Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis telur ekki rétt að fella brott heimild Samkeppniseftirlitsins til íhlutunar án brots og segir almannahagsmuni standa til þess að Samkeppniseftirlitið geti brugðist við ef samkeppnishindranir séu á markaði án þess að brotið sé gegn lögum. Þó telur meirihlutinn að skýra þurfi framkvæmd íhlutunarinnar frekar.
Meirihluti nefndarinnar leggur til töluverðar breytingar á samkeppnislagafrumvarpi Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur ráðherra samkeppnismála, sem bíður þess nú að vera tekið til annarrar umræðu á Alþingi.
Í nefndarálitinu er því einnig beint til ráðherra að kanna hvort fýsilegt sé að setja á fót sérstakan dómstól, sem leyst gæti af hólmi ýmsar áfrýjunar- og úrskurðarnefndir á sviði viðskipta- og neytendamála.
„Meðal þeirra stjórnsýslunefnda sem til greina kæmi að slíkur dómstóll leysti af hólmi eru áfrýjunarnefnd samkeppnismála, áfrýjunarnefnd neytendamála, kærunefnd útboðsmála, áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda, úrskurðarnefnd raforkumála og úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála,“ segir í nefndaráliti meirihlutans, sem segir að könnun á því hvort þetta væri fýsilegt þyrfti að vinna þvert á ráðuneyti.
Frumvarp sem hefur verið kallað „prófsteinn á íslenska stjórnmálakerfið“
Áform ráðherra um að fella á brott heimild Samkeppniseftirlitsins til íhlutunar án brots höfðu verið talsvert mikið gagnrýnd, til dæmis af Samkeppniseftirlitinu sjálfu, sem sagði að tilvist þessarar heimildar hefði mikla þýðingu.
Gylfi Magnússon, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, sagði í ítarlegri aðsendri grein í Kjarnanum, sem hann lagði einnig fram sem umsögn við málið, að um óheillaskref væri að ræða. Hann hafði raunar miklar athugasemdir við frumvarpið í heild sinni. Það höfðu Neytendasamtökin og Alþýðusamband Íslands einnig, auk annarra.
„Það verður áhugavert að fylgjast með afdrifum frumvarpsins á Alþingi. Í raun má líta á það sem prófstein á íslenska stjórnmálakerfið. Verður látið undan háværum kröfum stórfyrirtækja og samtaka þeirra um að veikja íslenskt samkeppniseftirlit eða fær almenningur að njóta þeirrar verndar sem hann hefur notið til þessa?“ skrifaði Gylfi Magnússon.
Viðskiptaráð Íslands og Samtök atvinnulífsins voru á þeirri skoðun að það væri heillavænlegt skref að afnema heimild Samkeppniseftirlitsins til íhlutunar án brots og skömmu áður en efnahags- og viðskiptanefnd kláraði yfirferð sína á málinu færðu þau rök fyrir því að það væri mikilvægt að heimildin félli á brott.
Hagsmunasamtökin sendu sameiginlegt minnisblað sitt inn sem svar við fyrra minnisblaði Samkeppniseftirlitsins, þar sem eftirlitsstofnunin vakti athygli á því að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins væri með til skoðunar að taka upp íhlutunarheimild af svipuðu tagi og þá sem lagt væri til að fella brott með frumvarpinu.
Ljóst er að nefndarmönnum í efnahags- og viðskiptanefnd hefur þótt það ganga of langt að afnema heimildina með öllu.
„Fram hjá því verður ekki litið að fákeppni og þegjandi samráð er líklegri á litlum mörkuðum eins og hér á landi en á stærri mörkuðum þar sem leikendur eru fjölmargir. Þá geta alvarlegar viðskiptahindranir falist í takmörkuðu aðgengi að nauðsynlegum innviðum og þar með dregið úr samkeppni á markaði. Meiri hlutinn bendir einnig á að lítil fyrirtæki á samkeppnismarkaði veita stórum og rótgrónum fyrirtækjum mikilvægt aðhald. Meiri hlutinn telur að hagsmunir minni fyrirtækja séu betur tryggðir með því að halda heimild Samkeppniseftirlitsins til íhlutunar án brots inni í lögum,“ segir í nefndarálitinu.
