„Það bjó ekkert annað að baki þeirri skimun sem ÍE framkvæmdi eftir SARS-CoV-2 í Íslendingum en löngun til þess að taka þátt í að hemja faraldurinn. Það sama á við um skimunina eftir mótefnum gegn veirunni. ÍE og eigandi hennar Amgen hafa aldrei haft uppi áætlanir um að búa til úr þessari vinnu söluvöru til þess hafa af fjárhagslegan ávinning.“
Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í stöðuuppfærslu sem hann ritar á Facebook í dag. Þar segir Kári að þegar hann hafi haft samband við stjórnendur bandaríska lyfjafyrirtækisins Amgen, sem á Íslenska erfðagreiningu, og sagt þeim að hann vildi hefja skimun fyrir veirunni sem veldur COVID-19 sjúkdómnum á Íslandi þá hafi þeir svarað: „Í guðanna bænum gerðu það og bjóddu stjórnvöldum alla þá hjálp sem þú getur veitt.“
Til áréttingar því sem að baki býr Kári Stefánsson Vegna umræðna jafnt í prentmiðlum sem á ljósvökum sé ég mig...
Posted by Kari Stefansson on Saturday, June 20, 2020
Í færslunni segir Kári að faraldurinn hafi laðað fram það besta í fólki eins og þeim harðsvíruðu kapítalistum sem stjórna lyfjaiðnaðinum. „Stærstu lyfjafyrirtæki heims hafa heitið því að gera sitt besta til þess að búa til eins fljótt og hægt er bóluefni gegn veirunni og lyf til þess að lækna COVID-19 og dreifa þessu um allan heim án þess að græða á því fé. Þetta er einstakt og fallegt og svona á heimurinn að vera.“
Senda reikning fyrir efnis- og launakostnaði
Kjarninn greindi frá því 29. maí síðastliðinn að Íslensk erfðagreining hefði ekki fengið greitt frá íslenska ríkinu vegna skimunar fyrir kórónuveiru, en það staðfesti heilbrigðisráðuneytið í svari við fyrirspurn Kjarnans.
Áætlaður kostnaður Íslenskrar erfðagreiningar vegna skimunarinnar hefur verið um 1,2 milljarðar króna á mánuði. Uppsafnaður kostnaður frá því að skimun fyrirtækisins hófst 13. mars og út maímánuði er því áætlaður um þrír milljarðar króna.
Auk þess hefur Íslensk erfðagreining aðkomu að skimunum fyrir COVID-19 á landamærastöðvum, nú þegar opnað hefur verið fyrir auknu flæði farþega inn til landsins. Kjarninn greindi frá því í gær að stjórnvöld hefðu ekki gert nýjan skriflegan samning við Íslenska erfðagreiningu vegna aðkomu fyrirtækisins að þeim skimunum, heldur fer útfærsla á skimunum fram samkvæmt munnlegu samkomulagi Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis við fyrirtækið og fyrri skriflegum samningum sem höfðu verið gerðir um aðkomu ÍE að skimunum fyrir COVID-19 hér innanlands.
„Gert er ráð fyrir því að ÍE muni senda reikning fyrir efniskostnaði og launakostnaði,“ segir í svari sóttvarnalæknis við fyrirspurn Kjarnans, þar sem óskað var eftir skriflegum samningi að aðkomu Íslenskrar erfðagreiningar að skimunum ferðafólks, ef slíkur hefði verið gerður, eða öllum upplýsingum sem framreiðanlegar væru um munnlegt samkomulag sem hefði verið gert um sama efni.
Kári hafði áður sagt að hann reiknaði með því að sá kostnaður sem fyrirtækið tæki á sig vegna aðkomu sinnar að landamæraskimunum yrði greiddur af ríkinu. Fyrirtækið sér um að skima þau sýni sem tekin eru á Keflavíkurflugvelli, sem hafa verið hátt í þúsund á dag undanfarna daga.
Leita að veiru og eyða svo sýnum
Sóttvarnalæknir sagði í svari sínu við fyrirspurn Kjarnans að aðkoma Íslenskrar erfðagreiningar að greiningum á sýnum byggi á vinnslusamningi sóttvarnalæknis við Landspítalann frá árinu 2015 annars vegar og hins vegar á vinnslusamningi fyrirtækisins við við sýkla- og veirufræðideild Landspítalans frá 12. mars síðastliðnum.
Hann bætir við að þessir vinnslusamningar byggi á sóttvarnalögum, persónuverndarlögum og reglum Persónuverndar um öryggi persónuupplýsinga. Þá sé kveðið á um það í reglugerð heilbrigðisráðherra að einungis megi rannsaka sýni sem aflað er með skimun á landamærastöðvum með tilliti til kórónuveirunnar og þeim skuli eytt að því búnu.
Íslenskri erfðagreiningu ekki veitt neitt sérleyfi
Í svarinu sagði einnig að stjórnvöld hafi ekki heitið Íslenskri erfðagreiningu neinum sérkjörum, sérleyfi eða sérstökum aðgangi að gögnum sem safnast við skimunina, heldur séu gögnin á forræði sóttvarnalæknis samkvæmt sóttvarnalögum og öllum aðgengileg til rannsókna, samkvæmt verklagsreglum embættis landlæknis.
Íslensk erfðagreining hafi þó samhliða vinnu við skimanir fyrir COVID-19 ákveðið að stunda rannsóknarvinnu á sjúkdómnum og hefði sótt um tilskilin leyfi til þar til bærra aðila vegna þeirra vinnu.
Fyrirspurnin sem Kjarninn kom til sóttvarnalæknis var samhljóða fyrirspurn Hauks Más Helgasonar blaðamanns og rithöfunds, sem hann sendi á forsætisráðuneytið 8. júní, og sneri að aðkomu Íslenskrar erfðagreiningar að framkvæmd landamæraskimana.