Vladimír Pútín Rússlandsforseti gefur nú sterklega í skyn að hann hyggist bjóða sig aftur fram sem forseta, að því gefnu að stjórnarskrárbreytingar sem eru í burðarliðnum í Rússlandi verði samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslu sem lýkur 1. júlí.
Stjórnarskrárbreytingarnar myndu opna á þann möguleika að Pútín, sem verður í embætti til ársins 2024, gæti gefið kost á sér á ný og jafnvel setið á valdastóli til ársins 2036. Þær fela nefnilega meðal annars í sér „núllstillingu“ á fjölda kjörtímabila sem forsetinn hefur setið.
Í viðtali sem Pútín veitti rússneskum ríkisfjölmiðli og sýnt var í gær sagði forsetinn að hann hefði „ekki útilokað“ að bjóða sig fram á ný, færi svo að kjósendur samþykktu stjórnarskrárbreytingarnar. Hann bætti því við að ef þær yrðu ekki samþykktar yrði sennilega uppi fótur og fit í rússnesku stjórnkerfi, þar sem allir á æðstu stöðum myndu fara að huga að því hver ætti að taka við af honum sem forseti, í stað þess að geta einbeitt sér að því að vinna Rússlandi til heilla.
„Við þurfum að láta verkin tala, en ekki leita að arftökum,“ sagði Pútín í viðtalinu, sem hefur vakið nokkra athygli, enda hefur Pútín til þessa talað með þeim hætti að hann hyggi ekki á að framlengja valdatíð sína, þó mörgum hafi grunað að svo væri. Sjá má í myndskeiðinu hér að neðan hvað Steve Rosenberg, fréttaritari BBC í Moskvu, fann á síðum rússneskra blaða um þessi ummæli Pútíns í dag.
“We need to get on with work, not look for [my] successors.” My take on Putin’s big interview to Russian TV, and how today’s Russian papers are covering it. #ReadingRussia @BBCNews @BBCWorld pic.twitter.com/meSrLmXyEU
— Steve Rosenberg (@BBCSteveR) June 22, 2020
Þjóðaratkvæðagreiðslan um stjórnarskrárbreytingarnar hefst 25. júní og lýkur 1. júlí, sem áður segir. Samkvæmt frétt Reuters er búist við því að breytingarnar verði samþykktar af almenningi í atkvæðagreiðslunni.
Pútín er orðinn 67 ára gamall og tók við af Boris Jeltsín sem forseti á gamlársdag árið 1999. Síðan þá hefur hann verið alltumlykjandi í rússneskum stjórnmálum og flakkað á milli embættis forseta og forsætisráðherra.
Einungis 59 prósent nú ánægð með Pútín
Hann hefur þó sjaldan notið jafnlítillar hylli á meðal almennings og nú. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun óháða könnunarfyrirtækisins Levada-miðstöðvarinnar, sem framkvæmd var seint í maí, segjast 59 prósent Rússa sáttir með embættisfærslur hans, en 34 prósent eru óánægðir með forsetann.
Viðbrögð rússneskra yfirvalda við kórónuveirufaraldrinum hafa eflaust einhver áhrif þar á, en þau hafa þótt slæleg og margir Rússar upplifa nú fjárhagsþrengingar, sem voru þó útbreiddar fyrir.
Oliver Carroll, fréttaritari breska blaðsins Independent í Moskvu, segir í umfjöllun sinni um málið að fáir trúi því að þjóðaratkvæðagreiðslan um stjórnarskrárbreytingarnar muni fara heiðarlega fram.
Hann bendir á að í síðustu viku hafi blaðamaður á útvarpsstöðinni Dozhd flett ofan af svindli varðandi rafrænar kosningar, sem fól í sér að eldri borgarar í Moskvu voru skráðir til þess að kjósa rafrænt án þeirrar vitneskju, gegn greiðslu til þeirra sem skráðu þá.
Yfirvöld brugðust við þessu með því að senda lögregluþjóna í heimsókn á útvarpsstöðina síðla á miðvikudagskvöld.
Stjórnarandstæðingar í Rússlandi eru að sögn Carroll ekki sammála um hvernig skuli mótmæla stjórnarskrárbreytingunum, sem sagðar eru ólýðræðislegar. Sumir vilja hunsa þjóðaratkvæðagreiðsluna alfarið en aðrir vilja hvetja fólk til þess að mæta á kjörstað og mótmæla með atkvæðum sínum.