Drífa Snædal, forseti ASÍ, telur það ekki ráðlagt að sambandið lýsi því yfir að það ætli að segja upp lífskjarasamningnum í haust. Þetta kom fram í ávarpi Drífu á formannafundi ASÍ í dag. Forsenduákvæði kjarasamninga koma til endurskoðunar í september og í ávarpinu sagði hún verkefni ASÍ vera að verja það sem hefur áunnist og knýja fram það sem út af stendur í loforðum stjórnvalda.
Í ávarpi sínu sagði Drífa það ljóst að staðan í dag væri mjög frábrugðin því sem hún var þegar samningurinn var undirritaður. Auk þess sagði hún að mörg stórmál sem tengd væru samningnum hefðu ekki náð fram að ganga. Að hennar mati er fleiru um að kenna en veirunni.
„Mál hafa strandað í samtölum okkar við Samtök atvinnurekenda, mál hafa strandað í einhverjum stjórnarflokknum eða jafnvel dagað uppi í ráðuneytum. Önnur stórmál hafa ýtt þessum til hliðar en COVID ber ekki ábyrgð á öllu því sem aflaga hefur farið. Það er mjög misjafn áhugi hjá stjórnvöldum og atvinnurekendum að klára það sem lagt var upp með síðasta vor,“ sagði Drífa í ávarpinu.
Hún sagði að brýnt væri að hækka atvinnuleysisbætur, lengja tímabil tekjutengingar atvinnuleysisbóta og draga úr skerðingum í almannatryggingakerfinu. Þá sagði hún það vera risavaxið verkefni að tryggja að reikningurinn vegna björgunaraðgerða ríkisstjórnarinnar verði ekki sendur almenningi í formi niðurskurðar, gjaldtöku, kaupmáttarrýrnun eða sölu á opinberum eignum.
Drífa sagði að styrkur samtakanna lægi helst í samstöðu og að hún skipti sköpum í komandi endurskoðun: „Árangur okkar í haust ræðst af því hvort við mætum samstillt eða sundruð til viðræðna, og þar með staða okkar félagsmanna. Það er til mikils að vinna og ég bið ykkur lengstra orða að takast á um leiðir og hugmyndir á okkar vettvangi en mæta svo sem ein rödd í viðræður hvort sem er gagnvart atvinnurekendum eða stjórnvöldum.“