Síðastliðna viku hafa rúmlega 7.000 farþegar komið til landsins og sýni verið tekin úr um 5.500 þeirra. Ellefu hafa greinst með veiruna og þar af hafa virk smit reynst tvö. Í þeim tilfellum hefur fólk þurft að fara í einangrun en aðrir voru með gamalt smit. Langflestir þeirra sem komu hingað til lands síðustu sjö daga komu með farþegaflugi til Keflavíkurflugvallar en 350 einstaklingar komu með einkaflugi.
Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Rúmlega tuttugu einstaklingar hafa þurft að fara í sóttkví vegna þessara sýkinga sem greinst hafa. Það er m.a. fólk sem sat í nálægð hinna sýktu á leið til landsins. En nú verður breyting þar á þar sem verið er að taka í notkun nýjar skilgreiningar á hættu í flugi. Öllum er nú gert að vera með grímur í flugi og einnig hefur verið gripið til annarra sóttvarnaráðstafana í samræmi við alþjóðlegar leiðbeiningar. „Þá mun þörfin á sóttkví fyrir farþega í flugi [þó að smit greinist] vera miklu minni en áður.“
Þórólfur tók svo sérstaklega fram að „ekkert COVID-smit hefur verið staðfest í flugi til þessa“ þó að upp hafi komið grunur um nokkur slík á alþjóðlega vísu.
Hann telur óhætt að segja að hlutfall smita meðal komufarþega sé mjög lágt. „Við teljum að með núverandi fyrirkomulagi þá munum við fá mjög verðmætar upplýsingar með skimuninni og getum hagað henni í samræmi við það í framhaldinu.“
Átti hann þar við að í lok þessarar viku yrði tekin saman tölfræði á smithættu frá ferðamönnum. Niðurstöður skimunarinnar muni m.a. nýtast til þess að sjá hvaðan smitað fólk er að koma og í framhaldinu kann að fara svo að hætt verði að skima flug frá ákveðnum löndum.
Í gær greindust fleiri smit á einum degi á heimsvísu en nokkru sinni fyrr. Þann 1. júlí stendur svo til að opna innri landamæri Schengen. Öllu þessu þarf að fylgjast vel með. „Maður er smeykur við Bandaríkin,“ sagði Þórólfur um þau lönd þar sem áhættan gæti verið hvað mest. „Veiran virðist vera í töluverðum vexti þar.“ Benti hann einnig á Brasilíu, Indland og Rússland. Hins vegar ítrekaði hans, eins og oft áður, að taka verði tölfræði einstakra ríkja með fyrirvara. „Það er erfitt að treysta mörgum niðurstöðum.“
Á morgun kemur Norræna til Seyðisfjarðar. Enn er ekki komið upp endanlegt skipulag við sýnatöku farþega hennar en á morgun verður það leyst í samstarfi margra aðila. Starfsmenn Íslenskrar erfðagreiningar munu fljúga með þyrlu Landhelgisgæslunnar austur þar sem sýni verða tekin í samvinnu við heilbrigðisstarfsfólk á svæðinu. Síðan verður flogið með sýnin til baka til greiningar sunnan heiða.