Jökull H. Úlfsson, framkvæmdastjóri Stefnis, hefur óskað eftir að láta af störfum. Stjórn Stefnis, sem er stærsta sjóðstýringarfyrirtæki landsins og í eigu Arion banka, hefur komist að samkomulagi við Jökul um starfslok.
Kristbjörg M. Kristinsdóttir, staðgengill framkvæmdastjóra Stefnis, mun taka tímabundið við starfi framkvæmdastjóra eða þar til stjórn hefur ráðið í stöðuna. Jökull mun ljúka tilteknum verkefnum fyrir Stefni og vera stjórn og settum framkvæmdastjóra til ráðgjafar, að því er kemur fram í tilkynningu.
Þar er haft eftir Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur, stjórnarformanni Stefnis, að Jökli sé þakkað fyrir samstarfið sem hafi verið „ánægjulegt og árangursríkt eins og starfsemi Stefnis á árinu 2019 ber vitni. Stjórn óskar Jökli alls hins besta í framtíðinni.“
Einungis eru rúmir fjórtán mánuði frá því að Jökull tók við framkvæmdastjórastarfinu hjá Stefni af Flóka Halldórssyni, sem hafði stýrt félaginu um árabil. Flóki settist í kjölfarið í stjórn Stefnis.
Stefnir var með um 250 milljarða króna í virkri sjóðastýringu í lok árs 2019. Hjá Stefni starfa um 20 sérfræðingar í fjórum teymum við stýringu á fjölbreyttu úrvali verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóða. Einnig stýrir félagið eignum nokkurra samlagshlutafélaga sem stofnuð hafa verið í kringum framtaksfjárfestingar.