Áætlað var að 189 skemmtiferðaskip kæmu til Reykjavíkur á þessu ári, en Gísli Gíslason hafnarstjóri Faxaflóahafna segir að nú sé ekki búist við því að eitt einasta skili sér, sökum áhrifa kórónuveirufaraldursins á skemmtisiglingaiðnaðinn.
Gísli segir ljóst að tapið vegna þessa fyrir hafnir landsins hlaupi á milljörðum, en bara hjá Faxaflóahöfnum sé tekjufallið áætlað 600-700 milljónir króna, sem sé um 15 prósent af árstekjunum.
Hafnarstjórinn segir þó, í svari við fyrirspurn Kjarnans, að einhver minni skemmtiferðaskip, svokölluð „expedition“-skip, gætu hugsanlega komið til landsins með haustinu, en þau verði tæplega mörg.
Gísli segir ekki blása byrlega í skemmtisiglingabransanum þessa dagana, en skipin liggja um þessar mundir langflest verkefnalaus í höfnum heimsins.
Heimsfaraldurinn fór illa með bransann, enda voru þó nokkur dæmi um að hópsýkingar kæmu upp í þessum risavöxnu hótelum hafsins og hálfgerðar hryllingssögur bárust frá farþegum sem lýstu dvöl sinni á skipum sem fengu hvergi að leggjast að bryggju eftir að farþegar fóru að veikjast um borð.
Gísli segir að merkja megi áhuga útgerða á að komast aftur af stað, en ferðavilji viðskiptavina ráði þó eflaust meiru um hvernig málin þróast en áhugi útgerðanna.
Á næsta ári, segir Gísli, er talsvert bókað fyrir skemmtiferðaskip, en ennþá er óljóst hver þróunin verður, þó reikna megi með því að skemmtiferðaskipin verði almennt farin að sigla ef ekki verði bakslag í faraldrinum.
Sem áður segir býst Gísli við því að tekjur Faxaflóahafna dragist saman um nærri 15 prósent sökum þess að skemmtiferðaskipin koma ekki, en hann segir að hafnir á borð við Ísafjarðarhöfn og Akureyrarhöfn hafi enn hærra hlutfall af sínum heildartekjum frá skemmtiferðaskipum. Þá eigi eftir að telja með tap ferðaþjónustuaðila uppi á landi.
Samkvæmt könnun sem samtökin Cruise Iceland unnu árið 2018 í samstarfi við Hafnasamband Íslands var þjóðhagslegur ávinningur af komum skemmtiferðaskipa um 16,4 milljarðar króna það ár.