Ráðgert er að heimilt verði að veita allt að 4,5 milljörðum króna úr nýjum Ferðaábyrgðarsjóði, sem verður í vörslu Ferðamálastofu, til þess að endurgreiða neytendum pakkaferðir sem ekki voru farnar vegna kórónuveirufaraldursins. Ferðaskrifstofur munu hafa allt að sex ár til þess að greiða sjóðnum til baka.
Ekki er búið að leggja fram frumvarp um sjóðinn, en fjallað er um væntanlega stofnun hans í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar um frumvarp til fjáraukalaga, sem birt var á vef Alþingis í dag.
Stofnun þessa nýja sjóðs er viðbragð við því að frumvarp sem Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra ferðamála lagði fram og átti að heimila ferðaskrifstofum að endurgreiða neytendum með inneignarnótum til 12 mánaða naut ekki meirihlutastuðnings á Alþingi.
Samkvæmt því sem fram kemur í nefndarálitinu mun frumvarpið ná til endurgreiðslu ferða sem átti að fara frá 12. mars til og með 30. júní en þurfti að aflýsa vegna heimsfaraldursins.
„Ef ferðamenn hafa ekki fengið endurgreiðslu frá skipuleggjendum eða smásölum geta þeir beint kröfu að Ferðamálastofu um að sjóðurinn endurgreiði þeim þær greiðslur sem þeir eiga rétt á til endurgreiðslu samkvæmt ákvæðum laganna. Skipuleggjendur eða smásalar sem hafa endurgreitt ferðamönnum vegna pakkaferða geta einnig beint kröfu að Ferðamálastofu um að sjóðurinn endurgreiði þeim þær greiðslur,“ segir í nefndarálitinu.
Þar kemur einnig fram að lagt sé upp með að ferðaskrifstofur endurgreiði það sem sjóðurinn leggur til á allt að sex árum og að vextirnir á kröfu sjóðsins verði á markaðsforsendum.
Skilyrði fyrir endurgreiðslu úr sjóðnum verða nánar útfærð í frumvarpinu sjálfu, þegar það lítur dagsins ljós.