkissjóður gengst í ábyrgð fyrir allt að 70 prósent af fjárhæð lánanna sem fyrirtæki geta fengið. Heildarábyrgð ríkissjóðs getur numið allt að 50 milljörðum vegna brúarlána.
Nokkur skilyrði eru sett fyrir veitingu lánanna. Fyrirtæki sem tekur slíkt lán má til að mynda ekki greiða arð eða kaupa eigin bréf á meðan ríkisábyrgðar nýtur við. Lán sem nýtur ábyrgðar getur hæst numið 1,2 milljörðum króna.
Þá er gerð sú krafa að tekjutap fyrirtækis sé ófyrirséð og megi rekja beint eða óbeint til heimsfaraldurs kórónuveiru eða ráðstafana sem faraldrinum tengjast. Tekjutapið þarf að nema að lágmarki 40 prósent. Lánveitingin takmarkast auk þess við fyrirtæki þar sem launakostnaður var að minnsta kosti 25 prósent af útgjöldum síðasta árs.