Félag atvinnurekenda (FA) hefur sent Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra erindi vegna útfærslu á stuðningi ráðuneytis hennar við sumarnám, en 500 milljónum króna var veitt til sumarnáms á háskólastigi.
FA segir að skoðun sín á málinu hafi leitt í ljós að verulegur hluti þeirrar fjárhæðar renni til símenntunarstofnana háskólanna og feli í sér tugþúsunda niðurgreiðslur á námskeiðum sem séu í beinni samkeppni við námskeið á vegum einkarekinna fræðslufyrirtækja.
„Endurmenntunardeildir háskólanna auglýsa nú námskeið á 3.000 krónur, sem alla jafna kosta tugi þúsunda. Í kynningum á þeim segir beinum orðum að þau séu niðurgreidd af menntamálaráðuneytinu,“ segir í erindi FA.
Þetta, segir FA, virðist brjóta gegn banni gegn samkeppnishamlandi ríkisstyrkjum sem fjallað er um í 61. grein EES-samningsins og að mati FA brýtur þessi niðurgreiðsla ráðuneytisins á námskeiðum einnig gegn lögum um opinbera háskóla og samkeppnislögum, en nánar er fjallað um erindi FA til ráðherra á vef félagsins.
Þar kemur fram að Samkeppniseftirlitinu og Eftirlitsstofnun EFTA hafi einnig verið send afrit af erindinu.
Ósanngjörn samkeppni að mati einkafyrirtækja
Kjarninn fjallaði um þessi sumarúrræði stjórnvalda fyrr í þessum mánuði og greindi frá óánægju framkvæmdastjóra tveggja einkafyrirtækja á fræðslumarkaði með niðurgreidd námskeið á vegum háskóla landsins.
„Okkur finnst þetta dálítið sérstakt, að það sé í raun og veru verið að halda þessu innan ríkisins. Eins og við horfum á þetta þá er auðvitað nógu erfitt að reka einkafyrirtæki með öllum þeim áföllum sem hafa dunið yfir síðustu mánuði,“ sagði Jón Jósafat Björnsson framkvæmdastjóri Dale Carnegie á Íslandi þá í samtali við Kjarnann og Ingrid Kuhlman, framkvæmdastjóri hjá Þekkingarmiðlun tók í sama streng.
Hún benti á að endurmenntunardeildir háskólanna væru að bjóða upp á námskeið sem að einhverju leyti sköruðust við framboð einkafyrirtækjanna á þessum markaði.
„Þetta eru meðal annars námskeið um jákvæða sálfræði, um breytingastjórnun og um árangursríka framkomu. Þetta eru allt námskeið sem einkaaðilar bjóða líka upp á. Nú er ég með framkomunámskeið og um teymisvinnu. Það er alveg ljóst að við sem einkaaðilar á fræðslumarkaði getum ekki keppt við þessi verð. Það er alveg ljóst að ég mun ekki bjóða upp á nein námskeið í jákvæðri sálfræði í bili,“ sagði Ingrid.
Félag atvinnurekenda segir að auðveldlega hefði mátt útfæra að minnsta kosti hluta stuðningsins með öðrum hætti, til dæmis með svipuðum móti og ferðagjöf stjórnvalda, einhverskonar ávísanakerfi þar sem einstaklingar gætu nýtt námsstyrk frá ríkinu ýmist hjá háskólum eða einkareknum fræðslufyrirtækjum. Með því móti hefði samkeppnisstaðan á þessum markaði, sem þegar væri skökk, ekki skekkst enn frekar.