Aukin skilyrði fyrir því hvernig Samkeppniseftirlitið geti beitt heimildinni
Nefndarmenn segja þó einnig að marka þurfi beitingu heimildarinnar skýrari ramma í lögum, því ljóst sé að beiting hennar geti verið verið afar íþyngjandi, einkum ef hún felist í breytingum á skipulagi þess aðila sem í hlut á. Því tengt þurfi að skilgreina hugtakið markaðsrannsókn sérstaklega í lögunum, á þann hátt að átt sé við rannsókn Samkeppniseftirlitsins á samkeppnisumhverfi á tilteknum markaði til að meta hvort aðstæður eða háttsemi opinberra aðila eða einkaaðila komi í veg fyrir, takmarki eða hafi skaðleg áhrif á samkeppni, almenningi til tjóns.
Einungis að undangenginni slíkri markaðsrannsókn, sem sýni fram á skaðleg áhrif á samkeppni, megi leiða líkur að því að íhlutun samkeppnisyfirvalda sé réttlætanleg, segir meirihluti nefndarinnar, og í kjölfarið þurfi Samkeppniseftirlitið að gæta meðalhófs og nota vægasta úrræðið til að ná því markmiði sem að er stefnt.
Meirihluti nefndarinnar leggur einnig til að ákvæði verði bætt við samkeppnislögin þess efnis að markaðsrannsóknir þurfi að grundvallast á rannsóknaráætlun, sem staðfest hafi verið af stjórn Samkeppniseftirlitsins.
„Stjórn ber þannig m.a. að meta hvort áætlun Samkeppniseftirlitsins um rannsókn sé þannig úr garði gerð að meðalhófs sé gætt og að rannsóknin sé líkleg til að skila þeim árangri sem að er stefnt. Jafnframt skuli haft samráð um rannsóknaráætlunina sem að lágmarki skuli snúa að aðilum málsins sem þar fái sanngjarnt tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Gera má ráð fyrir að rannsóknaráætlun birtist jafnan opinberlega í opnu samráðsferli nema sérstakar ástæður séu til annar,“ segir í nefndarálitinu.
Meirihluti nefndarinnar segir þessu ætlað að skapa meiri fyrirsjáanleika um beitingu heimildarinnar, leggja skýrari grundvöll að hlutlægum og vönduðum undirbúningi og marka þannig framkvæmd hennar skýrari farveg en verið hafi í lögum hingað til.
Nýr dómstóll á sviði viðskipta- og neytendamála?
Eins og fram kom hér að ofan leggur meirihluti nefndarinnar einnig til við ráðherra að gerð verði fýsileikakönnun á því að setja á fót nýjan dómstól til þess að leysa af hólmi ýmsar áfrýjunar- og úrskurðarnefndir á sviði viðskipta- og neytendamála, þar á meðal áfrýjunarnefnd samkeppnismála.
Frá árinu 2011 hefur Samkeppniseftirlitið lögum samkvæmt haft heimild til þess að höfða dómsmál til ógildingar á úrskurðum áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Síðan þá hefur stofnunin höfðað þrjú slík mál, en nefndarmenn benda á að málskotsheimildin sé ekki í samræmi við þá meginreglu að úrlausn æðra setts stjórnvalds sé bindandi fyrir lægra sett stjórnvald og endanleg á stjórnsýslustigi.
Nefndarmenn benda á að síðan árið 2011 hafi bæst við heilt nýtt dómstig í landinu og því sé staðan nú þannig að samkeppnismál gætu verið til umfjöllunar á tveimur stjórnsýslustigum, hjá eftirlitinu sjálfu og áfrýjunarnefndinni og svo dómstigunum þremur, sem sé löng málsmeðferð.
„Með stofnun sérhæfðs dómstóls um framangreind málefni yrði annars vegar stuðlað að vandaðri og skjótri málsmeðferð og hins vegar að því að tryggja sem best að til staðar verði sú sérhæfing og þekking sem nauðsynleg er á sífellt flóknari réttarsviðum viðskiptalífsins. Takist vel til stuðlar hvort tveggja að auknu réttaröryggi,“ segir meirihluti nefndarinnar.
Samkeppnislagafrumvarpið er eitt af þónokkrum málum sem ríkisstjórnin ætlar sér að reyna að klára fyrir þinglok, en sem kunnugt er hefur dagskrá Alþingis verið hálfpartinn strand frá því fyrir helgi, þar sem þingmenn Miðflokksins hafa rætt án afláts við hvorn annan um samgönguáætlun.