Keir Starmer leiðtogi breska Verkamannaflokksins rak í dag þingkonuna Rebeccu Long-Bailey úr skuggaráðuneyti sínu, eftir að hún deildi viðtali af vef Independent við bresku leikkonuna Maxine Peake með fylgjendum sínum á Twitter.
Í viðtalinu er haft eftir Peake að bandaríska lögreglan hafi lært þá tækni, að krjúpa með hné á hálsi George Floyd, á námskeiðum hjá ísraelsku leyniþjónustunni. Fullyrðingum Peake um þetta efni hefur verið mótmælt af ísraelskum yfirvöldum og ekkert kemur fram um það í viðtalinu við hana hvaðan þessar upplýsingar væru fengnar.
Rebecca Long-Bailey deildi viðtalinu með þeim orðum að Maxine Peake væri „algjör demantur“.
Maxine Peake is an absolute diamond https://t.co/uzxPEm8VkI
— Rebecca Long-Bailey (@RLong_Bailey) June 25, 2020
Talsmaður flokksleiðtogans sagði í yfirlýsingu að greinin sem Long-Bailey deildi með fylgjendum sínum á Twitter í morgun hefði falið í sér samsæriskenningu um gyðinga, en samtök breskra gyðinga höfðu áður fordæmt tístið og beðið þingkonuna um að eyða því og biðjast afsökunar.
Það gerði hún ekki, en sagði þó að tíst hennar hefði ekki átt að taka sem stuðningi við allt það sem kom fram í greininni.
Atburðarás dagsins hefur nú verið hröð og nú hefur þetta mál leitt til þess að Long-Bailey, sem endaði önnur á eftir Starmer í leiðtogakjöri Verkamannaflokksins fyrr á árinu, er ekki lengur í skuggaráðuneyti flokksins, en þar var hún skuggaráðherra menntamála.
Ætlar sér að vinna traust gyðinga
Keir Starmer hefur sagst ætla að endurheimta traust gyðingasamfélagins í Bretlandi, en þau ár sem flokkurinn var undir stjórn Jeremy Corbyn kom oft og tíðum fram gagnrýni vegna meints gyðingahaturs innan flokksins, sem flokksforystan var sökuð um að láta óátalið. Rebecca Long-Bailey var einmitt náinn samstarfsmaður Corbyn er hann var leiðtogi flokksins.
Er Starmer tók við embætti flokksformanns í byrjun apríl lýsti hann því yfir að hann ætlaði að úthýsa gyðingaandúð algjörlega úr Verkamannaflokknum.
„Við þurfum að takast heiðarlega á við framtíðina. Gyðingaandúð hefur verið smánarblettur á flokknum okkar. Ég hef séð sorgina sem hún hefur haft í för með sér í svo mörgum samfélögum gyðinga. Fyrir hönd Verkamannaflokksins, þá biðst ég forláts,“ sagði Starmer í ræðu sem hann hélt við það tilefni, áður en hann hét því að „rífa eitrið út með rótum.“
Árangurinn af vinnu sinni sagðist hann ætla að meta með hliðsjón af því hversu margir gyðingar sneru aftur í flokkinn.