Logi Einarsson, formaður Samfylkingar, spurði Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra við upphaf þingfundar hvort ekki væri kominn tími til að höggva á hnútinn í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga við ríkið og gefa samninganefnd ríkisins aukinn sveigjanleika til að semja. Það stefnir í verkfall hjúkrunarfræðinga á mánudag.
Logi sagði að mest athygli hefði verið á áhrifum verkfalls á sýnatökur ferðamanna við landamæri en minna á áhrif á þjónustu á öldrunarheimilum, í heimahjúkrun og heilsugæslu. Nýafstaðinn faraldur hefði sýnt fram á mikilvægi stéttarinnar. „Það eru nefnilega ekki bara flugfélög og bankar sem eru kerfislega mikilvægir hæstvirtur ráðherra,“ bætti hann við.
Logi var harðorður í óundirbúinni fyrirspurn sinni til Bjarna og sagði meðal annars: „Ef upp kemur kemur alvarleg staða í heilbrigðiskerfinu 22. júní verður hún að þessu sinni ekki af völdum framandi veiru heldur vegna ríkisstjórnar sem hefur ekki nægan vilja til að semja.“
Spyr hvort Logi skilji heildarsamhengi samninganna
Í svari sínu sagði Bjarni að ríkið hefði átt af fullri alvöru í viðræðum um nýja kjarasamninga við hjúkrunarfræðinga. Ríkið hefði mætt öllum helstu kröfum þeirra ef frá væri talinn launaliðurinn, enn ættu samningsaðilar eftir að ná saman þar. Þá spurði Bjarni hvort að Logi teldi að ríkið ætti bara að fallast á allar kröfur í kjarasamningsdeilum.
Í kjölfarið bar Bjarni upp nokkrar spurningar. „Skilur háttvirtur þingmaður ekki heildarsamhengi kjarasamninga hins opinbera? Loforði gagnvart lifskjarasamningum? Að menn geti ekki sprengt forsendur allra annarra samninga? Veit háttvirtur þingmaður ekki að við höfum náð niðurstöðu við 80 prósent viðsemjenda okkar?“
Logi spurði að lokum eftir að hafa tekið til máls síðara sinni hvort að til greina komi að setja lög á hjúkrunarfræðinga ef ekki náist að semja.
Bjarni segir málflutninginn dapurlegan
Í svari sínu sagði Bjarni málflutninginn dapurlegan. „Ég verð að segja mér þykir orðið mjög dapurlegt hvernig menn vilja reyna að ná pólitísku höggi á stjórnvöld hverju sinni með því að taka alltaf upp einhliða málstað þess sem er að semja við ríkið. Þetta er orðin lenska hér í umræðu um kjaramál á þinginu. Og er auðvitað fullkomlega óábyrgur málflutningur hér á ferðinni hjá formanni samfylkingarinnar. Sem hefur í raun og veru ekkert annað fram að færa en að það eigi að fallast á allar kröfur hjúkrunarfræðinga svo að samningar geti tekist.“