Félag prófessora við Háskólann í Reykjavík og Rannsóknarráð Háskólans í Reykjavík taka undir með yfirlýsingu prófessora við ríkisháskóla vegna ráðningar ritstjóra fræðitímaritsins Nordic Economic Policy Review, en þetta kemur fram sameiginlegri yfirlýsingu frá félaginu og rannsóknarráðinu í dag.
Stjórn Félags prófessora við ríkisháskóla (FPR) fundaði um mál Þorvaldar Gylfasonar á þriðjudaginn og sendi í kjölfarið frá sér yfirlýsingu þar sem pólitískum afskiptum íslenska fjármálaráðuneytisins af ráðningarmálum tímaritsins var mótmælt harðlega.
„Þessi afskipti skortir málefnalegan grundvöll og afhjúpa skilningleysi á vísindastarfsemi. Þau setja hið norræna tímarit niður og eru ráðuneytinu til álitshnekkis. Íslenskt samfélag þarf síst á því að halda að stjórnvöld leggi stein í götu vísindamanna sem falast er eftir til starfa í krafti þekkingar sinnar,“ sagði meðal annars í yfirlýsingu FPR, sem prófessorar við HR og rannsóknaráð háskólans hafa nú tekið undir.
Ráðherra segir yfirlýsinguna ekki hafa neitt vægi
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra ræddi um yfirlýsingu prófessorafélagsins á Alþingi í dag og sagði hann félagið hafa fallið á prófinu með yfirlýsingu sinni, sem hefur að hans mati ekkert vægi.
Hann sagði FPR ekki hafa tekið tillit til ólíkra sjónarmiða, ekki getið heimilda, byggt á einhliða frásögn af málinu og komist að niðurstöðu algjörlega án þess að ígrunda allar hliðar málsins.